Veitingahús, kjörbúðir og stórmarkaðir munu í auknum mæli versla við Costco í stað heildsala
Íslenskir heildsalar og matvælaframleiðendur eru margir orðnir uggandi yfir komu Costco á íslenskan smásölumarkað. Forstjóri 10-11 segir að hugsanlega eigi fyrirtækið eftir að kaupa vörur frá Costco sem verða svo endurseldar í verslunum 10-11.
Þetta kemur fram í viðtali í Markaðinum við Árna Pétur Jónsson, forstjóra 10-11. Þar kemur einnig fram að Ölgerðin og Sláturfélag Suðurlands (SS) vinni nú að samningum við erlenda birgja sína um lækkun á innkaupsverði á ákveðnum vörum til heildsölu.
Árni kveðst sannfærður um að Costco muni hafa mikil áhrif á íslenskan markað. Ekki einungis smásölu heldur einnig heildsölu.
„Við höfum skoðað hvort þarna séu einhver tækifæri fyrir okkur og erum undirbúin fyrir það. Þeir sem ekki óttast þennan keppinaut vanmeta hann stórkostlega,“ sagði Árni Pétur í samtali við Markaðinn.
Þar kemur jafnframt fram að íslenskir sérfræðingar á sviði verslunar og stjórnendur fyrirtækja telja að áhrifin af innreið Costco verði mikil. Til dæmis munu veitingahús, kjörbúðir og stórmarkaðir í auknum mæli versla við Costco, til endursölu og framleiðslu, í stað heildsala.
Á kynningarfundi um starfsemi Costco á Íslandi í síðustu viku kom fram að aðeins þeir sem hafa aðild að Costco geta keypt vörur hjá fyrirtækinu. Ársaðild fyrir einstaklinga kostar 4.800 krónur en ársgjald fyrirtækja er 3.800 krónur. Aðild veitir aðgang að vöruhúsum fyrirtækisins um heim allan.
Þá kom fram á fundinum að Costco hafi um 3.800 vörutegundir til sölu hverju sinni. Verslunin mun bjóða upp á ótal vöruflokka; til dæmis skrifstofuvörur, raftæki, hjólbarða og bílavörur, verkfæri, fatnað, eldhúsvörur, heimilistæki, húsgögn, skartgripi, íþróttavörur, leikföng, gleraugu og dekk.
Þá mega viðskiptavinir búast við því að finna hátt í tvö þúsund vörutegundir af mat, bæði mat sem framleiddur er á Íslandi og erlendis. Costco selur vörur sínar í stórum einingum og stílar inn á magnkaup.
Eins og komið hefur fram mun Costco einnig selja eldsneyti en aðeins þeir sem greiða árgjald eiga kost á því. Engin verðdæmi komu fram á fundinum heldur gáfu forsvarsmenn aðeins til kynna að verð verði hagstæðara en Íslendingar hafi áður kynnst.