fbpx
Miðvikudagur 12.mars 2025
Fréttir

Birna: „Ég er hrædd við allt“

Birna Hrönn glímir við eftirköst hryðjuverksins í Stokkhólmi – Leitar sér sálfræðiaðstoðar en er ósátt við að tryggingarnar dekki ekki kostnað við andleg áföll sem þessi

Ritstjórn DV
Föstudaginn 28. apríl 2017 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef ég hefði slasast líkamlega þá hefði ég verið tryggð, en af hverju er andlega hliðin eitthvað minna virði? Er það af því að hún sést ekki?“ segir Birna Hrönn Gunnlaugsdóttir sem var stödd ásamt vinkonu sinni á Drottningargötu í Stokkhólmi þann 7. apríl síðastliðinn þegar hryðjuverkamaðurinn Rakhmat Akilov ók vöruflutningabíl á ógnarhraða fram hjá þeim, í gegnum mannfjöldann og inn í verslunarmiðstöðina Åhlensvaruhuset með þeim afleiðingum að fjórir létu lífið og tugir slösuðust. Vinkonurnar voru á leið í verslunarmiðstöðina, þar sem þær höfðu mælt sér mót við aðra vinkonu.

Birna Hrönn, sem er tvítugur námsmaður, glímir nú við afleiðingar áfallsins sem fylgdi því að verða vitni að þessum skelfilega atburði sem skók Svíþjóð og heimsbyggðina. Hún hefur þurft að leita sér sálfræðiaðstoðar til að takast á við lífsreynsluna en er verulega ósátt við að tryggingarnar dekki ekki, eða í það minnsta niðurgreiði, slíka aðstoð. Hún vill knýja á um breytingar með því að opna á umræðuna enda telur hún ljóst að margir veigri sér við því að leita sér aðstoðar við hinum duldu áverkum þegar þeir standa frammi fyrir því að bera megnið af kostnaðinum sjálfir.

Áfall að sjá fólk deyja

„Þetta er áfall og viðbrögð fólks eru misjöfn. Þetta hafði ótrúlega mikil áhrif á mig. Ég get ekki sofið og ef ég sofna þá vakna ég og næ aldrei djúpum svefni. Það hefur endalaus áhrif á mann að verða vitni að dauða fólks og að sjá það dáið,“ segir Birna í samtali við DV. „Öll hljóð „triggera“ mig. Mér bregður við allt. Ég er alltaf að líta aftur fyrir mig. Þetta kom manni svo að óvörum. Ég var í Zöru að versla, dunda mér í Stokkhólmi á góðum degi þegar þetta gerist. Maður er aldrei viðbúinn fyrir svona, frekar en maður er viðbúinn áföllum yfirleitt.“

Úsbekinn Rakhmat Akilov varð fjórum að bana og slasaði fjölmarga þegar hann ók flutningabíl inn í mannfjöldann á Drottningarstræti og á verslunarmiðstöðina Åhlensvaruhuset.
Vettvangur voðaverks Úsbekinn Rakhmat Akilov varð fjórum að bana og slasaði fjölmarga þegar hann ók flutningabíl inn í mannfjöldann á Drottningarstræti og á verslunarmiðstöðina Åhlensvaruhuset.

Mynd: EPA

Getur ekki verið ein

Eins og oft er raunin með áföll sem þessi þá komu afleiðingar þessarar lífsreynslu Birnu ekki fram fyrr en aðeins seinna. Þegar hún var komin heim og fjarlægðin frá atburðinum orðin meiri hafi það sem gerðist hægt og sígandi sótt þungt að henni.

„Ég fór að sjá meira af þessu. Ég hafði ekki skoðað fréttirnar þarna úti, en eftir því sem ég sé meira af þessu fer ég að hugsa meira um þetta. Því meira sem ég er ein því meira hugsa ég um þetta, svo ég forðast að vera ein, því ég vil ekki hugsa um þetta. Ég hef aldrei verið svona. Ég er hrædd við allt og ég get ekki verið ein.“

Birnu varð fljótt ljóst að hún vildi leita sér aðstoðar. Hún viðurkennir að hafa ekki vitað hvert hún ætti að snúa sér svo hún hafi gúgglað sálfræðiþjónustu og sett sig í samband við sálfræðing. Annað af hennar fyrstu verkefnum var einnig að senda fyrirspurn á tryggingafélagið sitt, VÍS, til að athuga hvort tryggingarnar dekkuðu eitthvað af kostnaðinum.

Þessi mynd af Birnu Hrönn, áhyggjulausri og hamingjusamri, í miðborg Stokkhólms var tekin aðeins nokkrum mínútum áður en hryðjuverkaárásin var gerð.
Andartökum fyrir árásina Þessi mynd af Birnu Hrönn, áhyggjulausri og hamingjusamri, í miðborg Stokkhólms var tekin aðeins nokkrum mínútum áður en hryðjuverkaárásin var gerð.

Mynd: Aðsend

Andlega hliðin minna virði?

„Það er mikill kostnaður sem fylgir því að leita sér sálfræðiaðstoðar,“ segir Birna sem fékk loks svör frá VÍS í vikunni. Efnislega voru þau svör á þá leið að þar sem hún meiddist ekki líkamlega, fengi hún ekkert.

