fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Feðgar leita að gulli á enn einni kennitölunni: „Þeir geta vaðið yfir eignir annarra“

Gríðarlegt jarðrask og blásýruþvottur – Landeigendur kæra

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 18. ágúst 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 14. júlí síðastliðinn veitti Orkustofnun málmleitarfyrirtækinu Iceland Resources ehf. í Reykjanesbæ leyfi til rannsókna á málmum, þá sérstaklega gulli og kopar, á Tröllaskaga. Leyfið er veitt til fimm ára og leitarsvæðið nær yfir 1.013 ferkílómetra. Forsvarsmenn Iceland Resources sóttu um leyfi til leitar á átta svæðum á Íslandi árið 2015 og árið 2016 fengu þeir leyfi til leitar í Vopnafirði.

Gjaldþrot, kennitöluflakk og fangelsisdómur

Forstjóri Iceland Resources er Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson og verkefnastjóri fyrirtækisins er faðir hans, Vilhjálmur Kristinn Eyjólfsson. Eftir þá liggur slóð fyrirtækja sem hafa farið í gjaldþrotaskipti á Suðurnesjum, áratugi aftur í tímann.

Vilhjálmur Kristinn var stjórnarformaður verktakafyrirtækisins Stapaverks sem varð gjaldþrota árið 1993. Hann var einnig stofnandi verktakafyrirtækisins Súlur hf. sem fór sömu leið árið 1995. Vilhjálmur Þór var framkvæmdastjóri félagsins Toppurinn verktakar ehf. sem var úrskurðað gjaldþrota árið 2003.

Vilhjálmur Kristinn var stjórnarformaður félagsins Jarðvélar sem varð gjaldþrota árið 2008 en Vilhjálmur Þór sat einnig í stjórn þess félags. Félagið Jarðvélar fékk það verkefni að tvöfalda Reykjanesbrautina en féll frá því árið 2007 vegna fjárhagserfiðleika og tafðist verkið því. Gjaldþrot Jarðvéla orsakaði það einnig að allar framkvæmdir við Motopark akstursbraut á Reykjanesi stöðvuðust. Framkvæmdastjóri Iceland Motopark ehf. var Vilhjálmur Þór og Vilhjálmur Kristinn sat í stjórn félagsins.

Feðgarnir komust í deiglu fjölmiðla fyrir aðkomu sína að eignarhaldsfélaginu Toppurinn-innflutningur, heildverslun með vélbúnað til námavinnslu og mannvirkjagerðar. Vilhjálmur Þór var skráður eigandi félagsins ásamt bróður sínum og móður. Félagið safnaði upp tugum vanskilamála og endaði loks í gjaldþroti árið 2012. Ekkert fékkst upp í rúmlega tveggja milljarða króna kröfur á hendur félaginu. Vilhjálmur Kristinn var dæmdur til eins árs skilorðsbundins fangelsis og rúmlega 100 milljóna króna sektargreiðslu fyrir skattalagabrot í tengslum við félagið árið 2010.

Leyfið veitt félagi en ekki fólkinu á bak við það

Feðgarnir komu fyrst að gullleit með félaginu North Atlantic Mining Associates ehf. Vilhjálmur Þór var framkvæmdastjóri félagsins sem sinnti rannsóknum fyrir fyrirtækið Melmi ehf. sem fékk leyfi til gullleitar á Suðvestur- og Vesturlandi. Einkum var litið til Þormóðsdals í Mosfellssveit í því samhengi. Það félag var úrskurðað gjaldþrota árið 2014 en áður en skiptum búsins var lokið höfðu feðgarnir sótt um leyfi til gullleitar í nýju félagi, Iceland Resources.

Þegar leitað var til Orkustofnunar um það hvers vegna mönnum með langa sögu gjaldþrota og misheppnaðra verkefna, bæði í þessum geira og öðrum, var veitt leyfi til rannsókna á Tröllaskaga voru gefin þau svör að ekki væri verið að veita þeim sjálfum leyfið heldur lögaðila, Iceland Resources ehf. Stofnunin vísar til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og stjórnarskrár lýðveldisins þar sem óheimilt er að mismuna aðilum.

Nær yfir fjögur sveitarfélög.
Leitarsvæðið Nær yfir fjögur sveitarfélög.

Skúli Thoroddsen, lögfræðingur Orkustofnunar, staðfesti það að fjárhagsleg og fagleg geta félagsins og væntanlegra samstarfsaðila hafi verið könnuð með tilliti til rannsóknaráætlunar sem Orkustofnun hafi eftirlit með að sé framfylgt. Komi það hins vegar í ljós að þær forsendur bresti getur stofnunin fellt leyfið úr gildi.

Óhindraður aðgangur

Rannsóknirnar munu valda töluverðu raski en þær eru meðal annars framkvæmdar með borun kjarnahola, með bor sem getur náð allt að 700 metrum niður í jörðina. Framkvæmdir af þessu tagi geta haft gríðarlegar afleiðingar á umhverfið, sérstaklega nálægt vatnsbólum.

Þegar ákvörðunin var tekin var ekki haft neitt samráð við landeigendur á svæðinu sem eru um 40 talsins. Aðgerðin er þó mjög íþyngjandi fyrir þá. Í 26. grein laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu segir:

„Landeiganda eða umráðamanni lands er skylt að veita rannsóknarleyfishöfum samkvæmt lögum þessum óhindraðan aðgang að eignarlandi því sem í hlut á. Þá er landeiganda og umráðamanni lands skylt að veita nýtingarleyfishöfum aðgang að því landi sem nýtingarleyfið tekur til, en þó ekki fyrr en leyfishafi hefur náð samkomulagi við landeiganda um endurgjald fyrir auðlindir eða eignarnám farið fram og umráðataka samkvæmt því.“

Enn fremur:

„Ber landeiganda eða umráðamanni skv. 1. mgr. að hlíta hvers konar afnotum af landi, takmörkun á umráðarétti og óþægindum sem nauðsynleg eru vegna rannsóknar eða nýtingar á auðlind í samræmi við viðkomandi leyfi.“

Haukur Gunnarsson, formaður umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar, segir að Orkustofnun hafi sent skýrslu til ráðsins þar sem kom ágætlega í ljós hvert umfang verkefnisins yrði. „Það kom hins vegar ekki fram hvað þeir geta í raun vaðið yfir jarðir annarra.“

„Það kom hins vegar ekki fram hvað þeir geta í raun vaðið yfir jarðir annarra“

Hann segir að sveitarfélagið hafi verið beðið um að gefa umsögn um leyfisveitinguna hvað varðar lönd sveitarfélagsins. Þessi tiltekna leyfisveiting geri ráð fyrir yfirborðskönnunum og kjarnaborunum á ákveðnum svæðum. Ef frekari rannsóknir yrðu framkvæmdar ætti að hafa samráð við sveitarfélagið. Ráðherra og Orkustofnun hafi hins vegar ákvörðunarvaldið.

Haukur segist ekki geta talað fyrir hönd sveitarfélagsins sjálfs en persónulega segist hann algerlega á móti gullvinnslu á svæðinu. „Mér finnst þetta fáránlegt. En við höfum ekkert um þetta að segja. Það er skýrt í lögum.“

Landeigendur standa saman

Jökull Bergmann, fjallaleiðsögumaður frá Klængshóli, er einn af þeim landeigendum sem telur að lög hafi verið brotin í þessu máli. Hann og fleiri hafa því ákveðið að kæra leyfisveitinguna á grunni upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Hann segir: „Allir landeigendur sem ég hef heyrt í vilja taka skrefið strax og að vera á móti þessum framkvæmdum. Því að fullvinnsla þessara málma yrði umhverfislegt stórslys. Gullvinnsla í bergi eins og er hér fer fram í opnum gryfjunámum. Það er talið vinnanlegt ef það finnast fjögur grömm af gulli í einu tonni af jarðvegi. Það er því augljóst hvernig það fer með jarðveginn og landið.“

Þegar ríkar gullæðar eru unnar fylgir því tiltölulega lítið jarðrask. En á Íslandi hafa slíkar æðar aldrei fundist og því þyrfti mikla jarðvegsvinnu til nýta gullið. Klettar yrðu sprengdir upp og heilu hlíðunum skolað í burtu. Gullið er greint úr jarðveginum með því að leysa það upp í blásýru undir opnum himni.

