„Ég gengst við þessu. Ég er ekkert í neinni baráttu við að fela eitthvað. Þó ég hafi ekki opinberlega gengist við þessu, þá er ég ekki í neinni baráttu við að fela neitt. Það er mjög eldfimt ástand í samfélaginu öllu og núna síðast í mínum bransa eins og kom í ljós í gær.“
Þetta segir Þórir Sæmundsson leikari sem var stjarna í Þjóðleikhúsinu síðasta vetur. Hann lék aðalhlutverkið í Djöflaeyjunni og í Hjarta Hróa hattar. Fáir ungir leikarar hafa risið jafn hratt á eins skömmum tíma í leikhúsheiminum. En síðasta vor var honum vikið frá störfum. Sögusagnir voru um að brotthvarf Þóris tengdist því að hann hefði áreitt táningsstúlkur með því að senda myndir af getnaðarlimi sínum. Var það altalað á meðal leikara og starfsmanna svo mánuðum skipti að þannig væri í pottinn búið.
DV hefur heimildir fyrir því að kynferðisleg áreitni Þóris tengist brotthvarfi hans. Sjálfur viðurkennir Þórir í samtali við DV að hann hafi sent myndir af getnaðarlimi sínum. Þá segist hann hafa gerst sekur um ósæmilega hegðun og áreiti. Hann kveðst hafa leitað sér hjálpar og sé enn að vinna í sjálfum sér. Hann hafi ekki viljað stíga fram með yfirlýsingu fyrr en hann hefði náð einhverjum bata. DV hafði einnig samband við Ara Matthíasson Þjóðleikhússtjóra sem kvaðst ekki geta tjáð sig um mál Þóris.
Þórir kom eins og áður segir með látum inn í Þjóðleikhúsið og lék sjálfan Badda í Djöflaeyjunni. Hlaut hann mikið lof fyrir túlkun sína. Þá fékk hann að fara í föt Hróa Hattar. Þórir virtist stefna í að verða næsti Baltasar, Ingvar eða Hilmir Snær. Á sama tíma og lífið lék við hann og hann fagnaði glæstum sigrum á leiksviðinu hafði hann sent þessar myndir. Gagnrýnendur jusu hann lofi fyrir frammistöðuna á leiksviðinu. En skyndilega var hann horfinn á braut, stjarnan sjálf, og sögurnar fóru af stað.
Ara Matthíassyni hefur verið hrósað fyrir rétt viðbrögð, að láta Þóri fara. Samkvæmt heimildum var Þóri ekki beinlínis sagt upp heldur var honum tjáð að ekki væru fleiri verkefni fyrir hann í leikhúsinu. Myndirnar sem hann ku hafa sent hafi þó verið raunveruleg ástæða þess að honum bauðst ekki vinna áfram. Þórir tekur fyrir þetta og segir brotthvarfið hafa tengst rekstrarlegum ástæðum.
Heimildir DV herma að á vormánuðum hafi þjóðleikhússtjóra borist skrifleg kvörtun vegna kynferðislegra mynda sem Þórir átti að hafa sent á ungar stúlkur. Engar sannanir fylgdu þó með. Samkvæmt heimildum sagði Þórir aðspurður að myndirnar væru af honum þegar hann var ný kominn úr sturtu og með handklæði utan um mittið á sér.
Þórir hafi verið látinn vita að þessi hegðun væri óviðeigandi en ekkert meira var aðhafst í málinu. Nokkrum mánuðum síðar kom upp á yfirborðið mynd. Sú mynd var af Þóri sem hélt utan um getnaðarlim í fullri reisn. Stúlkan sem átti að hafa fengið myndina var ekki orðin átján ára.
Samkvæmt heimildum DV var Þóri tjáð af leikhússtjóra að ekki væri meiri vinnu að fá í Þjóðleikhúsinu. Heimildir herma að sú leið hafi verið farin fremur en að segja honum upp vegna meintra brota því þá hefði farið af stað flókið og langt ferli þar sem hann hefði verið áminntur og þyrfti að brjóta af sér aftur til að vera rekinn. Þetta vildi Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri ekki staðfesta við DV.
Þórir viðurkennir sök í samtali við DV og segist vera vinna í sínum málum. Hann segir þó að brottrekstur hans tengist ekki umræddu máli.
Þú heldur fram að brottrekstur þinni tengist ekki sendingu þessara mynda?
„Eins og ég segi þá er þetta mjög flókið mál, það er verið að taka á þessu í samfélaginu öllu og það er ekki orsök brottrekstrarins. Í gögnum leikhússins og mínum þá er það ekki ástæðan.“
Þú gengst við því að hafa sent myndir, hefur þú leitað þér hjálpar?
„Ég er að vinna í mínum málum. Þess vegna hefur maður beðið um að gefa út yfirlýsingar. Af því að maður vill nú ná einhverjum árangri og breytast áður en maður fer að básúna að maður sé betri maður. Ég er búinn að sækja mér hjálp á fleiri en einum vígstöðvum. Ég er í stöðugu ferli með það allt,“ segir Þórir og bætir við: „Ég var mjög feginn að vera ekki á þessum lista með nafnlausu sögum sem voru birtar í gær.“
Bjóst þú við því?
