Þekktir Íslendingar eru áberandi í auglýsingunni
Danski mjólkurvörurisinn Arla hefur nú blásið til enn einnar auglýsingaherferðar þar sem skyr fyrirtækisins er markaðsett með hjálp Íslands. Auglýsingaherferðin er tekin upp hér á landi og þar má sjá og heyra í þekktum Íslendingum, m.a. Sigurði Sigurjónssyni og Magnúsi Ver en gullbarkinn Egill Ólafsson talsetur auglýsinguna, eins og áður.
Árið 2015 varð talsvert uppþot þegar Arla notaði ímynd Íslands til þess að markaðsetja skyrframleiðslu fyrirtækisins í Bretlandi. Sérstaka reiði vakti Facebook-færsla fyrirtækisins þar sem gefið var í skyn að varan væri framleidd á Höfn í Hornafirði. Fjölmargir Íslendingar létu í sér heyra á síðu Arla, þar á meðal framkvæmdastjóri sölu- og markaðsviðs Mjólkursamsölunnar sem var afar ósáttur við atferli Arla og vildu meina að fyrirtækið væri hálfpartinn að gefa í skyn að varan væri framleidd hér í landi. Sagði hann að danski risinn ætti að vera heiðarlegur með þá staðreynd skyrið þeirra væri ekki íslenskt heldur jógúrt sem framleitt væri í Þýskalandi.
Arla heggur nú í sama knérunn með þessari nýju auglýsingu sem gefur til kynna að vel hafi tekist til í fyrra skiptið.
Auglýsingin nýja:
Hér má sjá og heyra fyrri auglýsingu Arla sem fór illa í landann: