„Við hjónin erum stöðugt á vaktinni, líka í sumarfríinu, endurlífguðum 7 ára dreng sem fannst hérna á botninum í sundlauginni á hótelinu sem við dveljum á. Arnar Logi 6 ára stóð á kantinum og fylgdist með allan tímann.“
Þannig hefst frásögn sem Ragna María Ragnarsdóttir og Guðmundur Hreinsson birtu á Facebook-síðum sínum. Guðmundur starfar sem bráðatæknir hjá slökkviliðinu en Ragna er hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri á bráðadeild í Fossvogi. Þau tjá sig einnig við mbl.is um björgunina en þau Ragna og Guðmundur eru í fríi á Spáni og dvelja á hóteli skammt frá Barcelona. Þar urðu þau vitni að því þegar sundlaugarvörður dró 7 ára gamalt barn upp úr lauginni og var það hætt að anda.
Þegar sjúkrabílar loks komu á vettvang var drengurinn, sem er breskur, kominn með púls. Guðmundur segir á Facebook:
„En það sem skiptir máli í þessu að drengurinn var kominn með púls þegar sjúkrabílarnir komu og farinn að anda spontant, held líka að það sem skipti máli að ég var nógu frekur og stjórnaði. Ragna fékk sér kaffi á eftir til að losna við ælubragðið eftir að hafa blásið í hann.“