Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, segir það ljóst að fólk hafi gert sér það að leik að skjóta fugla á eggjum við Krísuvíkurbjarg. Starfsmenn stofnunarinnar fundu á dögunum nokkra tugi af riffilskotum við bjargið.
RÚV greinir frá þessu. Lögreglu hefur verið tilkynnt um málið enda óheimilt að skjóta á fugla á eggjum. „Það er fáránlegt að menn með byssuleyfi stundi þetta. Allir sem ljúka skotvopnaprófi eiga að vita að þetta er bannað,“ segir Sindri í samtali við RÚV. Helstu fuglategundir í bjarginu eru ritur, álkur, og svartfuglar.
Stofnunin greinir birtir myndir af skotunum á Facebook og skrifar: „Það er sorglegt að vita til þess að einhverjir geri sér það að leik að skjóta á fugla á hreiðrum.“