Flytjandi gagnrýnir RÚV fyrir hljóðblöndun í söngvakeppninni – „Áberandi vont“
„Mér fannst þetta svo mikið vont. Mér brá eiginlega,“ segir Unnur Birna Björnsdóttir, einn af flytjendum lagsins Heim til þín, í samtali við DV. Lagið var á meðal þeirra sem tóku þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins um helgina. RÚV sýndi beint frá viðburðinum í sjónvarpinu.
Það sem Unnur Birna, og raunar fleiri aðstandendur lagsins, gagnrýnir er hljóðblöndun af hálfu RÚV. Hún segir á Facebook að nær allt hafi verið til fyrirmyndar á sviðinu og baksviðs. Hljóðið í salnum hafi verið mjög gott. Það hafi hins vegar ekki skilað sér í beinu útsendinguna. Beinar útsendingar, með tónlist í forgrunni, séu ekki sterkasta hlið RÚV. „Ég hvet ykkur til að hlusta á þetta lag og raddmassann sem er í því – og gerir mjög mikið fyrir lagið; bæði dýnamískt og listrænt. Hlustið svo á „live“ útsendinguna. Þetta er ekki nálægt því að vera sambærilegt.“ Hún tekur skýrt fram að gagnrýnin snúist ekki um úrslit keppninnar en lagið komst ekki áfram. Hljóðblöndun hafi verið ábótavant í fleiri lögum.
Hljóðmaður á RÚV bendir á Facebook á að ekki sé hægt að bera saman stúdíóupptökur og beinar útsendingar. Þá geti öllum orðið á mistök.
Spurð hvort hægt sé að gera ráð fyrir því að bein útsending standist upptöku úr hljóðveri snúning segir Unnur Birna að svo sé vissulega ekki. „Það er aldrei hægt að gera þá kröfu. Aldrei hægt að ætlast til að það verði nákvæmlega eins.“ Hún segir hins vegar að grunnhugmyndin í hljóðblöndun verði að vera í lagi.
Hún segir að lagið Heim til þín hafi alls ekki skilað sér með fullnægjandi hætti í útsendingunni. Bakraddirnar hafi varla heyrst og annar aðalsöngvarinn hafi verið hærra stilltur en hinn. „Þórdís var hæst en það voru tveir aðalsöngvarar. Þetta var áberandi vont. Laglínan kom heldur ekki fram á öllum stöðum“. Alls ekki hafi mátt heyra að sex manneskjur væru að syngja, hvað þá að aðalsöngvararnir væru tveir.
Hún tekur skýrt fram að hún áfellist ekki RÚV fyrir hljóðblöndunina eða einstaka starfsmenn stofnunarinnar. Allir séu vafalaust að gera sitt besta. Hún segir hins vegar að þetta sé umtalað á meðal tónlistarmanna og beinar útsendingar hafi verið með þessum hætti í langan tíma. Hún hafi mestan áhuga á að komast til botns í málinu og leita lausna. Það sé allra hagur að tónlistin skili sér sem best til áhorfenda.
Júlí Heiðar Halldórsson, annar af aðalsöngvurum lagsins, er ómyrkur í máli í athugasemd við lagið. „Við vorum frábær en hljóðblöndunin var hörmung.“
Lagahöfundurinn Sveinn Rúnar Sigurðsson, sem hefur átt fjölmörg lög í undankeppnum RÚV, og samdi lagið Nótt sem flutt var á laugardag, tekur undir með Unni Birnu. „Verð því miður að taka undir hvert einasta orð í þessum pistli.“
Tónlistarmaðurinn Arnar Jónsson, sem flutti lagið Til mín, ásamt Rakel Pálsdóttur, leggur einnig orð í belg. „Við vorum hrikalega leið fyrir ykkar hönd þegar við hlustuðum á ykkar lag … Það er svo leiðinlegt þegar svona gerist, öll vinnan sem var unnin … Þetta var svona hjá okkur líka, en alls ekki svona slæmt,“ skrifar hann.
Hrafnkell Sigurðsson, hljóðmaður hjá RÚV, svarar Unni Birnu á Faceook. Hann segir að aldrei sé hægt að ætlast til að stúdíóupptaka, þar sem hvert smáatriði sé fínstillt, muni hljóma eins og lifandi upptaka í sjónvarpinu. Þá geti öllum orðið á mistök eða misreiknað hljóminn. „Meira að segja hljóðmaðurinn á Grammy-verðlaununum fyrir nokkrum vikum síðan kunni ekki að opna fyrir mækinn hjá James Hetfield í Metallica. Milljónir urðu vitni.“ Hann bætir við að það sé ósanngjörn fullyrðing að segja að RÚV sé ófært um útsendingar á lifandi tónlistarflutningi og dagskrárliðum og viðburðum sem RÚV annast þar sem lifandi músík kemur við sögu. „Ég leyfi mér að fullyrða að enginn fjölmiðill sendi út jafnmikið af lifandi tónlistarflutningi í beinni útsendingu ár hvert. Að þessu sögðu vil ég sem hluti af þessari hljóðkeðju segja, afar leitt að ekki hafi tekist að skila því sem þið vilduð til áheyrenda.“
Unnur Birna ítrekar í samtali við DV að það sé henni kappsmál að leita skýringa á þessu og finna lausnir. Hana langi fyrst og fremst að vita hvað sé að. „Ég er ekki að lasta RÚV en bara benda á hvað þurfi að laga. Maður getur alveg móðgast, sem listamaður. Maður hugsar sig tvisvar um hvort mann langi að taka þátt aftur.“