Góðverk á Blönduósi – Þáðu boðið með þökkum
„Við þáðum þetta með þökkum,“ segir Hjálmar Björn Guðmundsson, formaður Björgunarfélagsins Blöndu á Blönduósi, í samtali við DV.
Liðsmenn sveitarinnar tóku þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur í gær, líkt og björgunarsveitarmenn frá öllum landshlutum. Liðsmenn Blöndu og björgunarsveitarinnar Húna á Hvammstanga sameinuðu krafta sína og héldu af stað til Hafnarfjarðar klukkan 05.30 í gærmorgun og voru sveitirnar komnar til Hafnarfjarðar klukkan 9. Þrír félagar Blöndu voru með í för og sex frá Húnum en farið var á 2 bílum.
Þegar heim á Blönduós var komið í gærkvöldi voru liðsmenn sveitarinnar að fara að fylla á björgunarsveitarbílinn á eldsneytisstöð N1 á Blönduósi. Í þann mund sem verið var að fylla bílinn af olíu kom aðvífandi maður sem vildi fá að borga olíuna á bílinn. Liðsmenn sveitarinnar þáðu þetta góða boð með þökkum. „Vel gert og takk fyrir okkur,“ sagði í Facebook-færslu á vef sveitarinnar.
Hjálmar segir í samtali við DV björgunarsveitin sjái um sjálf um rekstur bílsins og annan rekstur sem tengist sveitinni. Ljóst er þó að björgunarsveitum, sem mikið hefur mætt á undanfarnar vikur, munar um hverja krónu í kassann enda kostnaðarsamt að halda úti starfsemi af þessu tagi.
Björgunarsveitir landsins voru sem kunnugt er útnefndar maður ársins á Rás 2 skömmu fyrir áramót og hafa fjölmargir Íslendingar ausið þær lofi undanfarna daga. Vel yfir 500 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni að Birnu um helgina.
Ófáir hafa skorað á fólk og fyrirtæki undanfarna daga að styrkja björgunarsveitirnar. Granítsmiðjan er eitt þessara fyrirtækja en um helgina greindi fyrirtækið frá því að það hygðist styrkja Landsbjörg um 250 þúsund krónur.