„Allir elska hann Atla“ – Engin Framsókn án Atla – Kveður eftir 59 ár
„Eftir 59 ára samferð með Framsóknarflokknum tel ég rétt að hverfa á braut. Frekari skýringar bíða.“
Þetta segir Atli Ásmundsson á Facebook-síðu sinni og bætir við að framhaldið sé óráðið. Atli hefur verið samferða Framsóknarflokknum í 59 ár og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Er hann í miklum metum hjá fólki þvert á flokkslínur.
„Allir elska hann Atla, hann er sögumaður af Guðs náð og allra manna skemmtilegastur,“ sagði einn viðmælanda DV.
Nú þegar Atli hefur ákveðið að kveðja er fokið í flest skjól hjá Framsókn að mati þeirra sem þekkja vel til í íslenskri pólitík. Hrafn Jökulsson rithöfundur, fyrrverandi ritstjóri og skákfrömuður segir um þessi miklu tíðindi.
„Nú setur mig hljóðan. Án Atla er engin Framsókn. Með ólíkindum.“
Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir um brotthvarf Atla:
„Ja hérna. Ég heyrði einu sinni núverandi formann Framsóknar nota orðatiltækið að vera „ofan dottinn“ þegar hann var mjög hissa. Ég geri það núna. Ef Atli Greifi er hættur í Framsókn þá er EKKERT öruggt lengur.“
Mikill flótti er nú úr Framsóknarflokknum og neita forsvarsmenn að gefa upp hversu margir hafi ákveðið að segja takk og bless. Á samskiptamiðlum hefur það verið gagnrýnt að fjölmiðlar greini frá flótta fólks sem hafi litla sem enga vigt. En þeir sem til þekkja vita hins vegar að um stór tíðindi er að ræða þegar Atli „greifi“ ákveður að nú sé kominn tími til að leita á önnur mið. Maðurinn sé framsókn holdi klædd; samviska flokksins og sál hans.
Framsóknarflokkurinn batnar ekki við það að þú segir þig úr honum
En hver er Atli Ásmundsson? Atli er frá Vestmannaeyjum. Hann gekk snemma í Framsóknarflokkinn. Í Framsóknarblaðinu frá í nóvember 1963 er greint frá aðalfundi Félags ungra framsóknarmanna í Vestmannaeyjum. Þar var Atli skipaður fundarstjóri af Andra Hrólfssyni fráfarandi formanni og síðar á þeim fundi var Atli kosinn í stjórn og skipaður varaformaður. Í Framsóknarblaðinu segir:
„Að lokum þakkaði Atli Ásmundsson ræðumönnum fyrir heillaóskir og kveðjur og fundarmönnum fyrir komuna. Fundinn sátu milli 40 og 50 manns.“
Atli hefur síðan frá þessum tíma gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Hann var blaðamaður um tíma á Tímanum. Hann var blaðafulltrúi Halldórs Ásgrímssonar og starfaði lengi í utanríkisráðuneytinu. En Halldór réð Atla í ráðuneytið 1995. Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra sagði um Atla:
„Atli er náttúrlega einn af mínum allra bestu mönnum. Um þá frændur, Stefán og Martin, er það að segja, að þeir eru afburðasendiherrar. Stefán stígur aldrei fæti rangt fram, vinnur ósjálfrátt með framkomu sinni traust allra viðsemjenda, og smýgur í allar glufur í samningum. Svo lítur hann út eins og breskur lord og það er ekki verra. Martin er eins og í fótboltanum í gamla daga, þegar hann reddaði tvisvar Eyjamönnum á síðasta augnabliki. Bestur þegar útlitið er svart.“
Í grein í Frjálsri verslun er fjallað um þegar Finnur Ingólfsson fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins réð Árna Magnússon sem aðstoðarmann. Þar sagði:
„er (Finnur) sagður hlusta grannt á hans ráð en einnig leggja eyrun við þegar Atli Ásmundsson blaðafulltrúi utanríkisráðuneytis talar.“
Sjálfur sagði Árni sem þá var nýhættur sem félagsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið 2006:
„Einn af mínum bestu vinum í pólitík er Atli Ásmundsson, fyrrum blaðafulltrúi Halldórs og nú ræðismaður Íslands í Winnipeg í Kanada. Atli sagði við mig: „Lykilatriði í pólitík er að gera ekki neitt sem þú ert ekki tilbúinn til að svara fyrir í sjö-fréttum.“ Ég hef reynt að hafa þetta í huga.“
Atli varð síðar vinsæll og farsæll sendiherra í Winnipeg. Þar starfaði Atli sem aðalræðismaður Íslands frá 2014 – 2013. Á fundi með Rótarýklúbb Kópavogs greindi Atli frá veru sinni undir yfirskriftinni með Ísland í hjartanu.
Jafnast á við að Eysteinn afabróðir minn afneiti sínum fæðingarhrepp.
„Nefndi Atli að í starfi sínu sem ræðismaður hefði eiginkonan reynst sér mikil stoð og stytta. Hann hefði kynnst henni í Fiskiðjunni í Vestmannaeyjum á árunum fyrir gos og tekist eftir ófáar atrennur náð að vinna hjarta hennar og hefðu þau síðan bollokað þetta saman í meira en 40 ár […] Atli nefndi nokkra minnisstæða karaktera sem hann hefði kynnst á árum sínum í Winnipeg. Hann kvaðst hafa bankað upp á hjá ófáum Vestur-Íslendingum og alls staðar hafi hlýlegt viðmót umfaðmað hann. Vafningalaust var kannski nefndur helgur staður í huga þess. „Hvernig er umhorfs í kringum Lónið,“ sagði einn gamall maður.“
Á þeim tíma sem Atli var búsettur í Kanada hefur hann verið ráðgjafi og tekið ófá símtöl við efnilega stjórnmálamenn sem hafa verið að taka sín fyrstu skref á því sviði. En nú er svo komið sem minnst hefur verið á áður í þessari frétt að Atli er hættur í Framsókn og er mörgum brugðið við þau tíðindi. Sjálfur tekur Atli sérstaklega fram að Lilja D. Alfreðsdóttir hafi reynt að gera allt til að forða flokknum frá ógöngum.
„En hún talaði fyrir daufum eyrum þeirra, sem nú telja flokkinn styrkjast við hverja úrsögn.“
Atli segir svo á Facebook að hann sé nú að safna kjarki til að fara yfir það sem hann hafi orðið vitni að á þessum átaka tímum í flokknum. En sér heldur ekki fyrir flótta og eru sagðar fréttir daglega af Framsóknarmönnum sem hafa ákveðið að halda á önnur mið. Síðast í gær greindi Guðfinna Jóhanna borgarfulltrúi að hún væri hætt við framboð fyrir Framsókn.
Svavar Gestsson segir um brotthvarf vinar sínar:
„59 ár, nei er það satt? Þá höfum verið í eitt ár saman í Framsókn. Þá gekk ég í Æskulýðsfylkinguna og sagði mig úr Framsókn. Þú hefur verið aðeins lengur að hugsa þig um. Þekki málið ekki en hitt veit ég að Framsóknarflokkurinn batnar ekki við það að þú segir þig úr honum.“
Hrafn Jökulsson segir enn fremur:
„Þegar Atli Ásmundsson, fornvinur minn, segir sig úr Framsókn er ballið búið. Jafnast á við að Eysteinn afabróðir minn afneiti sínum fæðingarhrepp. Framsókn er á leið út af þingi. C´est la vie.“