fbpx
Föstudagur 25.apríl 2025
Fréttir

Eru heilsuspillandi og hættulegar heilsudýnur í útbreiddri notkun hér á landi?

„Sannað er að þau valda ýmsum kvillum, t.d. astma, ofnæmi og krabbameini“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 24. september 2017 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður að nafni Vilmundur Sigurðsson hefur vakið gífurlega athygli með Facebook-færslu sem hann birti í dag þar sem hann lýsir langvarandi afleiðingum af því að notast við heilsudýnur af svokallaðri „Memory Foam“ gerð. Slíkar dýnur, sem og heilsukoddar, gefa eftir við þrýsting, ekki ósvipað leir. Miðað við reynslu Vilmundar og annarra þá valda þessar vörur ýmsum óþægindum og kvillum þó að þær hafi vissulega góð áhrif á bakheilsu. Telur hann einnig að í dýnunum geti myndast myglusveppur.

Vilmundur stofnaði í dag Facebook-hópinn „Rúmið mitt er að drepa mig“ þar sem hann deilir nokkuð ítarlega langvarandi reynslu sinni af því að nota „memory foam“ dýnur:

Fyrir 11 árum þá keyptum við Svala konan mín Tempur „Heilsudýnur“ fyrir okkur. Þær voru æðislegar og bakið og herðarnar alltaf í fínu standi. Maður svitnar reyndar miklu meira í svona Memory foam dýnu, en maður pældi ekkert sérstaklega í því.

Síðustu 11 ár þá hef ég glímt við allskonar heilsuvandamál: Sviði í augum, hausverkir, slappleiki, nefstíflur, blettaskalli í hári og skeggi, heilaþoka, þróaði með mér mikið ofnæmi, bólgur í líkama, liðverkir vegna þeirra, gat ekki hlaupið, gat ekki hoppað vegna liðverkja, útbrot, furðuleg sár mynduðust á sköflungum og slatti af fleiri einkennum.
Þau komu ekki öll í einu, heldur mismunandi einkenni á mismunandi tímum, árum. stundum nokkur saman og stundum eitt og eitt.

Þetta olli mér miklum heilabrotum og áhyggjum og fór ég nokkrum sinnum til læknis vegna einkenna, og að sjálfsögðu vissu þeir ekki neitt. Þetta var allt farið að há mér verulega og að lokum þá prófaði ég fyrir þremur mánuðum að gúggla „Problem with Tempur“. Þá datt ég inn á síður þar sem fólk er að vara við Tempur dýnum og svipuðum dýnum á enskumælandi síðum og einnig á Norðurlöndum.

Flestir hafa svipaða sögu að segja eins og ég. Sumir hafa lent verr í því og sumir ganga svo langt að tala um að ættingjar sínir hafi látist af völdum Tempur dýna eða Memory Foam dýna. Þar sá ég textann „My mattress is killing me“.

Að sögn Vilmundar hefur ástandið stórlagast eftir að hann losaði sig við „memory foam“ koddana og dýnurnar:

Við losuðum okkur strax við Memory Foam koddana okkar og keyptum dúnkodda. Ég fann strax á nokkrum dögum jákvæða breytingu. Þremur vikum seinna var ég orðinn nokkuð góður og þá skiptum við út dýnunum og hentum gömlu og keyptum belgískar pokagormadýnur handgerðar úr náttúrulegum efnum.

Núna, þremur mánuðum eftir að við fórum í þessar aðgerðir þá er heilsan komin í gott lag og orkan orðin virkilega góð.

Vilmundur staðhæfir að Tempur dýnur og koddar innihaldið mjög heilsuspillandi efni og í þeim geti myndast myglusveppur:

Sannleikurinn er sá að Tempur dýnur og koddar eru gerðar úr hættulegum olíuefnum sem léttilega getur kviknað í. Þess vegna er blandað í dýnurnar eldtefjandi eitruðum efnum sem hafa verið bönnuð í leikföngum og barnadýnum.

Við öndum þessum efnum að okkur þegar við sofum og sannað er að þau valda ýmsum kvillum, t.d. astma, ofnæmi og krabbameini. Fólk er misjafnlega næmt fyrir þessum efnum og þess vegna er misjafnt hvernig fólk upplifir þetta.

Við sofum 1/3 ævinnar og ef maður er með svona Memory Foam dýnur og kodda, þá andar maður þessu að sér í miklum mæli.

Framleiðslufyrirtæki þessara dýna vilja ekki gefa upp hvaða efni eru í þeim.

Ofan á þetta bætist svo að þessar dýnur hafa enga öndun.Þannig að ef vökvi hellist ofan í þær þá gufar hann ekki auðveldlega upp úr þeim aftur. Málið er að maður svitnar mun meira í svona dýnu. Svitinn fer ofan í dýnuna.Hann kemur ekki auðveldlega upp aftur. Sem þýðir að í dýnunni myndast kjöraðstæður fyrir MYGLUSVEPP.

Sem er einmitt það sem margir tala um í umræðuhópum á Netinu.

Áður en við hentum dýnunum okkar þá skar ég 40x40cm tening úr miðjum dýnunum okkar og við fengum þannig sneiðmynd af dýnunum. Efsti sentimetrinn í dýnunni var orðinn dökkur. MYGLUSVEPPUR hafði því myndast í efsta lagi dýnunnar. ÓGEÐSLEGT!!! Við höfum því síðustu árin sofið ofaná MYGLUSVEPP. Það myndi ég segja að hafi valdið mér mestu vandræðunum í heilsu minni. Það sem hefur verið að hrjá mig passar að mestu við lýsingar fólks af myglusvepp.

