„Kæru Íslendingar. Mig langar að biðja ykkur um að leggja þetta andlit á minnið. Þetta er hin 11 ára Haniye Maleki. Hún er fædd á flótta. Hefur verið á flótta allt sitt líf. 11 ár. Á ekkert heimaland. Ekkert heimili. Er ríkisfangslaus. Hún fór yfir Miðjarðarhafið á slöngubát í baráttunni fyrir lífi sínu og framtíð. Tvisvar. Hún þjáist af alvarlegum andlegum veikindum sem hún þarf nauðsynlega aðstoð með. Hún er því metin í „sérstaklega viðkvæmri stöðu“ af yfirvöldum.“
Þannig hefst pistill eftir Semu Erlu Serdar á Facebook. Hún gagnrýnir yfirvöld harðlega fyrir að vísa Abrahim Maleki og dóttur hans Haniye úr landi. Maleki sagði í samtali við Vísi að hann áttaði sig ekki á af hverju hann og dóttur hans mættu ekki búa á Íslandi.
„Það er mjög mikilvægt fyrir dóttur mína að stunda nám og lifa góðu lífi og við viljum búa á meðal Íslendinga,“ sagði Maleki.
Sema segir að Maleki sé alvarlega veikur eftir slys en hann er bæklaður á fæti.
„Hann þarf tíma og aðstoð til að ná sér á ný svo hann geti séð fyrir sér og dóttur sinni. Haniye hefur að miklu leyti séð um föður sinn síðustu árin á flótta. Hún hefur aldrei fengið að vera barn. Aldrei upplifað frið og ró. Skjól og vernd.
Nema þessa síðustu mánuði sem hún hefur dvalið á Íslandi. En nú er því lokið. Friðurinn er úti. Íslensk yfirvöld eru að fara að senda þessi gríðarlega brotthættu feðgin aftur á flótta. Út í óvissuna. Út í óöryggið. Þeirra helstu martröð. Það er ekki pláss fyrir þau hér að mati íslenskra yfirvalda sem nota úrelta og úr sér gengna valkvæða heimild til að senda þau úr landi. Þau vilja losna við þau. Og fleiri. Í næstu vél á eftir feðginunum verður annað flóttabarn. Og þau verða fleiri. Yfirvöld telja það ekki vera ábyrgð sína að veita Haniye eða öðrum börnum í hennar stöðu möguleika á framtíð.“
Þá ávarp Sema stjórnvöld og segir ákvörðunina um að vísa þeim úr landi, tekna af úreltum stofnunum á vakt ráðherra sem sýni algjört skilningsleysi og afskiptaleysi. Þar sé enga mannúð að finna og ríkisstjórnin sé samsek.
„Við ykkur kæru yfirvöld vil ég bara segja eitt. Sagan mun dæma ykkur og hún mun dæma ykkur hart. Grimmdin og mannvonskan sem þið sýnið fólki á flótta er forkastanleg.“