Bónusgreiðslur til þriggja íslenskra lykilstjórnenda Glitnis HoldCo, hækka um á bilinu 102 til 149 milljónir króna, ef þær skipast jafnt á milli manna. Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, kemur í dag fram að bónuspottur til handa stjórnarmönnum og lykilstjórnendum félagsins muni stækka um 200-300 milljónir króna síðar í vikunni. Potturinn muni þá nema 1.720 milljónum króna.
Þrír Íslendingar eru sagðir eiga tilkall til ríflega fjórðungs pottarins. Fjárhæðin sem þeir eiga tilkall til nemur núna á bilinu 205 til 447 milljónir króna. Mennirnir þrír eru Ingólfur Hauksson, framkvæmdastjóri Glitnis, Snorri Arnar Viðarsson, yfirmaður eignastýringar, og Ragnar Björgvinsson aðallögfræðingur.