Þrír einstaklingar handteknir – Tíðar mannaferðir vöktu grunsemdir
„Ég held að íslenskt fjölbýlishús, þar sem allir þekkja alla, sé ekki gáfulegasti vettvangurinn fyrir undirheimastarfsemi sem þessa. Það er í raun með ólíkindum að þeim hafi dottið þetta í hug. En þetta sýnir bara að það er mikilvægt að vera vakandi og með augun opin,“ segir íbúi í fjölbýlishúsi í Bólstaðarhlíð í samtali við DV. Í lok síðustu viku fór fram umfangsmikil lögregluaðgerð í götunni þar sem þrennt var handtekið, karl og tvær konur. Grímur Grímsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir að málið sé rannsakað sem mansals- og vændismál. „Það fannst einnig lítilræði af fíkniefnum í íbúðinni,“ segir Grímur en gat að öðru leyti ekki gefið frekari upplýsingar um málið. Karlmaðurinn tók aðgerðum lögreglu óstinnt upp og hótaði nágrönnum sem fylgdust í forundran með gangi mála.
Íbúðin sem um ræðir hafði verið í útleigu í rúmt ár þegar eigendur hennar ákváðu að selja íbúðina. Það gekk fljótt eftir og þegar rúmur mánuður var í að leigjandinn þyrfti að yfirgefa íbúðina virðist sem viðkomandi hafi ákveðið að leigja íbúðina til þriðja aðila um skamma hríð. Skyndilega hafi maðurinn flutt út og þrír einstaklingar frá Ungverjalandi flutt inn. Umsvifalaust fór að bera á tíðum heimsóknum karlmanna í íbúðina og tóku konurnar á móti þeim. Þá herma heimildir DV að megn graslykt hafi komið frá íbúðinni. „Þessir einstaklingar voru um þrítugt. Þau voru ekki á neinn hátt skuggaleg heldur snyrtileg og vel til höfð,“ segir annar nágranni.
Þegar þríeykið var handtekið í síðustu viku hafði starfsemin aðeins verið í gangi í tvær til þrjár vikur. Þá hafði lögreglan veður af því hvers kyns var og lét til skarar skríða. Aðgerðin hófst um kvöldmatar leytið og stóð í rúmar þrjár klukkustundir. Samkvæmt heimildum DV hótaði karlmaðurinn nágrönnum sínum þegar hann var leiddur út í járnum. Í samtali við DV segir Grímur Grímsson að ekki hafi verið talin ástæða til þess að fara fram á gæsluvarðhald yfir þremenningunum. Var þeim því sleppt að lokinni skýrslutöku en málið er til rannsóknar.
„Það er staðreynd að það er meira framboð af vændi í dag en fyrir nokkrum árum. Við sjáum merki um það á þar til gerðum vefsíðum og á samfélagsmiðlum. En okkar upplifun er sú að það hafi orðið vitundarvakning meðal almennings um vændi almennt. Fólk er meira vakandi fyrir því hvað sé í gangi í nærumhverfi þess og við fáum fleiri ábendingar en áður. Við fögnum að sjálfsögðu öllum slíkum ábendingum,“ segir Snorri Birgisson rannsóknarlögreglumaður í samtali við DV.
Að hans sögn hefur það viðhorf verið ríkjandi að vændissala sé einfaldlega einstaklingar í atvinnurekstri en sú sé yfirleitt ekki raunin. „Yfirleitt er um að ræða erlenda einstaklinga hérlendis sem eru undir hatti annarra,“ segir Snorri.
Á síðustu árum hefur Snorri stýrt fræðsluátaki undir handleiðslu innanríkisráðuneytisins og virðist verkefnið því vera að skila sínu. Það er unnið í samráði við velferðarráðuneytið, Starfsgreinasamband Íslands og mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Alls hafa 60 fundir verið haldnir og rúmlega tvö þúsund manns sótt þá.
Að sögn Snorra eru fleiri tilvik núna þar sem grunur leikur á að um mansal sé að ræða en það verði ekki endilega til þess að málin séu tekin til rannsóknar.
„Við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti og við þurfum meira en grun til þess að fara af stað með rannsókn. En við höfum sett upplýsingaöflun um þessi mál í meiri forgang en áður og aukið samstarf við erlend lögreglulið í gegnum Europol. Þetta eru yfirleitt alþjóðlegir glæpahringir með starfsemi í mörgum löndum og því er samstarfið afar mikilvægt,“ segir Snorri.