fbpx
Sunnudagur 01.desember 2024
Fréttir

Nýja-Jórvík lífs og liðin

Og bókin Mannlaus veröld

Ritstjórn DV
Föstudaginn 22. september 2017 10:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég heimsótti New York fyrr í sumar og alltaf er eitthvað magnað við að koma til þeirrar borgar, og í þetta sinn var ég dálítið á slóðum sem ég hafði ekki kynnst fyrr; maður er mest í svona heimsóknum á Manhattan, frá Central Park og niður úr, en í þetta sinn var það Brooklyn, sem ein og sér er ein fjölmennasta borg Bandaríkjanna og skartar ólíkum en mjög litríkum svæðum. Mér var til dæmis gengið í óratíma í gegnum hverfi þar sem engir bjuggu nema rétttrúaðir gyðingar; þeir voru margir á gangi á götunum og engir aðrir nema ég og kona og dóttir; það var laugardagur (sabbat) og allir karlmenn í síðum svörtum frökkum og með barðastóra svarta hatta og undan þeim löfðu slöngulokkar fram á kinnarnar. Manni fannst einhvern veginn eins og maður hefði í ógáti gengið inn á heimili annars fólks og væri að reyna að finna útgönguleið áður en heimamenn færu að amast við þeim óboðna. Fólkið á götunni skipti sér reyndar ekkert af okkur, hvorki til að heilsa eða kvarta, og reyndar skilst mér að það vilji ekkert hafa saman við vantrúaða að sælda; dóttir mín, sem bjó í Brooklyn ekki langt frá þessu hverfi, sá eitt sinn svona gyðingakonu hrasa í brautarpalli rétt fyrir framan sig; íslenska stelpan hljóp að sjálfsögðu til og vildi rétta konunni hjálparhönd en hún bandaði frá sér höndinni í skelfingu, vildi ekki þurfa að afbera snertingu frá einhverjum sem aðhylltist annan sið.

„Urban Jungle“

En það var reyndar á Manhattan sem ég upplifði tvennt mjög eftirminnilegt í þessari vesturför fyrr á árinu. Og það voru óvæntar sýnir úr dýralífinu – á þessum stað sem er eiginlega eins manngerður og hugsast getur. Eitt síðdegi vorum við á gangi nálægt Washington-torginu þar sem er mikill og hávaxinn trjágróður, þegar snögglega bar fyrir augu, eins og skuggi sem líður hratt yfir, stórvaxinn fugl og furðu mikinn að umfangi. Maður áttaði sig ekki strax á hvað var að gerast, en svo fóru að hrynja fjaðrir úr tré nokkru ofar og framar. Og þá sat þar stærðar förufálki með nýveidda dúfu í klónum, var að gogga bráðina í hjartastað að fálkasið. Brátt komu að japanskir túristar og stóðu með okkur og fylgdust með fálkanum, og dúfunni sem enn blakaði vængjunum; Japanarnir hófu að taka myndir í gríð og erg og með miklum undrunarhljóðum. Ég reyndi líka með klaufabárðsfasi að taka mynd á minn síma, en hún var hreyfð.

Nokkrum dögum seinna lá leiðin um Miðgarð, Central Park, og þar bar fyrir auga annað undur úr náttúrunni, en uppi á rusladalli úr málmi sat þvottabjörn, sem þarlendir kalla „raccoon“, og gæddi sér á pítsusneið. Og var hinn rólegasti, þótt fólk stæði hjá og gæfi honum auga. Reyndar var mér sagt eftir á að þeir færi sig ekki þótt fólk komi að þeim og klappi þeim á hausinn, en hins vegar séu þeir útsettir með að glefsa til þannig fólks, sem ekki boði gott því að þeir séu oft smitaðir af hundaæði.

