Stjórnmálamenn vilja stjórna og oft er hégóma þeirra og valdafýsn lítil takmörk sett. Til að svala þessari fýsn og sætta menn er oftar en ekki gripið til þess ráðs í stjórnarmyndunarviðræðum að skipta ráðuneytum upp, þannig að allir geti örugglega verið sáttir með sitt. Í lok dags þurfa jú allir mjúka og þægilega stóla. Það fer minna fyrir umræðunni um hvað þessi skipting ráðuneyta kostar íslenska skattgreiðendur, eða hvort raunveruleg nauðsyn er á þessu brölti, jafnvel með árs millibili. Sagan segir að það kosti hundruð milljóna að láta undan þessum hégóma pólitíkusa, sem þurfa að jafnaði ekki að gera grein fyrir þörfinni á uppstokkun ráðuneyta. Reikningurinn er síðan alltaf sendur á sama aðilann – íslenska skattgreiðandann.