„Landeigendur munu aldrei koma til með að samþykkja slíka vinnslu á sínu landi.“
Jökull Bergmann „Landeigendur munu aldrei koma til með að samþykkja slíka vinnslu á sínu landi.“

Jökull segir: „Það er mjög ólíklegt að það finnist eitthvert gull hérna en ef svo er þá eru það alveg hreinar línur að landeigendur munu aldrei koma til með að samþykkja slíka vinnslu á sínu landi.“ Hann viðurkennir þó að landeigendur hafi ekki endilega úrslitaáhrif um hvort af vinnslu yrði. „Allt sem er ofan í jörðinni er ríkiseign. Öll slík vinnsla gæti farið fram án þess að landeigendur hefðu nokkuð um það að segja.“ Hann hefur einnig áhyggjur af sögu þeirra aðila sem fengu leyfið. „Ef nýtingarleyfi yrði veitt myndi Iceland Resources hafa þar forgang þar sem það fékk rannsóknarleyfið.“

Búið er að ræða við flesta landeigendur á svæðinu og að sögn Jökuls ætla flestir þeirra að taka þátt í kærunni. Ekki eru þar meðtalin hin fjögur sveitarfélögin sem eiga land á svæðinu: Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akrahreppur og Skagafjörður.

Samráð „bersýnilega óþarfi“

Þegar ástralskt fyrirtæki sótti um leyfi til gullleitar árið 2010 á Austfjörðum var haft samráð við þá 1.260 landeigendur sem leitað var hjá. Þegar leitað var til Orkustofnunar um það af hverju ekki hafi verið leitað eftir samráði við landeigendur nú eins og gert var árið 2010 fengust þau svör að rannsóknarleyfið væri tvíþætt og að jarðrask ætti ekki að eiga sér stað á þessu stigi.

Skúli segir: „Ekki var talin ástæða til þess að kynna landeigendum sérstaklega um fyrirhugaða leit, fyrri þáttinn, eða leita andmæla þeirra, þar sem það var bersýnilega óþarfi og hefði ekki haft áhrif á leyfisveitinguna.“

Hann segir einnig að leyfisveitingin frá árinu 2010 hafi ekki verið bundin í tvo fasa líkt og nú. Þá hafi komið fram örfáar athugasemdir frá landeigendum sem hafi ekki haft áhrif á leyfisveitinguna sem slíka.

Hann segir enn fremur að ef farið verði í seinni hluta rannsóknarinnar á Tröllaskaga verði haft samráð við landeigendur. „Engin hætta er á að hagsmunir landeigenda verði fyrir borð bornir.“

Segja landeigendur oftúlka leyfin

Vilhjálmur Þór, forstjóri Iceland Resources, segir undirbúningsvinnu hafna að gullleitinni á Tröllaskaga en ekki er ljós hvort fólk verður sent á staðinn á þessu ári. Næst á dagskrá sé að tilkynna um það hvernig gullleitin gekk í Vopnafirði en hún hófst í fyrrahaust.

