Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra er sakaður af Skúla Einarssyni, föðurbróður sínum, um að hafa brotist í þrígang inn í íbúðar- og útihús á jörðinni Lambeyrum í Dölum fyrr á þessu ári. Innbrotin eru sögð tengjast deilum um jörðina og íbúðarhús á henni.
Stundin greinir frá þessu. DV gerði tilraun til að bera þessar ásakanir undir Ásmund Einar en slökkt var á síma hans. Í tölvupósti til Stundarinnar segir Ásmundur Einar að málið sé sorgarsaga og vísaði á föður sinn, Daða Einarsson. „Það sem við kemur þessari sorglegu erfðadeilu er ekki á mínum snærum. Til að fá upplýsingar þá bendi ég þér á að hafa samband við föður minn,“ er haft eftir Ásmundi Einar.
Skúli fullyrðir í viðtali við Stundina að lögregla hafi staðið Ásmund Einar að verki í eitt skipti. „Lögreglan stóð þá feðga Ásmund og Daða að innbroti þann 18. mars í íbúðarhús sem fylgdi Lambeyrum á nauðungarsölunni. Alls höfum við tilkynnt til lögreglu 3 innbrot í íbúðarhúsið ásamt 3 innbrotum í útihús sem fylgdu jörðinni. Ég stóð Ásmund að verki í einu af þessum innbrotum í útihúsin. Það tilkynnti ég strax til lögreglu,“ segir Skúli í samtali við Stundina.