Auglýsingarnar á undirsíðum þar sem barnaníðingar vaða uppi
Stór fyrirtæki hafa hætt að auglýsa á myndbandavefsíðunni YouTube eftir að auglýsingar þeirra birtust við myndbönd sem barnaníðingar nota í annarlegum tilgangi.
Vefútgáfa breska blaðsins Guardian fjallar um þetta og segir að fyrirtæki á borð við Mars, Cadbury, Lidl, Deutsche Bank og Adidas séu í hópi þessara fyrirtækja.
Á YouTube eru þúsundir undirsíðna sem sýna meðal annars þekktar persónur úr barnaefni í kynferðislegum athöfnum. Þá koma ung börn fram í öðrum myndböndum sem ætluð eru öðrum börnum. Í umfjöllun Guardian eru þúsundir notenda á YouTube sem skrifa kynferðislegar athugasemdir við þessi myndbönd og hvetja jafnvel börn til að birta kynferðisleg myndbönd.
YouTube hefur legið undir mikilli gagnrýni að undanförnu fyrir að bregðast ekki nógu skjótt við umkvörtunum notenda. Talsmaður Mars segir að fyrirtækinu sé mjög brugðið að auglýsingar þess hafi birst við þessi myndbönd þar sem barnaperrar vaða uppi í athugasemdakerfi síðunnar. Það sé algjörlega óásættanlegt og þar til þetta lagist muni fyrirtækið ekki auglýsa á síðunni.
Talsmenn hinna fyrirtækjanna taka í sama streng; talsmaður Deutsche Bank segir að fyrirtækið taki þessu mjög alvarlega og talsmaður Lidl segir að augljóst sé að forsvarsmenn YouTube hafi ekki tekið ábendingunum nógu alvarlega.
Forsvarsmenn YouTube segjast hafa gripið til aðgerða en víða virðist pottur brotinn hvað þetta varðar. Sjálfboðaliðar, sem tilkynna efni til forsvarsmanna síðunnar, segja við BBC að enn séu líklega 50 til 100 þúsund óæskilegir aðgangar virkir á síðunni.