Einhverjir af þeim sem ég hef sagt þessa sögu hafa skipt um kodda og hætt með svampkodda og farið í dúnkodda. Þeir vilja meina að þeir finni mun til batnaðar.

Engar beinharðar sannanir utan eigin reynslu

DV hafði samband við Vilmund og spurði hann hvort einhverjar rannsóknir lægju til grundvallar því mati að þessar vörur væru heilsuspillandi. Vilmundur sagði svo í raun ekki vera:

Eins og ég bendi á í hópnum þá hef ég ekki rekist á nein bein sönnunargögn. Þetta virðist lítið rannsakað. Þetta er talað um í erlendum umræðuhópum og þar hafa flestir svipaða sögu að segja. Ég er enginn sérfræðingur í þessu. En ég hef prófað þetta á sjálfum mér að vera með ýmsa kvilla og jafnvel veikindi o.s.fr. í mörg ár og losnaði við þetta allt þegar ég fór í nýtt rúm og kodda. Af því að þetta er svo framandi fyrir okkur þá datt mér í hug að stofna þennan hóp til að hjálpa öðrum í svipuðum sporum og ég og líka til að sjá hversu margir eru að hugsa um þessi mál. Skapa umræðu og vonandi finna lausnir. Þessi hópur endar líklega í yfir 3000 manns áður en dagurinn er liðinn,
þannig að þetta snertir greinilega marga og opnar augu fólks fyrir þessari mögulegu ástæðu fyrir þeirra heilsubresti.

Betra bak sendir frá sér tilkynningu um málið

„Memory foam“ koddar og dýnur eru seldar víða hér á landi, meðal annars í versluninni Betra bak og í Rúmfatalagernum. Betra bak hafði samband við Vilmund og sögðu forsvarsmenn verslunarinnar að þeir hefðu áhyggjur af málinu og hyggðust rannsaka það.

Stuttu síðar birti Betra bak eftirfarandi tilkynningu á Facebook-síðu sinni. Þar kemur fram að fyrirtækið selji einungis viðurkenndar og þrautprófaðar Tempur heilsudýnur og kodda sem njóti viðurkenningar um allan heim og hafi selst í milljónavís:

Vegna umræðu sem skapast hefur í hópi hér á Facebook þá viljum við ítreka að dönsku Tempur þrýstijöfnunarefnin hafa farið í gegnum strangar gæðaprófanir og eru vottuð með CE-staðli Evrópusambandsins. Í því felst að heilnæmi, öryggi og ofnæmisvaldar eru sérstaklega rannsakaðir og hefur Tempur lengi verið í fararbroddi framleiðenda á þessu sviði. Tempur hefur enda á undanförnum árum vaxið upp í að vera þriðji stærsti dýnuframleiðandi heims og framleiðsluvörur þess eru notaðar af kröfuhörðum notendum eins og hátæknisjúkrahúsum, bæði á langlegudeildum og á skurðstofum.

Við skiljum hins vegar mjög vel að fólk staldri við þegar það les reynslusögur þar sem einstaklingar lýsa slæmum heilsufarseinkennum. Okkur hið minnsta brá við og höfum í dag haft samband við viðkomandi til að fá nánari upplýsingar um hans reynslu. Það er fátt jafn mikilvægt og að sofa í góðu rúmi. Betra Bak hefur selt heilsurúm og kodda frá árinu 1994 við gott orðspor og í góðum samskiptum við sína viðskiptavini. Gott er jafnframt að hafa í huga að flest efni geta verið viðkvæm fyrir raka. Mikilvægt er að endunýja yfirdýnur, sængur, kodda og rúmföt reglulega, þvo og lofta út.

Áðurnefnd umræða hefur beinst að memory-foam dýnum almennt en rétt er að taka fram að Betra Bak selur eingöngu Tempur-dýnur. Við hvetjum fólk til að hafa samband við Betra Bak ef það hefur einhverjar spurningar varðandi vörur frá Tempur. Við höfum þegar haft samband við Tempur í Danmörku og óskað eftir að þeir skoði sérstaklega tilvikið sem vitnað er til í hópnum á Facebook. Við munum deila svörum þeirra hér á síðunni en rétt er árétta að við teljum enga ástæðu fyrir eigendur Tempur-heilsudýna og heilsu-kodda til að hafa áhyggjur af gæðum þeirra. Um er að ræða danska gæðaframleiðslu sem selst hefur í milljónum eintaka og stuðlað að betri svefni og bættri líðan fólks um allan heim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tvö kaffihús Starbucks opna í miðbæ Reykjavíkur

Tvö kaffihús Starbucks opna í miðbæ Reykjavíkur
Fréttir
Í gær

Lögregla varar við svikum – „Textinn er áhugaverður svo ekki sé meira sagt“

Lögregla varar við svikum – „Textinn er áhugaverður svo ekki sé meira sagt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Það er líka hugrekki í því fólgið að viðurkenna veikleika sína og sleppa“

„Það er líka hugrekki í því fólgið að viðurkenna veikleika sína og sleppa“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Halla biðst afsökunar á samúðarkveðjufíaskóinu – „Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök“

Halla biðst afsökunar á samúðarkveðjufíaskóinu – „Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök“