fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Laufey og Eysteinn missa ellilífeyrinn við sölu sumarbústaðar: „Þetta er það sem er verið að gera við fullorðið fólk í dag“

Hjónin eru ósátt – „Fólk er kannski búið að vera alla ævina að safna fyrir þessu“

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 24. ágúst 2017 23:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjónin Laufey Jónsdóttir og Eysteinn H. Nikulásson seldu sumarbústað sinn í Öndverðarnesi í Grímsnesi fyrr á þessu ári. Ætlunin var að losa sig við byrðarnar og fara að njóta ávaxtanna af ævistarfinu en þá komust þau að því að það var hægara sagt en gert. Hjónin ræddu málið fyrst á fréttavefnum Lifðu núna.

Missa lífeyrinn í eitt ár

„Auðvitað er maður ósáttur. Maður er búinn að borga skatta og skyldur af þessu í langan tíma og lendir svo í einhverju svona“ segir Laufey í samtali við DV. Vegna söluhagnaðarins af bústaðnum missa hjónin, sem eru eldri borgarar, lífeyrinn frá Tryggingastofnun.

Laufey er 67 ára og vann síðustu 20 ár í láglaunastarfi hjá Reykjavíkurborg. Eysteinn, sem er 73 ára, starfaði sem múrari og hafði góðar tekjur en hætti að vinna fyrir 6 árum síðan. Hjónin hafa því haft mjög lágar tekjur undanfarin ár. „Við erum að fá eitthvað í kringum 200.000 krónur hvort“ segir Laufey.

Hjónin keyptu bústaðinn fyrir 21 ári síðan en hann var þá lítill og án rafmagns og hitaveitu. Þau hafa stækkað hann um helming og lagt bæði rafmagn og heitt vatn í hann. En eftir að þau komust á aldur og tekjurnar lækkuðu ákváðu þau að selja. „Við vissum af þessum reglum fyrir fram en við urðum að selja bústaðinn. Við gátum ekki haft hann lengur. Það var orðið of mikið að hugsa um þetta.“

Endurskoðandi þeirra tjáði þeim að vegna sölu bústaðarins á þessu ári myndu lífeyrisgreiðslurnar á næsta ári falla niður. Þau þurfa því að lifa af söluhagnaðinum allt næsta ár. Laufey segir: „Það verður að koma þessu í umræðuna. Þegar við segjum fólki frá þessu þá trúir það því varla að þetta sé svona.“

Fasteignagjöldin rjúka upp

Þegar Eysteinn og Laufey voru bæði vinnandi greiddu þau að jafnaði um 30.000 krónur í fasteignagjöld. En gjöldin eru tekjutengd og þegar Eysteinn hætti að vinna lækkaði sú upphæð niður í um 6-7.000 krónur. En eftir að þau seldu bústaðinn rjúka þau aftur upp um það bil 30.000 af heimili þeirra í Teigagerði í Reykjavík. Laufey segir: „Um leið og þeir taka af okkur launin, þá hækka þeir fasteignagjöldin“.

Auk þess að missa greiðslurnar frá Tryggingastofnun þurfa hjónin að greiða 20% söluskatt af bústaðnum. Það eina jákvæða sem kemur út úr þessu er að hjónin geta fengið til baka endurgreiðslu að hluta á þeim fjármunum sem þau hafa lagt til við endurbætur á sumarbústaðnum. En framkvæmdirnar hófust í kringum aldamótin og margar af elstu kvittununum vegna verksins eru glataðar.

Laufey segir: „Þetta er bara það sem er verið að gera við fullorðið fólk í dag. Það er verið að klípa hverja einustu krónu hvaðan sem hún kemur. Fólk er kannski búið að vera alla ævina að safna fyrir þessu. Það má ekki njóta afrakstursins.“

Hjónin eru mjög ósátt við kerfið og hvernig ellilífeyrisþegum er gert erfitt um vik að selja eignir. Eysteinn segir að það hefði verið mun betra fyrir þau að selja eignina áður en þau fóru á lífeyri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!