Fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson heldur fram að listi sem Andrés Jónsson almannatengill birti á Facebook-síðu sinni um 60 efnilegt fólk í viðskiptalífinu endurspegli ömurlegt landslag í íslenskum viðskiptaheimi. Segir Gunnar Smári það lýsandi að á listanum sé einungis þrjú fyrirtæki að finna sem stofnuð voru eftir hrun. Félag Andrésar, Góð samskipti, tók saman tvo lista, annars vegar 40 stjórnendur, 40 ára og yngri, og hins vegar 20 vonarstjörnur í viðskiptalífinu.
„Það sorglegasta á internetinu í dag. Andrés Jónsson er kannski ekki góður greinandi en hann er naskur að drekka í sig það sem er í tísku, hvað þykir smart og eftirsóknarvert. Þarna telur hann upp 60 aðdáunarvert ungt fólk undir fertugu í viðskiptum (það má sjá listana með því að ýta á linka neðst í fréttinni) og af þeim vinnur meira en 1/3 hjá fjármálafyrirtækjum. Þarna eru líklega ekki fleiri en þrjú fyrirtæki sem eru stofnuð eftir Hrun,“ skrifar Gunnar Smári.
Hann segir gömul fyrirtæki allsráðandi. „Af framleiðslufyrirtækjum vinna átta hjá Marel og Össuri, helmingi fleiri en hjá öðrum yngri fyrirtækjum sem reyna að finna eitthvað upp, búa til eitthvað nýtt. Það er álíka margt af þessu fólki og vinnur við hagsmunagæslu hinna ríku í samtökum fyrirtækja. Ferðaiðnaðurinn, vaxtarbroddur hagkerfisins, á varla fleiri en fimm, ef talið er saman samgöngur og veitingar,“ skrifar Gunnar Smári.
Hann segir að allt þetta efnilega unga fólk búi ekki til neitt heldur mergsjúgi almenning. „Ef trúa má Andrési er draumur ungs fólk í viðskiptalífinu að verða millistjórnandi í einhverju rótgrónu fyrirtæki sem getur sogið líf úr samfélaginu varið af markaðshindrunum og fákeppni. Þetta unga fólk er ekki að búa neitt til, ekki að þróa áfram samfélagið, aðeins að aðstoða hina ríku við að mergsjúga almenning,” skrifar Gunnar Smári.
Andrés Jónsson svarar fyrir sig og segir þetta sé samantekt um fólk starfar í mjög þröngu mengi. „Það þarf að takmarka sig í svona listagerð og í þessu fellst enginn dómur um að það sé eitthvað eftirsóknarverðara að vinna í þessum geirum/fyrirtækjum frekar en öðrum,“ segir Andrés.
Gunnar Smári svarar til baka og bendir á að þessi listi sé einmitt afhjúpandi: „Ekki gera lítið úr þessu Andres, þetta er stórmerkilegt. Og það sem okkur mörg hefur lengi grunað, að íslenskt viðskiptalíf sé lokað matador fárra stórfyrirtækja og örfárra ríkra fjölskyldna. Ungt fólk getur valið um að basla á akrinum eða flytja inn í hlýjuna hjá húsbændunum og sleikja þar á þeim rassgatið.“