Tuttugu manna sendinefnd heimsótti Spán nýlega – Norður-Kóreumenn vilja fjölga ferðamönnum
Norður-Kóreumenn eru sagðir hafa hrifist mjög af þeirri vinnu sem unnin hefur verið á Benidorm á Spáni í tengslum við ferðamannaiðnaðinn. Nýlega heimsótti sendinefnd frá Norður-Kóreu þennan fjölsótta ferðamannastað til að kynna sér hvernig staðið er að málum.
Í frétt El Confidencial á Spáni kemur fram að tuttu manna sendilið hafi heimsótt Spán nýverið og þá einkum og sér í lagi ferðamannastaði á austurströndinni, allt frá Barcelona suður til Alicante.
Í fréttinni kemur fram að Norður-Kóreumenn séu stórhuga þegar kemur að fjölgun ferðamanna og hafa þeir sett markið á milljón erlenda ferðamenn á ári. Það er býsna rífleg fjölgun frá því sem nú er, en talið er að hundrað þúsund manns heimsæki landið heim á hverju ári.
Yfirvöld í Norður-Kóreu beina einkum sjónum sínum að Wonsan, sem er hafnarborg við austurströnd landsins, en þar er veðurfar einkar hagstætt. Hitastig er í kringum 30 stig yfir sumartímann og sólardagar eru margir. Markmiðið er að byggja strandstað með hótelum og afþreyingu af ýmsu tagi, ekki ósvipuðum þeim og finna má á Spáni og víðar.
Í frétt El Confidential kemur fram að sendinefndin hafi hrifist mjög af Benidorm en verið síður hrifin af öðrum fjölsóttum ferðamannastöðum, til dæmis þeim sem finna má í Barcelona. Þeir hafi hrifist meira af skemmtigörðum og annarri léttari afþreyingu sem finna má á Benidorm og í nágrenni strandstaðarins.
„Við vildum einblína á strendurnar því þær eru það sem við höfðum áhuga á,“ segir talsmaður norðurkóreskra yfirvalda og bætti við að líklega muni þeir taka hugmyndirnar með sér til Norður-Kóreu og nota þær í Wonsan að einhverju leyti. Nú stendur yfir uppbygging í Wonsan og er vonast til þess að strandbærinn geti tekið á móti fyrstu gestum sínum um mitt næsta ár.