María Hólmgrímsdóttir, annar stofnandi Eylendu, segir ekkert verið að fela
„Ég hef alltaf verið mjög virk á Instagram frá því að ég byrjaði árið 2012 og hef síðan þá verið dugleg að pósta myndum úr daglega lífinu. Instagramið mitt hefur stækkað mikið á sama tíma og þessi miðill hefur orðið vinsælli. Ég byrjaði að taka eftir að fylgjendum fjölgaði frekar hratt í fyrra og flæðið á síðunni er búið að verða meira og meira seinasta árið,“ segir Sunneva Eir Einarsdóttir, samfélagsmiðlastjóri hjá umboðsskrifstofunni Eylenda, í viðtali við Smartlandið á mbl.is
Sunneva er með ríflega sextán þúsund fylgjendur á Instagram og er ein af svokölluðum áhrifavöldum umboðsskrifstofunnar Eylenda, sem sérhæfir sig í markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Eitt af því sem Eylenda tekur að sér er að tengja tilvonandi auglýsendur við þá sem hafa fjölda fylgjenda á samfélagsmiðlum. Nýjast mynd Sunnevu á Instagram er til að mynda auglýsing fyrir kók. Rétt er að taka fram að slíkar myndir eru merktar sérstaklega og því ekki duldar auglýsingar líkt og RÚV hefur fjallað um.
María Hólmgrímsdóttir, annar stofnandi Eylendu, segir þetta ekki nýtt af nálinni á heimsvísu. „Ég stofnaði Eylendu ásamt Tönju Ýr Ástþórsdóttur á síðasta ári. Við komum úr örlítið ólíkum áttum en komumst að því að við höfum þá sameiginlegu sýn að framtíð auglýsinga og markaðssetningar sé á samfélagsmiðlum. Fólk hefur áhrif á fólk og að okkar mati ná þessar auglýsingar betur til einstaklinga því þær eru persónulegri og skemmtilegri.
„Þetta er ekkert nýtt undir sólinni. Frægir einstaklingar eins og Cristiano Ronaldo, Tiger Woods og Michael Jordan hafa gert auglýsingasamninga við tiltekin fyrirtæki og mælt með vörum þeirra. Á samfélagsmiðlum er venjulegt fólk sem fólk tengir við að gera slíkt hið sama. Okkar markmið var því að að tengja saman áhrifavalda á þessum miðlum og fyrirtæki. Það fer gríðarleg vinna í að innslög fyrir þessa miðla og því er það okkar markmið að einstaklingar fái sanngjörn laun fyrir vinnu sína,“ segir María
Fyrirtækið er í dag umboðsaðili fyrir 15 áhrifavalda á hinum ýmsu samfélagsmiðlum til dæmis Snapchat og Instagram. Í þeim hópi eru meðal annars Sólrún Diego, Binni Glee og Gæi svo einhverjir séu nefndir.
„Við sáum fyrir okkur að stofna samfélag áhrifavalda og auðvelda þannig fyrirtækjum að læra á þennan falda heim og finna þessa áhrifavalda. Við leggjum okkur fram um að þekkja umbjóðendur okkar afar vel og þannig getum við fljótt og vel metið hvaða fyrirtæki henta hverjum og einum. Áhrifavaldarnir okkar taka hinsvegar aðeins að sér verkefni með fyrirtækjum og vörum sem þeir virkilega elska,“ segir María. Að hennar sögn kemur Eylenda ekki aðeins samningagerð við auglýsendur heldur í raun öllu sem tengist miðlunum sem áhrifavaldarnir láta að sér kveða á.
„Við erum afar stolt af þessum hóp sem að er hjá okkur, þetta er ótrúlegt flott og skemmtilegt fólk sem nær vel saman. Þessir einstaklingar eru farnir að hjálpast að og við reynum að skapa eftirsóknarvert andrúmsloft innan hópsins með því að gera skemmtilega hluti saman,“ segir María.
Að hennar mati mun markaðshlutdeild áhrifavalda á samfélagsmiðlum aðeins aukast á næstu árum á kostnað hefðbundinna auglýsinga. „Framtíðin er á samfélagsmiðlum. Þróunin er samt svo hröð að við erum alltaf að leita nýrra leiða til þess að koma skilaboðum á framfæri og prófa okkur áfram,“ segir María.
Aðspurð um stefnu Eylendu varðandi duldar auglýsingar segir María: „Við erum í góðu sambandi við Neytendastofu og förum eftir leiðbeiningum sem þeir gefa út. Við komum þessum skilaboðum eins vel og við mögulega getum á umbjóðendur okkar. Þau eru mjög stolt af því þegar þau eru í samstarfi við fyrirtæki, þar sem þau kynna einungis vörur eða þjónustu sem þau persónulega mæla með. Það er því ekkert að fela og þau taka því fram þegar þau eru í samstarfi,“ segir María.