„Það var gert grín að því af sumum þegar ég fór að lýsa því á flokksþingi 2015 hvernig þessir aðilar störfuðu, lýsa atburðum sem ég hafði lent í. Einhverjir töldu að þetta hlytu að vera hugarórar, einhvers konar paranoja.“
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins. Í viðtali á Sprengisandi ræddi Sigmundur um kaup þriggja vogunarsjóða og að Goldman Sachs-bankinn hefði keypt sem samsvarar 29,18 prósent í Arion banka. Þar sagði Sigmundur að honum hefði verið hótað og gaf í skin að honum hefði verið boðnar mútur af aðilum sem tengjast vogunarsjóðum. Sagði Sigmundur að nauðsynlegt væri að stjórnmálamenn stæðu uppi í hárinu á þessum aðilum.
Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins ræddi þessi mál í Bítinu í morgun og vill að Sigmundur greini nákvæmlega frá hvort honum hafi verið boðið mútur eða ekki.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í þættinum á Bylgjunni.
„Ég er ekki að saka neina Íslendinga að hafa þegið mútur, en ég veit að mér var boðið að leysa málin á þann hátt að ég gæti verið sáttur við þá og þeir yrðu sáttir og málið leyst. Mér var reyndar líka hótað, oftar hótað en mér var boðin ásættanleg lausn.“
Hvað ertu að segja mér núna, að þér hafi verið boðin ásættanleg lausn, hvað þýðir þetta?
„Það voru oftar en einu sinni menn sendir að tala við mig, spyrja mig hvort að ég væri ekki til í það að klára þetta mál þannig að allir gætu vel við unað.“
Hvort þú værir falur?
„Já, já, ég er að segja það.“
Brynjar sagði í morgun að Sigmundur hefði aldrei sagt í beinum orðum að reynt hefði verið að múta honum.
„Stundum hefur maður á tilfinningunni í almennri umræðu að menn geri ekki greinarmun á mútum, því hann notar aldrei orðið mútur sjálfur, og þegar menn eru að reyna að ná samkomulagi. Þegar menn takast á og segja „ég vil þetta og þá getur þú fengið þetta“. Menn mega ekki gera of mikið úr því og gera það að einhverjum mútum eða hótunum. Þetta getur aðeins ruglað umræðuna.“
Vill Brynjar að Sigmundur segi alla söguna og tali ekki í hálfkveðnum vísum.
„Ég vil auðvitað að fyrrverandi forsætisráðherra segi nákvæmlega hvað gerðist, því hann er búinn að hálfpartinn gefa það í skyn að honum hafi verið mútað. Falur, hvað þýðir það? Hann verður þá að segja það nákvæmlega hvað menn voru að reyna að gera. Annað en að reyna að hafa áhrif eins og menn reyna að gera þegar verið er að deila og komast að niðurstöðu. Ég vil ekki að menn séu að kveða í hálfkveðnum vísum.“