„Svo ég spurði hvort ég hefði verið tryggð ef ég hefði meitt mig líkamlega og svarið sem ég fékk var já. Hvernig er þetta hægt? Þetta er að mínu mati svo siðferðislega rangt. Ég fæ vissulega eitthvað frá stéttarfélaginu mínu þótt ég hafi ekki slasast líkamlega, en af hverju er andlega hliðin minna virði?

Eftir að Birna hafði leitað til sálfræðings var henni bent á önnur úrræði, svo sem áfallahjálp hjá Rauða krossinum. Hún telur þó að hún þurfi meira en það „þótt ég viti ekki hvernig þjónustu Rauði krossinn veitir. Ég leitaði að sálfræðingi alveg eins og ég hefði leitað á sjúkrahús ef ég hefði meitt mig.“

Kostnaður fljótur að hrannast upp

Hún segir erfitt að sætta sig við að sálfræðiþjónusta skuli ekki vera niðurgreidd af tryggingafélaginu.

„Ég vil fá svör. Af hverju er andlega hliðin ekki metin til jafns við þá líkamlegu? Ég fæ fimm þúsund krónur frá stéttarfélaginu fyrir hvern tíma hjá sálfræðingi þar sem tíminn kostar 16 þúsund krónur. Ég er búin að fara í einn og hann telur að ég þurfi að minnsta kosti 5–6 tíma. Þetta er því rétt að byrja. Þessir þúsundkallar eru fljótir að telja þegar þú ert námsmaður.“

Hætta á að lenda í vítahring

Birna segir að það sé ekki á það bætandi að vera að glíma við áfall sem þetta þótt fjárhagsáhyggjur bætist ekki þar ofan á hjá fólki.

„Ég leitaði mér aðstoðar, en það eru ekki allir sem gera það. Einhverjir hljóta að veigra sér við því þegar þeir standa frammi fyrir þessum kostnaði. Núna stressast maður upp því ég vinn með skóla. Vinn alla auka- og yfirvinnu sem býðst til að geta borgað niður sálfræðiþjónustuna. Þá vindur þetta upp á sig með enn meiri kvíða. Hvernig á ég að geta sinnt skólanum þegar ég er að vinna til að geta átt fyrir sálfræðiþjónustunni svo ég geti staðið mig í skólanum? Þetta verður vítahringur.“

Birna á þó góða að og segir að hún fái aðstoð frá foreldrum sínum til að láta enda ná saman.

„En það er vegna þess að ég get þetta ekki ein. Það getur þetta enginn einn. Ég fór til útlanda til að fá smá pásu fyrir prófin og njóta mín – sem síðan fer svona. Ég skil ekki af hverju þetta er svona og hvernig þeir komast upp með það. Ég ætla að breyta þessu því þetta er ekki boðlegt. Þess vegna er ég að vekja máls á þessu.“

DV óskaði eftir viðbrögðum VÍS vegna málsins. Þau höfðu ekki borist þegar DV fór í prentun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Sjötugur karlmaður ákærður fyrir að stela um 40 milljónum úr dánarbúi móður sinnar – Lagði fimm milljónir inn á dóttur sína

Sjötugur karlmaður ákærður fyrir að stela um 40 milljónum úr dánarbúi móður sinnar – Lagði fimm milljónir inn á dóttur sína
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Skarphéðinn nýr framkvæmdastjóri Sagafilm

Skarphéðinn nýr framkvæmdastjóri Sagafilm
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Hopp harmar skemmdarverkið á Seltjarnarnesi – Afhentu lögreglu upplýsingar um notandann

Hopp harmar skemmdarverkið á Seltjarnarnesi – Afhentu lögreglu upplýsingar um notandann
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Dagbjört komin í opið fangelsi eftir aðeins 15 mánaða afplánun – Fékk 16 ár fyrir að pynta mann til dauða

Dagbjört komin í opið fangelsi eftir aðeins 15 mánaða afplánun – Fékk 16 ár fyrir að pynta mann til dauða
Fréttir
Í gær

Gagnrýna rússnesk yfirvöld – Gáfu mæðrum fallinna hermanna hakkavél

Gagnrýna rússnesk yfirvöld – Gáfu mæðrum fallinna hermanna hakkavél
Fréttir
Í gær

Er þetta síðasta varnarlínan gegn Trump? – Virkar hún?

Er þetta síðasta varnarlínan gegn Trump? – Virkar hún?
Fréttir
Í gær

Skúli inntur svara um meinta reimleika í Hvammsvík eftir að ferðamenn flúðu í ofboði – „Þetta eru draugar í fleirtölu“

Skúli inntur svara um meinta reimleika í Hvammsvík eftir að ferðamenn flúðu í ofboði – „Þetta eru draugar í fleirtölu“
Fréttir
Í gær

Íbúar fengið nóg og kalla eftir aðgerðum: „Alveg sama hvað þú gerir, alltaf lendirðu á vegg“

Íbúar fengið nóg og kalla eftir aðgerðum: „Alveg sama hvað þú gerir, alltaf lendirðu á vegg“