Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, er nú í stórri skoðun og verður ekki til taks næstu vikurnar, eða fram í miðjan næsta mánuð. Þetta segir Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi gæslunnar, í samtali við DV. Blaðinu barst ábending um að þyrlurnar þrjár væru bilaðar en svo er ekki, að sögn Sveins.
Hann segir að við skoðun á TF-LIF í gær kom fram bilun sem þurfti að vinna í. Viðgerð ljúki um eða upp úr hádegi í dag.
Þá segir Sveinn að leiðsögutæki, sem nýtist við næturflug eða blindu, hafi bilað í TF-GNA en að vélin sé í flughæfu ástandi. „Ef upp kemur slys eða sjúkraflutningur þá getur hún brugðist við.“ Erfitt væri hins vegar að nota hana til næturflugs eða til flugs í blindu.
Sveinn segir að ekki hafi komið upp aðstæður í seinni tíð þar sem Landhelgisgæslan hafi ekki getað sinnt útkalli vegna bilana. Reglulegar skoðanir og viðhald sé liður í því að þyrlur gæslunnar séu alltaf til taks þegar neyðartilvik koma upp. Þá bendir Sveinn á að þyrlur Landhelgisgæslunnar séu ekki eini búnaðurinn sem nýtist við björgun hérlendis. Í því samhengi nefnir hann varðskiptin sem og búnað Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.