Hann segist ekki hafa neina vissu fyrir því að það finnist gull í vinnanlegu magni á Tröllaskaga. En gull hefur sést þar og bergsamsetning svæðisins þykir vænleg til gullleitar. „Við höfum vissu fyrir því að það sé gull á svæðinu líkt og í Vopnafirði, Þormóðsdal og fleiri stöðum á landinu. Við sóttum um átta leyfi og við gerðum það ekki af handahófi eða að gamni okkar. Við vitum alveg hvað við erum að elta.“

Vilhjálmur segist ekki óttast andstöðu landeigenda á svæðinu við leit Iceland Resources eða þá málsókn sem nú er í burðarliðnum. „Það hafa allir rétt á því að kæra. En við höfum engar áhyggjur af því. Þetta er byggt á misskilningi og fólk þekkir þetta ekki. Það sem við þurfum að gera betur er að upplýsa fólk um hvað sé raunverulega í gangi.“

Hann segir einnig að sumir landeigendur oflesi í þau leyfi sem fyrirtækið fékk. „Það hefur aldrei staðið til að vaða inn á lönd þeirra án þess að tala við þá þrátt fyrir að leyfin og lög landsins leyfi það. Þú veður ekkert inn á heimili fólks.“

Flutt úr landi í miðri umsókn

Þegar umsókn um leyfi til rannsóknar var sent inn til Orkustofnunar árið 2015 var Iceland Resources að fullu í eigu Vilhjálms Þórs og Vilhjálms Kristins í gegnum félag þeirra JV Capital í London. Þann 16. mars síðastliðinn tilkynntu forsvarsmenn kanadíska námavinnslufyrirtækisins St. Georges Platinum and Base Materials Ltd. að þeir hefðu fest kaup á félaginu Iceland Resources. Samkvæmt samkomulaginu gengur Vilhjálmur Þór inn í stjórn kanadíska fyrirtækisins og fyrri eigendur Iceland Resources halda 40 prósentum af bréfum félagsins í nýju dótturfélagi. Meirihlutinn, 60 prósent bréfanna, er þó í eigu kanadíska félagsins.

„Það virðist því vera búið nú þegar að framselja réttinn til þessa kanadíska fyrirtækis sem brýtur algerlega í bága við leyfisveitinguna“

Jökull segir: „Það virðist því vera búið nú þegar að framselja réttinn til þessa kanadíska fyrirtækis sem brýtur algerlega í bága við leyfisveitinguna.“ Í 12. lið leyfisveitingarinnar segir „Leyfi þetta verður ekki framselt né má setja það til tryggingar fjárskuldbindingum nema með leyfi Orkustofnunar, sbr. 32. gr. laga nr. 57/1998“.

Lögfræðingur Orkustofnunar staðfestir að ekki sé hægt að framselja leyfið án leyfis stofnunarinnar. En framsal leyfisins sé hins vegar bundið við lögaðila en ekki eigendur þess félags. „Þó að eignaraðild þess félags breytist, eins og eignarhald í félögum breytist með kaupum og sölum félaga með lögmætum hætti hér á landi, breytast ekki skyldur þess og réttindi.“

Gullleit á Íslandi

Ísland er frekar óvænlegt til gullgraftar sökum samsetningar jarðefna og stöðu landsins á miðhafshrygg. Í íslensku basalti er meðalstyrkur gulls 0,007 grömm á hvert tonn.

Árið 1905 töldu menn sig hafa fundið gull þegar borað var eftir vatni í Vatnsmýrinni við Öskjuhlíðina. Félagið Málmur var stofnað til að vinna gullið en þá kom í ljós að um kopar var að ræða. Sama ár var grafið í Þormóðsdal í Mosfellssveit.

Árin 1922–1924 var önnur tilraun gerð til gullleitar í Vatnsmýrinni án árangurs.

Eftir áratugalangt hlé var byrjað að horfa til gullleitar 1990 víða um land. Einkum var horft til Þormóðsdals árin 1996–1997.

Melmi ehf. fær leyfi til gullleitar á Reykjanesi og Vesturlandi árið 2004.

Ástralskt fyrirtæki fær leyfi til gulleitar á Austfjörðum árið 2010.

Iceland Resources fær leyfi til gullleitar í Vopnafirði 2016 og á Tröllaskaga 2017.Aldrei hefur fundist gull í vinnanlegu magni á Íslandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Í gær

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?