Haldlagðar eignir úr húsleit hurfu úr hirslum lögreglu – Eftirlitsnefnd með málin til skoðunar – Harðræði lögreglumanns gegn dyraverði náðist á myndband
Dýr Rolex-úr, verðmætir skartgripir og reiðufé sem haldlagt var við húsleit lögreglu í tengslum við rannsókn á starfsemi kampavínsklúbbsins Strawberries árið 2013 virðist hafa horfið með dularfullum hætti úr hirslum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Verðmæti munanna hleypur á milljónum króna og liggur fyrir kæra vegna málsins. Nýstofnuð nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefur tekið málið til skoðunar sem og fyrri kæru eiganda Strawberries frá því í fyrrasumar, er varðar aðgerðir lögreglu í Strawberries-málinu. Þetta staðfestir lögmaður eiganda Strawberries í samtali við DV. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur rétt að tjá sig ekki um málið meðan það er til skoðunar hjá nefndinni.
Árið 2013 sætti Strawberries lögreglurannsókn vegna meintrar vændisstarfsemi og mansals sem varð til þess að eigandinn, Viðar Már Friðfinnsson, og fjórir aðrir starfsmenn voru handteknir í kjölfar rassíu. Við rannsókn málsins voru meðal annars notaðar tálbeitur þar sem óeinkennisklæddir lögreglumenn fóru inn á staðinn til að reyna að afhjúpa meinta ólöglega starfsemi.
Í kjölfarið var staðnum lokað, hann innsiglaður og húsleitir framkvæmdar. Tveimur árum síðar, í júní 2015, lýsti ríkissaksóknari því yfir að málið hefði verið fellt niður. Það eina sem eftir stóð af ítarlegri rannsókn málsins voru meint stórfelld skattalagabrot Viðars Más sem ákært var fyrir, en hafa ekki verið til lykta leidd.
Á mánudag var íslenska ríkið svo dæmt til að greiða fyrrverandi dyraverði á Strawberries 800 þúsund krónur í miskabætur vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti í tengslum við rassíu lögreglu. Enn eru þó ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli.
DV.is greindi frá því í maí 2016 að Viðar Már hefði kært lögreglu til embættis héraðssaksóknara vegna aðgerða á Strawberries árið 2013. Í umræddri kæru komu meðal annars fram ásakanir um að lögreglumenn hefðu setið að sumbli í tálbeituaðgerðunum, verið drukknir þegar handtökur hófust inni á staðnum eftir lokun og eytt verulegum fjárhæðum, samkvæmt heimildum DV um 1.100 þúsund krónum, í áfengi á staðnum að því er virðist til að reyna að grípa konur við að bjóða þeim kynlífsþjónustu gegn greiðslu.
Meðal gagna sem fylgdu kærunni var myndband úr eftirlitsmyndavél staðarins sem sýnir nokkra óeinkennisklædda lögreglumenn sitja og drekka áfengi í félagsskap stúlkna á staðnum í nokkrar klukkustundir. Blaðamaður DV hefur fengið að sjá brot úr umræddu myndbandi en nánar er greint frá því hér á opnunni.
Vísir.is greindi frá því í júní 2015 að í rannsóknargögnum hefði komið fram að lögreglumönnunum hefði verið boðin kynlífsþjónusta gegn greiðslu og að ráðist hafi verið í áhlaupið á þeim forsendum. Viðar Már neitaði ávallt sök um nokkra aðkomu að vændisstarfsemi og mansali, en sem fyrr segir var málið er þetta varðaði látið niður falla og aldrei ákært.
Páll Kristjánsson, lögmaður Viðars Más, staðfestir í samtali við DV að nýlega hafi borist tilkynning um að hin nýstofnaða eftirlitsnefnd með störfum lögreglu hefði tekið málið til skoðunar. En það er ekki eina málið sem til skoðunar er.
Annar angi málsins er að við húsleit sem gerð var á Strawberries var lagt hald á ýmsa muni í þágu rannsóknarinnar. Þegar húsleit fer fram skráir lögreglan niður allt sem tekið er og færir í munaskrá. Haldlagðir munir eru síðan geymdir í hirslum lögreglu.