Þessi merkilega bók

Þegar ég hafði séð þessa villtu náttúru inni í stál- og glerborginni miðri með öllu sínu mannhafi, þá rámaði mig í að ég hefði einhvers staðar lesið um þetta, og svo rifjaðist upp að það var í stórmerkilegri bók sem heitir Mannlaus veröld, og kom út á íslensku í stórgóðri þýðingu Ísaks Harðarsonar árið 2009 (e: Elan Weisman – The World Without Us). Þar er einmitt sagt frá innreið dýralífs óbyggðanna í New York og sagt að inn í borgina séu ekki aðeins komnir förufálkar og þvottabirnir, heldur einnig stærri dýr eins og sléttuúlfar. Höfundurinn rannsakar svo, með aðstoð og vitnisburðum vísindamanna og staðkunnugra, hvað myndi verða um svona feiknarlega heimsborg eins og Nýju-Jórvík ef mannfólk hyrfi þaðan, og merkilegt nokk yrði hún eiginlega að engu á furðu stuttum tíma. Neðanjarðarlestarkerfið myndi til dæmis næstum samstundis fyllast af vatni og eyðileggjast þegar hætt yrði að fylgjast með og stjórna þeim 758 öflugu dælum sem starfa á fullu við að skola út grunn- og regnvatni. Þegar hætt yrði að hreinsa lauf og rusl úr niðurföllum myndi holræsakerfið sömuleiðis hætta að virka, vatnsleiðslur myndu gefa sig í næstu frosthörkum og sömuleiðis gasleiðslur með miklum sprengingum, gler myndi molna í rúðum, eldingar kveikja í rusli og gróðurleifum, undirstöður húsa ryðga hratt, en áfoksmold og gróður fljótt byrja að hylja rústirnar. Dýr og fuglar myndu streyma á svæðið, og merkilegt nokk myndi það dýralíf sem kannski er nú um stundir mest af fljótt hverfa af sjónarsviðinu; rottur og kakkalakkar myndu ekki afbera brotthvarf síns vinar, mannsins.

Hlutlaus belti, yfirgefnar borgir

Þótt bókin, eða höfundur hennar, dragi upp mjög dökka mynd af ástandi jarðarinnar nú á tímum iðnaðar og hátækni, og sem er til þess fallin að gera lesandann svartsýnan eftir lestur á herfilega menguðum svæðum og stórhættulegu eitri og rusli sem dreifist æ meir um lönd og höf, þá var samt áhugaverðast að lesa um einhvers konar sigur lífsins sem hann lýsir á svæðum sem mannfólkið hefur yfirgefið af einhverjum ástæðum, eins og þar sem hlutlaus og mannlaus belti hafa verið ákveðin vegna hernaðarátaka.

„Villiblágresi og klifurjurtir gægjast fram þar sem húsþökin voru og dembast síðan niður húsveggina. Logatré, kínaber og þykkni læknakólfa, lárviðarrósa og dísarunna gægjast fram úr kimum þar sem innandyra og utandyra er farið að renna saman í eitt. Hús sökkva í blárauðar breiður þríburablóma. Eðlur og svipusnákar skjótast um þykkni af villispergli, fíkjukaktusum og háu grasi. Sítrónugras breiðir æ meira úr sér svo að loftið angar. Nú, þegar tunglskinsunnendur eru víðs fjarri, er ströndin kvik af grænum sæskjaldbökum sem verpa í sandinn.“ (bls 118)

Þetta hér á undan, lýsing á hlutlausa beltinu á Kýpur þar sem enginn hefur búið síðan 1974, er dæmi um fegurðina sem getur orðið á svæðum yfirgefinna byggða, og glæsilega þýðingu Ísaks Harðarsonar.

Annars, úr því við erum að tala um fegurð svona yfirgefinna manngerðra svæða, þá er stórkostlegt að skoða myndir frá þeirri miklu stórborg Detroit í Bandaríkjunum, sem hefur að stórum hluta lagst í eyði á síðustu áratugum vegna breyttra vinnubragða og sjálfvirkni í bílaiðnaði, og vegna þess að störfin hafa færst annað. Mannfjöldinn í þeirri borg var um tvær milljónir um miðja tuttugustu öld, en er nú innan við sjö hundruð þúsund. Sem þýðir að íbúðabyggð á við svona sexfalt höfuðborgarsvæðið okkar er nú mannauð, fyrir nú utan allar risavöxnu verksmiðjubyggingarnar sem standa tómar. Það er auðvelt að gúgla myndir af þessum stórmerkjum.

