Var dæmdur í 12 mánaða fangelsi í héraði – Réðst á unnustu sína og forstöðumann öryggisvistunar í Rangárseli
Hæstiréttur hefur þyngt dóm yfir Sigurði Almari Sigurðssyni sem dæmdur var í 12 mánaða fangelsi í héraði í september. Niðurstaða æðsta dómstigsins var sú að tveggja ára fangelsi væri hæfileg refsing fyrir Sigurð Almar sem hafði gerst sekur um þjófnað og margs konar ofbeldisbrot, meðal annars gegn unnustu sinni og starfsmönnum öryggisvistunarinnar í Rangárseli, þar sem Sigurður Almar var vistaður.
Sigurður Almar réðst tvisvar gegn starfsmönnum að Rangárseli. Fyrri árásin átti sér stað um miðjan dag, þriðjudaginn 14. júní, þegar Sigurður Almar var nýfluttur inn í öryggisvistunina. Starfsmennirnir, sem voru þrír saman, tilkynntu þá skjólstæðingi sínum að hann þyrfti að greiða húsaleigu og matarkostnað. Því tók Sigurður Almar illa og réðst hann að starfsmönnunum með grófu ofbeldi. Meðal annars skallaði hann einn þeirra og lét högg og spörk dynja á öllum þremur. Tveir starfsmenn náðu við illan leik að læsa Sigurð Almar inni. Það fór þó ekki betur en svo að þriðji starfsmaður varð eftir í rýminu með Sigurði Almari sem réðst að viðkomandi með höggum og hrákum. Loks tókst að bjarga þessum starfsmanni frá vistmanninum en allir þrír starfsmennirnir þurftu að leita sér læknisaðstoðar eftir árásina.
Tveimur dögum síðar varð önnur uppákoma þar sem Sigurður Almar sturlaðist í íbúð sinni vegna ósættis varðandi lyfjagjöf. Réðst hann með afli á stálhurð sem skildi vistarverur hans og aðstöðu starfsmanna að. Í dómnum kemur fram að hurðin hafi verið við það að gefa sig og dyrakarmurinn hafi verið nálægt því að losna. Starfsmennirnir hafi lagst á hurðina til þess að varna því að Sigurður Almar brytist í gegn. Meðan á þessu stóð á ofbeldismaðurinn að hafa kallað ókvæðisorð að starfsmönnum, meðal annars að hann hafi ætlað að „stúta“ þeim. Í báðum tilvikum var lögreglan kölluð á vettvang og horfðu íbúar í hverfinu á Sigurð Almar dreginn út í járnum.
Árásin gegn unnustunni átti sér stað 10.desember í fyrra. Þá var lögreglan kvödd að Grettisgötu í Reykjavík vegna konu sem þar væri í miklu uppnámi. Er talið sannað að Sigurður Almar hefði lagt hendur á konuna en hún var með áverka á hægri kjálka, blóðug hægra megin á andliti og með sár á milli baugfingurs og löngutangar hægri handar. Sigurður Almar var handtekinn fyrir framan húsið en hann neitaði að hafa „lamið“ brotaþola. Hélt hann þessari sögu til streitu í yfirheyrslum en bætti því við, sem líklegri skýringu, að hundur hefði bitið konuna í andlitið og þannig væru áverkarnir til komnir.
Konan breytti vitnisburði sínum fyrir dómi. Hélt hún því fram hún hefði óskað aðstoðar lögreglu við að ná í veski sitt sem hafði orðið eftir í íbúðinni. Þá sagði hún að hundur hefði ráðist á hana í íbúðinni og að áverkana á andliti hennar mætti rekja til þess.
Að auki var Sigurður Almar dæmdur fyrir líkamsárás gegn manni í bíl á leið á Reykjavíkurflugvöll í nóvember 2016. Þar veittist hann að manninum, sló hann ítrekað hnefahögg í andlit, höfuð og líkama. Braut brotaþolinn rúðu í bílnum og fór úr honum á ferð til að komast undan árásinni. Maðurinn hlaut heilahristing, tognun og ofreynslu á lendarhrygg, og ýmsa aðra áverka í kjölfar atviksins.
Sigurður Almar tók húslykla af brotaþolanum og var síðar um daginn handtekinn á heimili hans þar sem hann var í óða önn að stela öllu steini léttara.