Heimildir DV herma að meðal þess sem haldlagt var á Strawberries og heimili Viðars Más voru nokkur Rolex-armbandsúr, bindisnælur, hringar, hálsmen og annað verðmætt skart, þar á meðal erfðagripir, og nokkuð af reiðufé, bæði evrur og dollarar. Verðmæti þessara muna og lausafjár hleypur á mörgum milljónum króna samkvæmt heimildum.
Sem fyrr segir var það eina sem eftir stóð í Strawberries-málinu meint skattalagabrot Viðars Más, sem hann var ákærður fyrir síðastliðið sumar.
Í skattamálinu gerði lögreglan upphaflega kröfu um að þessir munir, auk fasteigna og annarra stærri eigna, yrðu gerðir upptækir en við fyrirtöku málsins í dómsal kom fram að saksóknari hefði fallið frá kröfunni um upptöku munanna. Við nánari eftirgrennslan kom upp úr krafsinu að ástæðan var sú að þessir munir voru allir horfnir úr hirslum lögreglu.
Páll staðfestir að þetta dularfulla hvarf verðmætanna hafi verið kært og að kært hafi verið fyrir þjófnað og rannsóknar krafist. Hann staðfestir einnig að fyrir liggi bókun hjá lögreglu í máli gegn umbjóðanda hans að lögreglan falli frá upptöku á þessum tilteknu munum „enda finnist þeir ekki lengur í vörslu lögreglu“.
Þá staðfestir Páll einnig að eftirlitsnefndin hafi þennan anga málsins einnig til skoðunar. Viðar Már kvaðst ekki vilja tjá sig um málið þegar eftir því var leitað og vísaði á lögmann sinn.
DV óskaði eftir viðbrögðum frá Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna málsins. Sigríður Björk vísaði á Friðrik Smára Björgvinsson, yfirmann rannsóknardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem staðfestir að kæra liggi fyrir vegna málsins og að hún sé til skoðunar hjá eftirlitsnefndinni.
„Á meðan þetta er í athugun hjá þessari nefnd þá held ég að það sé ekki rétt að embættið hér tjái sig neitt sérstaklega um þetta. Þetta verður að hafa sinn gang og niðurstaða úr athugun á þessu hlýtur að leiða eitthvað í ljós, hvaða ástæður liggja að baki því að þessir munir finnast ekki,“ segir Friðrik Smári í samtali við DV.
Aðspurður almennt hvort hann muni eftir að svona nokkuð hafi komið upp áður, að haldlagðir munir hverfi úr geymslum lögreglu, kveðst hann ekki muna eftir því í augnablikinu.
„Ég get nú ekki svarið fyrir það í augnablikinu að svona hafi ekki komið fyrir áður, en ég man ekki eftir því í fljótu bragði.“
Eru einhverjir aðrir en lögreglumenn sem hafa aðgang að þessum geymslum?
„Það eru starfsmenn embættisins sem hafa aðgang að þessum geymslum. En ég tel rétt að embættið tjái sig ekki um þetta fyrr en niðurstaðan liggur fyrir úr rannsókn.“
Eftirlitsmyndbönd sýna lögreglumenn panta og drekka fjölmarga bjóra – Dyravörður keyrður harkalega í gólfið – DV fékk að sjá myndböndin
Eitt af sönnunargögnum í kærumálinu gegn lögreglunni vegna aðgerðanna á Strawberries eru myndskeið úr eftirlitsmyndakerfi staðarins. Blaðamenn DV fengu við vinnslu þessarar umfjöllunar að sjá brot úr umræddum myndskeiðum sem sýna annars vegar það sem fullyrt er að séu óeinkennisklæddir lögreglumenn við barinn á kampavínsklúbbnum að panta sér og drekka ótæpilega af áfengi.
