fbpx
Þriðjudagur 12.nóvember 2024
Fréttir

Jón Viðar lítið hrifin af þáttaseríu byggðri á Sjálfstæðu fólki: „Margbúið að leikgera verkið sundur og saman“

Baltasar Kormákur mun leikstýra þáttaseríu á RÚV sem byggð verður á einu þekktasta skáldverki Íslendinga

Auður Ösp
Þriðjudaginn 16. maí 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Viðar Jónsson leikhúsgagnrýnandi er ekki par hrifinn af fyrirhugaðri sjónvarpsþáttaröð Baltasars Kormáks sem byggð verður á skáldsögunni Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Telur hann verkefnavalið ófrumlegt og stingur upp á að notast sé við annan efnivið úr bókmenntaarfi Íslendinga.

RÚV og RVK Studios, framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks, hafa gert með sér samkomulag um þróun og undirbúning 6 til 8 sjónvarpsþátta og kvikmyndar sem byggjast á Sjálfstæðu fólki, einu helsta skáldverki íslensku þjóðarinnar. Baltasar Kormákur leikstýrir verkinu og skrifar handritið í samstarfi við aðra handritshöfunda. Þá hefur verið tilkynnt að Ingvar E. Sigurðsson muni fara með hlutverk aðalpersónunnar, Bjarts í Sumarhúsum. Um er að ræða einhverja umfangsmestu framleiðslan í íslenskri kvikmynda- og sjónvarpssögu og er gert ráð fyrir að tökur geti hafist síðla árs 2018. Þær fara fram á Íslandi og er stefnt að því að sem flestir í tökuliði og leikarahópi verði íslenskir og gert er ráð fyrir að bæði þáttaröðin og kvikmyndin verði tekin upp á íslensku.

„Nú ætlar Balti að fara að gera sjónvarpsseríu upp úr Sjálfstæðu fólki,“ ritar Jón Viðar á facebooksíðu sína og segir vissulega löngu tímabært að nýta efni úr bókmenntum Íslendinga og sögu.

„En ég verð nú samt að halda mig í nöldurhorninu: persónulega finnst mér þetta verkefnaval ósköp eitthvað þreytt, margbúið að leikgera verkið sundur og saman, eins og megnið af skáldsögum Laxness,“ ritar hann þvínæst og stingur jafnframt upp á að Baltasar Kormákur sækji sér efnivið í önnur og minna þekkt bókmenntaverk:

„Af hverju ekki að taka til dæmis einhverja af skáldsögum Jóns Trausta sem eru fullar af dramatík, svo sem Heiðarbýlissögurnar en einnig Leysing sem fjallar um átök kaupmannavaldsins og þingeysku bændanna sem urðu upphaf að samvinnuhreyfingunni? Það væri ólíkt ferskara og frumlegra.“

Ein af þeim sem rita athugsemd við færslu Jóns er Gerður Kristný rithöfundur: „Svo mætti gera þætti eftir ævisögu Gerðar myndhöggvara Helgadóttur eftir Elínu Pálma eða Hin hljóðu tár eftir Sigurbjörgu Árnadóttur. Þar eru sko sagðar dramatískar sögur, maður minn.“

Guðmundur Andri Þórsson rithöfundur og ritstjóri ritar einnig athugasemd undir færslu Jóns Viðars og bendir á þá kenningu að bestu kvikmyndirnar séu yfirleitt gerðar eftir meðalgóðum skáldsögum.

„Það er tónn í Sjálfstæðu fólki sem aðeins verður skynjaður með því að lesa verkið. Hvernig kvikmyndar maður þessa hárfínu blöndu af háði, andstyggði, aðdáun, sorg og samlíðan?“ ritar Guðmundur og stingur einnig upp á Reykjavíkursögum Einars Kvaran sem afbragðs efnivið í sjónvarpsþáttaseríu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt