Við áttum draum. Í sjötíu ár – allt frá árinu 1930 – höfðu Íslendingar, sem aðhylltust jafnaðarstefnu – sósíalisma – skipt sér í margar fylkingar. Oftast tvær. Stundum miklu fleiri. Afleiðingarnar urðu þær, að íslenskt samfélag mótaðist aldrei af hugsjónum jafnaðarmanna um félagslega samábyrgð og velferð alls fólksins. Í stað þess að vera skapendur eins og á hinum Norðurlöndunum varð okkar hlutskipti að reyna að leiðrétta. Þá og þegar það tókst. Sem „aukahjól undir vagni“ afla, sem okkur voru andstæð. Sem aðhylltust önnur sjónarmið en sjónarmið jafnaðarmanna. Sem voru okkur andsnúin.
Í sjötíu ár! Loks þá hafði framrás sögunnar lagt í auðn þau hörðu deilumál, sem sundrað höfðu jafnaðarmönnum á Íslandi. Þau heyrðu þá sögunni til. Ekki lengur samtímanum. Og drauminn áttum við. Um handtök saman í stað krepptra hnefa. Um samstöðu í stað sundrungar. Um samfylkingu í stað ósættis. Og við tókum saman höndum. Grófum gamlar væringar. Gömul sár. Gömul meiðsli. Gamlan fjandskap. Gamalt ósætti. Einbeittum okkur saman að því að ná þeim áhrifum á Íslandi, sem jafnaðarstefnan hafði átt að hafa. Við gengum ekki öll til liðs við þennan gamla draum. En flest okkar. Og af hreinlyndi, af sáttfýsi og af öllum okkar vilja. Og við náðum árangri. Jafnaðarstefnan á Íslandi varð helsta andmæli nýfrjálshyggjunnar – kölluð sá turn, sem gnæfði gegn hrunsöflunum. Þangað til … Þangað til …
Mikil er sú ábyrgð þeirra, sem völdu þann kostinn að gerast samábyrgir hruninu. Þeir hafa nú verið þurrkaðir út af vettvangi. En draumurinn lifir enn. Þrátt fyrir áföll, deilur og ósætti, sem til var stofnað í þeim eina tilgangi að ógna og gera að engu samstöðuna, samheldnina og sáttfýsina, sem var meginkjarninn í draumi okkar um endurreisn íslenskrar jafnaðarstefnu lifir draumurinn enn. Og á enn erindi.
Í samfélagi þar sem gróðavænlegustu nýtendur sameiginlegrar auðlindar íslenskra fiskiðmiða nota fjármuni sína til þess að kaupa sér fjölmiðil til varnar einkahagsmunum sínum og kjósa fremur að verja hagnaði sínum af nýtingu auðlindarinnar til þess að greiða himinháan taprekstur slíks málgagns fremur en að taka sinn réttmæta þátt í rekstri samfélagsins – er þörf fyrir jafnaðarmenn þar?
Í samfélagi þar sem helstu og frekustu nýtendur orkuauðlindar landsmanna kjósa heldur – og komast upp með það – að greiða erlendum eigendum sínum himinháar fjárhæðir í formi tilbúinna vaxtagreiðslan fremur en að taka þátt í rekstri samfélagsins sem þeir hagnýta í gróðaskyni – er þörf fyrir jafnaðarmenn þar?
Í samfélagi þar sem auðlegðarskattar voru afnumdir og skattar lækkaðir á hæstu tekjur jafnframt því sem skattar voru hækkaðir á lágtekjur og gömlu fólki með starfsorku neitað um aðgang að vinnumarkaði – „af því það kostar svo mikið“ – er þörf fyrir jafnaðarmenn þar?
Í samfélagi þar sem helmingur allrar auðsöfnunar á síðastliðnu ári lenti í höndunum á fámennum hópi þeirra allra ríkustu en allir hinir báru skarðan hlut frá borði – er þörf fyrir jafnaðarmenn þar?
Í samfélagi þar sem menn í æðstu stöðum stjórnkerfisins hafa sannarlega leynt umtalsverðum fjármunum í sinni eigu í erlendum skattaskjólum og hafa komist upp með það – er þörf fyrir jafnaðarmenn þar?
Í samfélagi þar sem leyndarhyggja er látin ríkja um alvarleg afbrot í því eina skyni að hlífa háttsettum þjóðfélagsþegnum við gagnrýni – er þörf fyrir jafnaðarmenn Þar?
Við áttum okkur draum. Sá draumur lifir enn! Með okkur.