„Það hefði svo sem ekki komið mér á óvart þó ég hafi aldrei verið í neinni valdastöðu í leikhúsinu en þá hef ég eins og margir aðrir gerst sekir um ósæmilega hegðun og áreiti. Það tengist ekki leikhúsinu neitt.“
Þórir kveðst vera að vinna mikið í sjálfum sér. Hann segir að fyrstu viðbrögð hafi verið að fara í vörn.
„Maður er svo hræddur um að segja eitthvað sem hljómar eins og maður sé að koma með einhverjar útskýringar á þessu eða að þetta sé ekki satt. Ég er búinn að fara í hundrað hringi með þetta.“
Þórir kveðst hafa ráðfært sig við sitt nánasta fólk. Hann gengst við því að hafa brotið af sér.
„En sko ég gengst við að hafa farið yfir strikið og farið yfir siðferðismörk. Ég játa að hafa gert það sem ég er sakaður um að hafa gert,“ segir Þórir og bætir við: „Það sem kemur á móti því, ég er búinn að velta þessu fyrir mér síðustu vikur og mánuði og er búinn að vera í alvarlegu átaki í samtökum fyrir fólk sem á við vandamál að stríða á þessu sviði. Sálfræðimeðferð og ég veit ekki hvað og hvað.“
„Ég hef aldrei vísvitandi lagt mig eftir grunnskólabörnum eða það sem er ólöglegt.“
Þórir vill taka ábyrgð á því sem hann hefur gert. Hann segist vilja breytast. „Ég vil gangast við þessu, ég vil taka ábyrgð á gjörðum mínum og ég vil breytast en mér finnst samt alveg ótrúlega erfitt að kyngja því. Kannski er það eitthvað sem ég verð að gera og treysta almættinu fyrir því hvernig það fer, dómstóll götunnar og orðrómur og annað.“
Þórir segist aldrei hafa leitað í grunnskólabörn og hann sé ekki haldinn barnagirnd. Hann segist ekki hafa vitað aldur stúlknanna.
„Ég hef aldrei vísvitandi lagt mig eftir grunnskólabörnum eða það sem er ólöglegt. En ég hef misst stjórn á sjálfum mér í kynferðismálum. Eins og í þessu tilviki sem ég held að um sé rætt, því ég veit ekki einu sinni hvaða manneskja þetta er, þessi samskipti urðu til í gegnum, ég veit ekki hvort þetta hafi verið í gegnum stefnumótasíðu á netinu eða í gegnum Snapchat. Á tímabili var ég rosa frægur á Snapchat og fékk athygli frá alls konar fólki og ég sé það auðvitað núna að ég sýndi algjört dómgreindarleysi í þessari stöðu sem ég var í en það er samt svo erfitt að gangast við því að maður sé einhver barnapervert því ég eins og ég segi, ég veit ekki hvaða manneskja það er sem hefur fengið þessar myndir.“
„Og ef að þessi manneskja er undir lögaldri þá sendi ég myndina í trú um að ég væri að tala við einstakling sem væri sjálfráða. Þess vegna finnst mér þetta svo flókið því ég vil ekki hrökkva í vörn og neita fyrir þetta og láta eins og það hafi ekki gerst og ég hafi verið hafður að fífli og allt sé rosalega ósanngjarnt. Því ég er aktívt í mínu lífi að reyna að taka ábyrgð á því hvernig ég hef verið og gjörðum mínum en það er svo erfitt að ætla að játa það og gangast við því að vera á þessu svæði að senda nektarmyndir á stúlkur sem eru undir lögaldri,“ segir Þórir.
Veistu hvað stúlkan er gömul, vissir þú það ekki fyrir?
„Nei, ég meina ég hefði og nú er ég að hugsa að ég verð að passa mig hvað ég er að segja, því ég vil ekki hljóma eins og gaurinn sem er með allar varnir uppi því ég er í raun með allar varnir niðri. Ég er búinn að vera að taka á mínum málum í kjölfarið á brottrekstrinum og svo hafa þessi mál bara hrannast upp í mínu prívat lífi líka.“
Þær eru nokkrar sem þú sendir myndir á, ungar stúlkur á unglingsaldri
Blaðamaður gengur á Þóri sem þvertekur oftar enn einu fyrir að hafa vitað um aldur stúlknanna. Kennir hann dómgreindarleysi og stjórnleysi um hegðun sína. Vill hann meina að hefði hann vitað um aldur þolanda hans hefði hann ekki sent myndirnar.
