Íslenska ríkið hefur verið sýknað af kröfu konu sem hélt því fram að starfsmenn spítalans hefðu gert saknæm mistök í fæðingu hennar árið 1996. Konan varð fyrir líkamstjóni vegna axlarklemmu í fæðingunni og er í dag greind með 30 prósent örorku en hún hélt því fram að starfsmenn spítalans hefðu ekki gætt réttra aðferða í aðdraganda fæðingarinnar svo og við fæðinguna sjálfa.
Fæddist konan árið 1996 eftir tæplega 38 vikna meðgöngu. Á meðgöngunni lá fyrir að móðir konunnar hafði verið með sykursýki frá 13 eða 14 ára aldri og var hún af þeim sökum undir sérstöku eftirliti Reynis Tómasar Geirssonar, yfirlæknis á kvennadeild Landspítalans, sem var á þeim tíma einn af leiðandi sérfræðingum landsins í meðferð og eftirliti sykursýki á meðgöngu.
Var móðurinni ráðgert af honum að fæðing færi fram á 38 eða 39 viku en við skoðun á 37 viku meðgöngu var hins vegar ákveðið að flýta fæðingu vegna stærðar barnsins. Áætluð þyngd var 3900 g sem er innan við 4500 g sem enn í dag eru þau stærðarmörk sem klínískar leiðbeiningar setja um hvort íhuga skuli fæðingu með keisaraskurði hjá konum með sykursýki.
Fyrir dómi hélt konan, stefnandi málsins því fram að ljósmóðir hefði átt að kalla til sérfræðilækni strax til að meta stöðuna og að sá læknir hefði átt grípa inn í fæðinguna og beita viðurkenndum læknisfræðilegum aðferðum til að gæta fyllsta öryggis við þær aðstæður sem höfðu skapast.
Lagði konan fram þau rök að hún hefði orðið fyrir varanlegu líkamstjóni þar sem notast var við sogklukku við fæðinguna. Ljóst hafi verið að um erfiða fæðingu var að ræða þar sem um var að ræða frumbyrju með þekkta sykursýki sem gengin var 38 vikur. Vitað hafi verið fyrir fram að barnið væri stórt en slíkt er alþekkt hjá mæðrum með sykursýki. Þá hafi hætta á axlarklemmu einnig verið vel þekkt fyrir fæðinguna vegna legu barns og stærðar þess. Því hafi verið talið nauðsynlegt að hafa sérfræðing viðstaddan fæðingu en raunin hafi orðið önnur. Byggði hún stefnuna einnig á því að senda hefði átt móður hennar í keisaraskurð í ljósi allra fyrirliggjandi áhættuþátta eða beita öðrum betri og þekktari aðferðum.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að ekki verði annað séð séð en að hlutaðeigandi læknir hafi mælt ætlaða stærð og þyngd barnsins með viðurkenndum aðferðum þess tíma og einnig tekið tillit til líkamsbyggingar og heilsu móður við mat á framhaldi málsins. Þá taldi dómurinn ekkert í málinu benda til þess að á áðurgreindu tímamarki væri eðlileg fæðing sérlega áhættusöm fyrir móður eða barn. Því var ekki fallist á að saknæm mistök hefðu verið gerð við fæðinguna.