Clive Cressy (69) handtekinn á kaffihúsi í Phnom Penh á fimmtudag
Breski læknirinn Clive Cressy, 69 ára, var handtekinn á kaffihúsi í höfuðborg Kambódíu á fimmtudag og ákærður fyrir barnaníð í kjölfar lögreglurannsóknar. Í ljós kom að í ferðatöskum hans voru m.a. barnaföt, litabækur og Barbie-dúkkur.
Læknirinn er sakaður um að hafa greitt fjórum ungum stúlkum, 12, 13, 14 og 15 ára fyrir vændi. 27 ára gömul kærasta hans frá Víetnam var einnig handtekin en hún er grunuð um að hafa útvegað lækninum börnin. Lögregluyfirvöld í Kambódíu fullyrða að Cressy hafi greitt sem nemur ríflega 300 þúsund krónum fyrir að níðast á hreinni mey.
Parið kom fyrir dómstól í Phnom Penh í gær þar sem þau hlýddu á sakarefni og voru síðan flutt í gæsluvarðhald. Réttarhöldin fara fram síðar á árinu.
Breska dagblaðið Daily Mail hefur eftir Keo Thea, yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar í Phnom Penh, að fylgst hafi verið með Cressy um nokkurra mánaða skeið.
Eftir að hafa verið handtekinn á kaffihúsi í síðustu viku var gerð húsleit í íbúð hans þar sem ýmislegt grunsamlegt fannst. Meðal annars ferðatöskur með leikföngum, barnafötum, kynlífsleikföngum, stinningarlyfjum og fleiru. Lagði lögreglan einnig hald á tölvu og myndbandsupptökuvél.
Lögreglan hóf að fylgjast með Cressy eftir að mæður stúlknanna sem honum er gefið að sök að hafa níðst á tilkynntu hann til lögreglu.