„Ég skil hvað þetta er ógeðfellt. Mér finnst það sjálfum, ég get rétt ímyndað mér hvað fólki út í bæ finnst. Ég er að búa mig undir svolítið erfiða baráttu, að fá mannorðið sitt aftur. Ég veit að ég hef gert rangt, ég sé eftir því og vil taka ábyrgð á því en svo er svo erfitt að ætla að gangast við því að hafa vísvitandi gert eitthvað slíkt og haldið að maður myndi komast upp með það.“
„Ég reyndi eftir besta megni að fara að haga mér eitthvað öðruvísi sem ég gerði.“
Samkvæmt okkar heimildum þá fékkstu fyrst um sinn tiltal eftir að kvörtun barst vegna mynda sem þú áttir að hafa sent, en engin sönnunargögn voru til staðar. Síðan líða nokkrir mánuðir og þá kemur upp á yfirborðið myndin sem þú hafðir sent ungri stúlku. Eftir fyrsta tiltalið, hugsaðir þú ekki þinn gang?
„Það var algjört „wake up call“. Ég reyndi eftir besta megni að haga mér öðruvísi en ég gerði, en ég fór ekki alla leið með það. Eftir þetta tiltal þá hætti ég að sjálfsögðu að eiga í svona samskiptum við einhvern sem ég vissi ekki hver var. Og þessi mynd, sem ég hef ekki séð og langar ekki að sjá, poppar upp í kjölfarið. Ég upplifi líka svona.. sko.. eins og umræðan um hefndarklám og annað, þó að ég upplifi mig ekki sem neitt fórnarlamb, þá skil ég ekki alveg hvaðan þessar myndir koma. Eða þessi mynd sem hefur komið upp á yfirborðið, ég veit ekki hvaðan hún er,“ svarar Þórir.
Er þetta ekki mynd sem þú sendir stúlku á unglingsaldri?
„Nei, þetta er búið að vera mjög óþægilegt mál fyrir fleiri en mig og erfitt að taka á þessum málum fyrir stjórnendur Þjóðleikhússins, fyrir aðstandendur og annað. Þannig ég er bara ekki með smáatriðin á hreinu. Ég veit ekki hvaða mynd þetta er, ég veit ekki hvaða stúlka þetta er, eða stúlkur eins og þú segir. Ég átti í svona samskiptum við fólk sem ég vissi ekki hver voru. Það held ég sé mest í gegnum frægustu stefnumótasíðu íslands,“ segir Þórir og heldur áfram: „Þar sem allir eru undir dulnefni þangað til þú velur að gera annað. Þú átt í samskiptum við manneskju og á einhverjum tímapunkti verður til kannski traust og þá fyrst sendir þú andlitsmynd af þér og segir hver þú ert. Þannig er það ekki á Snapchat. Þar ertu bara þú sjálfur og ég sé núna þennan algjöra dómgreindarbrest og dómgreindarleysi hjá mér að eiga í samskiptum við einhvern sem er bara með Snapchat reikning sem heitir eitthvað bara eitthvað, bara einhverjir tölustafir eða eitthvað,“ segir Þórir.
Þórir segist nú hafa leitað til sálfræðings.
„Mér finnst hrikalega erfitt að tala um þetta en eins og ég segi þá er ég að gangast við því sem ég hef gert og er að reyna að taka ábyrgð á því. Það er ekki eitthvað sem ég er bara að segjast gera. Ég er í ferli með sálfræðingi og í samtökum fyrir fíkla um þessa stjórnlausu hegðun og vinna bug á henni og breytast því auðvitað veit ég að þetta er rangt en eina vörnin mín er í rauninni að vilja ekki gangast við því að ég sé barnapervert,“ segir Þórir.
Þórir segist einfaldlega vera veikur maður og kveðst vilja ná bata. „Hinu gengst ég við og vil taka ábyrgð á en svo er ég svo varnarlaus líka. Ég vil ekki þurfa að standa upp á hól og öskra að ég sé ekki barnapervert því það eina sem ég get gert er að vera það ekki og ég hef ekki verið það. En ég hef gerst sekur um ótrúlegt dómgreindarleysi og stjórnleysi. Ég vil ekki kenna neinu um. Ég veit að ég er veikur maður og ég er að vinna í að vinna bug á því. Það er rosalega erfitt að gangast við því að hafa stundað þessa hegðun vitandi núna að einstaklingarnir eru undir lögaldri,“ segir Þórir.
„Það er það sem einhvern veginn, maður verður svo hræddur að vera flokkaður í sama hatt og nauðgarar og ofbeldismenn.“
Hann segir öll umræðan sé snúin þó hann vilji ekki flýja frá vandamálinu: „Þetta er mjög alvarlegt mál og búið að vera samtíma vandamál núna sem við erum að fletta ofan af. Mörghundruð ef ekki þúsund ára órétti milli kynjanna. Maður sér þetta vera að gerast, í gær voru þetta leikkonur og í dag er þetta aðallögfræðingur lögreglustjórans, og þingkonur, Harvey Weinstein og allt þetta. Maður verður svo hræddur að vera flokkaður á sama hátt og nauðgarar og ofbeldismenn.
„Þess vegna er þetta svona tricky og þess vegna verð ég að gæta orða minna því það eru hlutir sem ég vill gangast við og taka ábyrgð á en sumt er einhvern veginn líka dómstóll götunnar og orðrómur. Þetta er djúsí, ég hef alveg fundið það eftir að ég missti vinnuna. Þetta er erfitt mál til að taka afstöðu til.“