Jakob segir ekki hvern sem er hafa mátt segja orðið Epalhommi
Jakob Bjarnar Grétarsson blaðamaður á Vísi segir að rétttrúnað sé að drekkja umræðunni á Íslandi. Nýjasta dæmið sé valið á orði ársins, ‘Epalhommi‘, og umræðunni sem kom í kjölfarið. Hann ræddi málið í þættinum Harmageddon á X-inu 977 í morgun. Rifjaði hann upp tildrög orðs ársins í fyrra:
„Það er svo afhjúpandi þegar minnihlutahópum lýstur saman, við þurfum að hafa í huga hvað áður hefur á gengið. Sindri Sindrason var að tala viðtal við Töru Vilhjálmsdóttur sem er formaður Samtaka um líkamsvirðingu. Þetta snýst ekkert um hvað var sagt heldur hver segir hvað við og við hvern. Hildur vill meina það að Sindri þyrfti að gerbreyta öllu sínu tali vegna þess að hann væri í einhverri yfirburðastöðu gagnvart Töru. Þarna er strax kominn mikill misskilningur. Sindri er ekki að rökræða við Töru, hann er að taka við hana viðtal og gerir það sem að blaðamenn eiga að gera, spyrja gagnrýnna spurninga,“ segir Jakob og bætir við: „Hann sem hommi, er hann í yfirburðastöðu gagnvart feitum konum? Hvor hópurinn er stærri? Hvernig eigum við að nálgast þetta?“
Jakob er hrifinn af orðinu ‘Epalhommi‘, sem Hildur Lilliendal bjó til, og segir orðhnyttni Hildar skýra hversu margir fylgja henni á samfélagsmiðlum. Hann er hins vegar á því að ekki hver sem er hafi mátt búa til þetta orð:
„Þetta er svona orð sem hefur leikið lausum hala í þessu rassgati rétttrúnaðarins sem Twitter virðist vera, þar sem smásálirnar hafast við. Þær eru nú ekki meiri smásálir en svo að áhrif þeirra teygja sig upp í þessar virðulegu stofnanir.“
Máni Pétursson þáttastjórnandi benti á að eftir viðtal Sindra við Töru hafi fólk á samfélagsmiðlum talað um að Sindri hafi náð að hakka Töru í sig. „Öll viðbrögðin voru á þá vegu þangað til Hildur stígur fram og segir þessa skoðun sína og kemur með þetta orð ‘Epalhommi‘. Hildur var nú nokkuð hugrökk að stíga inn í þetta.“
Jakob sagði á móti að umræðan væri að drukkna í rétttrúnaði. „Það er við hæfi að spyrja gagnrýnna spurninga vegna þess að við erum gjörsamlega að drukkna í rétttrúnaði, sem er ofboðslega mótsagnakenndur og þetta snýst allt um hvor er meiri minnihlutahópur. Svo koma eftiráskýringar sem að Baldur Þórhallsson háskólahommi kallar nettröll. Við erum í stórkostlegum vandræðum með hvað má segja og hvað má ekki segja,“ segir Jakob og vísar til gagnrýni Baldurs á orðið ‘Epalhommi‘ sem búið var til af Hildi Lillendahl.
„Eftiráskýringar nettröllsins, sem sumir vilja kalla netníðing, eru alveg kostulegar því hún vill meina það að þetta orð hafi aldrei verið sett fram af hennar hálfu sem niðrandi. Kanntu annan? Auðvitað var þetta niðrandi. Þá kemur önnur mótsögnin í þetta, má Baldur, sem er háskólahommi, kalla Hildi nettröll? Þetta er orðin ein allsherjarvitleysa.“
Vill Jakob meina það að rétttrúnaður í nafni gæsku sé að valta yfir öll blæbrigði í íslensku tungumáli.
„Við eigum að vera svo góð við allskonar aumingja sem tilheyra minnihlutahópum. Ég tel að fordómar séu í því faldir að vera alltaf að tala um minnihlutahópa. Ég hef aldrei litið á það að samkynhneigðir séu eitthvað undirsettir hvað mig varðar, ég skil þetta tal ekki. Ég skil þetta ekki.“