Kórea og Chernobyl

Annað svona hlutlaust svæði vegna stríðs, eða öllu heldur vopnahlés, er á miðjum Kóreuskaganum. Um það segir í Mannlaus veröld:

„Í fjarvist hefur þetta griðland milli óvinaflokkanna tveggja fyllst af skepnum sem gátu bókstaflega ekki leitað neitt annað. Einn af hættulegustu stöðum heimsins varð – alveg óvart – eitt þýðingarmesta athvarf villtra dýra, sem hefðu annars getað horfið. Svarti Asíubjörninn, evrasíugaupan, moskushjörturinn, kínverski vatnahjörturinn, gullhálsmörðurinn, góral fjallageitin, sem er útrýmingarhættu, og Amur hlébarðinn, sem er næstum útdauður, halda sig fast við þessar slóðir, sem eru ef til vill aðeins tímabundið lífsbjargráð – mjó spilda, miðað við það svæði er erfðalega heilbrigð dýr þurfa nauðsynlega á að halda.“ (bls 221) Og hann bætir við að Síberíutígurinn, sem talinn var að mestu útdauður, sé sagður hafa sést þarna líka.

Margir hafa heyrt talað um það merkilega líf sem sagt er hafa skotið rótum í nágrenni kjarnorkuversins sem sprakk í Úkraínu, Chernobyl, um úlfa, refi og birni sem eiga að hafa flykkst þangað, og erni í tómum gluggasyllum háhýsa. En höfundurinn Alan Weisman gerir ekki mikið úr því, segir að helst geislavirkir og skammlífir fuglar með albínóbletti séu þar í kringum yfirgefið verið. Hann segir: „Margir hafa látið óvænta fegurð geislamengaðra svæða við Chernobyl slá sig út af laginu og jafnvel reynt að auka á vonarríkt sýndarhugrekki náttúrunnar …“

Eiginlega þyrfti maður að skreppa sjálfur á staðinn og reyna að sjá sannleikann með eigin augum.

Höfundurinn er heldur svartsýnn

Það er athyglisvert með þessa bók og höfund hennar að hann telur greinilega að plánetan þar sem við lifum muni afbera það mikið lengur að hafa mannfólk búandi á sér; það muni annaðhvort eyðileggja Jörðina eða neyðast til að hypja sig burt, hvernig sem farið verður að því. Hins vegar, þegar hann hugsar málin til enda og eins og lesa má undir lok bókar, þá mun ekki það heldur duga til. Því að einhvern tímann í komandi framtíð muni einhverjir aðrir prímatar í Afríku rísa upp á afturlappirnar, smíða sér verkfæri og fara að hugsa, þannig að allt sama trallið muni þá byrja á ný að einhverjum árþúsundum liðnum.

En þegar þar er komið má kannski hugga sig við að það séu áhyggjur sem hvorki geti kallast aðkallandi né sérlega tímabærar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fjölskylduharmleikurinn á Tenerife líklega útkljáður fyrir íslenskum dómstólum

Fjölskylduharmleikurinn á Tenerife líklega útkljáður fyrir íslenskum dómstólum
Fréttir
Í gær

Böðullinn sem hengdi Eichmann er látinn: Var þjakaður af martröðum mánuðum saman

Böðullinn sem hengdi Eichmann er látinn: Var þjakaður af martröðum mánuðum saman
Fréttir
Í gær

Bolli segist ekki hafa komið nálægt auglýsingunum gegn Degi

Bolli segist ekki hafa komið nálægt auglýsingunum gegn Degi
Fréttir
Í gær

Ari Hermóður ákærður fyrir fjárdrátt frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur

Ari Hermóður ákærður fyrir fjárdrátt frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur
Fréttir
Í gær

Guðmundur snýr baki við Viðreisn: „Ég get ekki áttað mig á því hver stefnan er“

Guðmundur snýr baki við Viðreisn: „Ég get ekki áttað mig á því hver stefnan er“
Fréttir
Í gær

Pútín segir að Rússar muni gera tilraunir með ný ofurhljóðfrá flugskeyti

Pútín segir að Rússar muni gera tilraunir með ný ofurhljóðfrá flugskeyti