Líkt og fram hefur komið fylgdu myndskeiðin kærunni til héraðssaksóknara síðastliðið sumar þar sem lögreglumennirnir voru sakaðir um að hafa verið drukknir við skyldustörf og framkvæmt fyrstu handtökur í málinu eftir að hafa setið að sumbli á staðnum. Mennirnir sjást panta sér og greiða fyrir fjölmarga bjóra og drekka þá. En ekki aðeins bjór, heldur í að minnsta kosti tvö skipti sjást mennirnir, sem fullyrt er að séu lögreglumenn, fá sér eitthvað sem líklega er koníak eða viskí í glas. Sjást þeir velta glasinu um í lófanum, þefa af því og drekka í botn. Að minnsta kosti einn mannanna, virðist síðar vera orðinn áberandi ölvaður við barinn.
Hitt sem myndskeiðin sýna er aðdragandi aðgerða lögreglu á Strawberries þar sem farið var í handtökur á starfsmönnum staðarins þegar verið er að loka umrætt kvöld. Þar sjást tveir menn, sem síðar er ljóst að eru lögreglumenn. Búið er að kveikja ljósin á staðnum vegna lokunar og dyravörður og barþjónar að vísa gestum staðarins á dyr.
Annar lögreglumannanna er með bjórflösku í hönd þegar þeir ráðfæra sig hvor við annan, og miðað við það sem síðar gerist eru þeir að skipuleggja handtökuaðgerðir. Lögreglumaðurinn með bjórinn í hönd, fær sér síðan gúlsopa, leggur flöskuna á barborðið og virðist líta eftir félögum sínum sem von er á. Eftir stutta stund snýr dyravörðurinn aftur í mynd eftir að hafa brugðið sér frá, en þá er annar lögreglumannanna að handtaka barþjón við barinn og dyravörðurinn athugar málið.
Þá vindur sér upp að honum hinn lögreglumaðurinn sem nýbúinn var að leggja frá sér bjórflöskuna, grípur í frakka dyravarðarins sem bakkar. Einhver orðaskipti verða þeirra á milli en dyravörðurinn virðist spakur og lítt ógnandi. Af myndbandinu verður ekki annað ráðið en að lögreglumaðurinn keyri dyravörðinn sem var að hörfa aftur á bak í jörðina, með þeim afleiðingum að hann fellur harkalega aftur fyrir sig á gólfið af nokkru afli. Lendir meðal annars illa á litlu sviði sem þar er.
Myndbönd af þessum atvikum, sem blaðamenn DV hafa fengið að sjá, eru meðal þeirra sem lögð voru fram með kæru um aðgerðir lögreglu. Sem fyrr segir, eru lögreglumennirnir sakaðir um að hafa verið undir áhrifum áfengis við aðgerðirnar og handtökur í kjölfarið inni á staðnum. Umrædd myndbönd virðast renna stoðum undir þær ásakanir.
Nefndin, sem tók til starfa frá og með síðustu áramótum, er skipuð þremur nefndarmönnum, einum tilnefndum af Lögmannafélagi Íslands, öðrum af Mannréttindaskrifstofu Íslands en sá þriðji er skipaður af innanríkisráðherra. Eitt af meginhlutverkum nefndarinnar er að taka við erindum frá borgurum sem varða ætlaða refsiverða háttsemi starfsmanns lögreglu eða kvörtunum vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu.
Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu er sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Nefndin fer ekki með ákæruvald, rannsókn sakamála eða vald til að beita starfsmenn lögreglu viðurlögum. Nefndin fylgist hins vegar með meðferð þeirra erinda sem henni hafa borist og getur sent viðkomandi embætti athugasemdir við afgreiðslu einstakra mála eða tilmæli um aðrar aðgerðir, ef tilefni þykir til.
Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefur jafnframt það hlutverk að taka til athugunar mál þegar maður lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot. Þá hefur nefndin jafnframt heimild til að taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði þegar hún telur tilefni til.
Nefndina skipa:
Trausti Fannar Valsson, dósent við Háskóla Íslands, og jafnframt formaður, tilnefndur af ráðherra.
Þorbjörg Inga Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, tilnefnd af Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður, tilnefnd af Lögmannafélagi Íslands.