Grunaðir um að aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur – Lögreglan sögð hafa fundið skilríki um borð
Mennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni vegna rannsóknarinnar á hvarfi og andláti Birnu Brjánsdóttir heita Möller Olsen og Nikolaj Olsen. Þeir hafa réttarstöðu grunaðra í málinu, samkvæmt traustum heimildum DV. Um er að ræða tvo skipverja af togaranum Polar Nanoq, sem lögregla hefur haft í sinni umsjá undanfarna daga. DV hefur ekki upplýsingar um að þeir séu tengdir fjölskylduböndum.
Fram hefur komið að annar mannanna er um þrítugt en hinn um 25 ára aldurinn. Þeir eru frá Grænlandi. DV hefur borist margar ábendingar um hvaða skipverjar séu grunaðir um að eiga aðild að hvarfi Birnu en listi yfir skráða skipverja gekk um tíma manna á milli á Facebook.
Hæstiréttur staðfesti í gær, mánudag, úrskurð héraðsdóms sem dæmdi mennina í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna málsins. Lögregla fór fram á að mennirnir sættu fjögurra vikna gæsluvarðhaldi en þeirri kröfu höfnuðu dómstólar.
„Orð fá ekki linað hina miklu sorg en minningin um Birnu, þessa ungu og björtu stúlku, sem var tekin frá okkur í blóma lífsins, mun ætíð lifa með íslenskri þjóð.“
Leitarmenn í þyrlu Landhelgisgæslunnar fundu Birnu látna í fjöru við Selvogsvita um hádegisbil á sunnudag, eftir umfangsmestu leit sem Landsbjörg hefur skipulagt. Fram hefur komið að um 775 sjálfboðaliðar hafi komið að leitinni, þar af hafi leitarmenn verið 685 talsins.
Á blaðamannafundi sem lögreglan efndi til í kjölfar þess að Birna fannst á sunnudag, kom fram að líkfundurinn væri afrakstur þeirrar leitar, en þyrlan hafði flogið strandlengjuna frá Reykjavík, vestur með Reykjanesi og þaðan með suðurströndinni að Selvogsvita.
Fyrir liggur að lífssýni úr Birnu fundust í Kia-Rio-bifreið sem mennirnir höfðu til leigu á þeim tíma sem Birna hvarf, snemma á laugardagsmorgun, þann 14. janúar síðastliðinn.
Sjónir lögreglu beindust strax við upphaf rannsóknarinnar að bifreiðinni, sem ók niður Laugaveginn á sama tíma og Birna fór þar um, en þaðan hafði hún gengið frá skemmtistaðnum Húrra. Upptökur úr myndavélum í miðbænum voru ekki nógu skýrar til að hægt væri að greina bílnúmer bifreiðarinnar í myrkrinu. Bíllinn fannst hins vegar eftir nokkra leit og greining lífsýna þykir staðfesta að Birna var í umræddum bíl.
Í fyrstu frétt DV 17. janúar var greint frá því að Kia Rio bíllinn hefði verið í leigu skipverja. Kom fram að tveir menn hefðu verið í bílnum þegar honum var lagt fyrir utan togarann um klukkan 06:10 um morguninn, sama dag og Birna hvarf. Einn maður fór þá út úr bílnum og um borð í skipið. Bílstjórinn beið einn í bílnum til um klukkan sjö, eða þar til hann svo ók bílnum af hafnarsvæðinu.
Heimildir DV herma að skilríki Birnu hafi fundist í togaranum Polar Nanoq, en þeir sem fara fyrir rannsókninni hafa ekki viljað staðfesta þær heimildir. Þá hafa þeir sem stýrt hafa rannsókninni ekki viljað gefa það upp hvort lífsýni úr Birnu hafi fundist víðar en í bílnum, svo sem á fatnaði sakborninga.
Óhætt er að fullyrða að þjóðin hafi staðið öndinni vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur. Lögregla hefur hlotið mikið lof fyrir störf sín og þá hafa bæði fjölskylda Birnu og lögreglan komið á framfæri þakklæti til almennings vegna þess stuðnings sem fólk hefur sýnt í verki. Fjölmiðlum hefur lögregla þakkað fyrir gott samstarf.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sendi foreldrum Birnu innilegar samúðarkveðjur, á mánudag. „Orð fá ekki linað hina miklu sorg en minningin um Birnu, þessa ungu og björtu stúlku, sem var tekin frá okkur í blóma lífsins, mun ætíð lifa með íslenskri þjóð.
Um leið vil ég koma á framfæri þökkum til björgunarsveitarfólks, lögreglu og annarra sem leituðu að Birnu og rannsökuðu hvarf hennar. Í samstöðu og einhug eigum við Íslendingar mikinn styrk.“
Þá hafa Grænlendingar sýnt Íslendingum mikinn samhug vegna atviksins en Birnu hefur víða verið minnst í landinu.
Ekki hefur komið fram með hvaða hætti andlát Birnu bar að en lögregla telur „yfirgnæfandi líkur“ á að henni hafi verið ráðinn bani. Ekki hefur heldur komið fram hvar henni var komið fyrir í sjó.
Kryfja átti líkið á mánudag en ekkert hafði, þegar þetta var skrifað, komið fram um niðurstöðu krufningarinnar. Ekki liggur fyrir hvort ákæra verður gefin út á hendur Möller og Nikolaj en lögregla hefur ekki lokið rannsókn.