Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir er í hópi ríkustu manna Bretlands ef marka má úttekt sem birtist í tímariti Sunday Times á dögunum. Tímaritið er helgað auðmönnum í Bretlandi og eru eignir hans metnar á 1,45 milljarða punda, rétt tæplega tvö hundruð milljarða króna.
Björgólfur, sem er búsettur í London, er sagður hafa hagnast um 325 milljónir punda milli áranna 2015 og 2016. Hann er í 89. sæti á lista Sunday Times yfir ríkustu menn Bretlands. Í umfjöllun um hann segir að hann hafi eitt sinn tapað þremur milljörðum punda á þremur dögum í kjölfar efnahagsniðursveiflunnar 2008 en byggt viðskiptaveldi sitt upp aftur. Meðal helstu eigna Björgólfs má nefna helmingshlut í P4 sem er stærsta farsímafyrirtæki Póllands.