„Logi á ekki sökótt við neinn annan en sjálfan sig vegna þeirrar stöðu sem hann er í,“ segir Einar Þór Sverrisson lögmaður fyrir hönd 365 miðla í tilkynningu vegna ósættis Loga við vinnuveitanda sinn, 365 miðla. Þar hefur Logi starfað um árabil. Þann 18. október var greint frá því að lögbann hefði verið sett á störf Loga hjá Árvakri og Símanum. 365 taldi að Logi væri að brjóta gegn ráðningarsamningi sínum við fyrirtækið. Um lögbannið sagði Logi:
„Þetta er ekki banki. Ég er ekki að ganga út með reikninga. Ég er ekki á skipuriti, ég er sjónvarpsmaður. Þetta er ein stór brandarakeppni þetta mál. Ég ætla bara að vera léttur og einbeita mér að því að tapa ekki gleðinni. Maður verður bara hissa. Þetta er eitthvað lögfræðingabíó. Það er hressandi einhvern veginn að reyna að átta sig á því að fjölmiðill beiti þessu ráði. Ég hef enga trú á að þetta verði niðurstaðan. Kannski ætti ég að vera stressaður yfir þessu en ég get ekki ímyndað mér hvernig eigi að klára þetta mál fyrir dómi.“
Sjá einnig: Lögbann á Loga:
Í samningi Loga kom fram að uppsagnarfrestur var 12 mánuðir og 12 mánaða bann við að starfa hjá samkeppnismiðli eftir það. Fyrir þremur dögum steig Hjálmar Jónsson formaður blaðamannafélagsins fram og gagnrýndi samninginn. Sagði Hjálmar að samningurinn stæðist hvorki kjarasamninga eða íslensk lög.
„Það er síðan glórulaust að starfsmanninum sé meinað að koma aftur til starfa til að vinna uppsagnarfrest sinn og lögbanninu haldið til streitu! Stjórn Blaðamannafélags íslands skorar á forsvarsmenn 365 miðla að leysa þetta mál með farsælum hætti. Þannig er hagsmunum fyrirtækisins og starfsmannsins best þjónað.“
Þá sagði Blaðamannafélagið vekja furðu hversu auðvelt það hefði verið að fá lögbann hjá sýslumanni.
Einar Þór Sverrisson hæstaréttarlögmaður hefur fyrir hönd 365 miðla sent frá sér tilkynningu í kjölfar yfirlýsingar Blaðamannafélagsins. Er þar gagnrýnt að BÍ hafi ekki haft samband við 365 áður til að fá allar hliðar. Einar rekur síðan atburðarásina eins og hún horfir við 365. Þar segir að þann 9. október hafi Logi sent sms-skeyti og óskað eftir fundi sem þyrfti að eiga sér stað sem allra fyrst. Hafi logi mætt ásamt lögmanni sínum, Sigurði Kára Kristjánssyni.
„Á fundinum afhenti Logi uppsagnarbréf sitt og óskaði eftir að fá að láta af störfum án tafar. Bréfið var móttekið, en því hafnað að hann gæti látið af störfum um leið, heldur skyldu aðilar vera í sambandi í þeim tilgangi að finna ásættanlega lausn fyrir báða aðila. Þangað til skyldi Logi sinna starfsskyldum sínum eins og ekkert hefði í skorist.“
Sjá einnig: Logi furðar sig á lögbanninu
Segir Einar að stuttu síðar hefði hann látið lögmann Loga vita að ekki væri hægt að fallast á að Logi hæfi störf hjá keppinaut strax daginn eftir.
„Í stuttu máli má segja að frekjan og yfirgangurinn af hálfu Loga var svo yfirgengilegur að engin leið var til að ná ásættanlegri niðurstöðu í málið. Hans nálgun var að fá allt og 365 ekkert. Við slíkar kringumstæður er ekki samið um eitt né neitt og ekki við 365 að sakast.“
Segir Einar að skorað hafi verið á Loga þann 10. október að mæta til vinnu. Daginn eftir hafi verið birt frétt í Morgunblaðinu um að Logi hefði verið ráðinn til Árvakurs og Símans. Heldur Einar fram að tilkynningin hafi verið bein árás á 365 og því hafi ekki verið hægt annað en að krefjast lögbanns.
„Við mat á skyldum Loga gagnvart 365 þarf að hafa í huga að til marga ára hefur Logi verið einn launahæsti starfsmaður 365 og fáir ef nokkrir verið ofar í launum. […] Á liðnum árum hefur 365 ítrekað þurft að skera niður í starfsemi sinni með því að segja upp fólki. Við þær aðstæður naut Logi skjóls af löngum uppsagnarfresti, meðan öðrum var fórnað. Að halda því fram að uppsagnarfrestur Loga sé í andstöðu við kjarasamninga og lög er með öllu fráleitt og sýnir að stjórn BÍ hefur ekki mikla þekkingu þa því sem hún er að álykta um.“
Bætir Einar við að fráleitt sé að fjalla um Loga líkt og óbreyttan starfsmann. Hann hafi verið eitt af andlitum fyrirtækisins sem hafi greitt honum há laun.
„Logi á ekki sökótt við neinn annan en sjálfan sig vegna þeirrar stöðu sem hann er í.“