Margrét Friðriksdóttir, frumkvöðlafræðingur er hætt við að vera oddviti fyrir Frelsisflokkinn í komandi borgarstjórnarkosningum. Hún hefur ákveðið að bjóða sig fram fyrir Flokk fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Frelsisflokkurinn ætlaði m.a. að leggjast hart gegn innflytjendum og múslimum. „Flokkurinn styður kristna trú og gildi,“ svaraði Margrét þegar DV spurði hana út í þau mál í lok ágúst.
Margrét er þekkt fyrir eitt og annað, hún hefur boðið sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þá er hún strangtrúuð og hefur látið mikið til sín taka í umræðum um innflytjendamál. Stjórnmálaspjallið sem hún tekur þátt í að stýra er umdeilt og hafa stjórnendur oft brugðist hægt við ábendingum þegar þar er deilt efni sem gæti flokkast undir útlendingahatur.
Margrét hefur ákveðið að kveðja flokkinn og fara í Flokk fólksins. Flokkur fólksins hefur verið sakaður um að ala á andúð gagnvart útlendingum og hælisleitendum en Inga Sæland heldur þar um stjórnartauma. Inga sagði í Morgunútvarpinu í morgun:
„Ég tel að þessi útlendingaandúð sem er verið að reyna að klína á okkur, þetta eru einfaldlega pólitískir andstæðingar. Það er voða erfitt að finna eitthvað á flokk sem er eins og flokkur fólksins og berst eingöngu fyrir almannahag og útrýmingu á fátækt og hefur aldrei svikið nein loforð og aldrei verið í stjórnunarstöðu til þess.“
Margrét segir í yfirlýsingu á Facebook um flutning sinn í Flokk fólksins
„Vegna skyndilegs viðsnúnings í íslenskum stjórnmálum hef ákveðið að yfirgefa Frelsisflokkinn vegna trúnaðarbrests og styðja alfarið á bak við Flokk fólksins eins og ég hef í raun gert frá stofnun flokksins. Ég var stödd á stofnfundi sem og á aðalfundi núna í vor og hafa hugsjónir okkar ávalt fallið saman nema kannski að því leiti að ég hefði viljað sjá skarpari línur í málum hælisleitenda og skjóta málsmeðferð ekki síst hælisleitendurna sjálfra vegna, sem flokkurinn leggur nú áherslur á. Mikilvægt tel ég einnig að tekið sé upp vegabréfaeftirlit á ný í ljósi ástandsins sem við höfum verið að horfa upp á hjá nágrannaþjóðum okkar.“
Segir Margrét að nú sé kominn tími til að hleypa nýju fólki að og bætir við:
„Lifið heil, einn fyrir alla og allir fyrir einn!“
Uppfært: Í fyrstu útgáfu fréttar stóð að Margrét ætlaði að bjóða sig fram í Alþingiskosningum fyrir Flokk fólksins. Hið rétta er að hún ætlar að bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningum.