Vann tvö sumur á barnadeild hælisins – Áttaði sig síðar á að óbeint ofbeldi fólst í afskiptaleysinu
„Mín upplifun er engan veginn sú að þarna hafi verið fólk sem vildi gera þessum börnum mein eða beitti þau harðræði. Ég upplifði þetta ekki sem mannvonsku, aðeins þeirra tíma þekkingarleysi og kerfisbundið getuleysi til að sinna þessum einstaklingum,“ segir Kristín Amalía Atladóttir, sem vann sem ung kona tvö sumur á barnadeild Kópavogshælis árin 1984 og 1985. Hún segir að henni sé oft hugsað til baka og hún sé hrygg yfir því að hafa ekki verið skynugri á aðstæður og það andvara- og hugsunarleysi sem hún hafi síðar með árunum áttað sig á að hafi viðgengist þar.
Kristín kveðst aldrei hafa orðið vör við beint ofbeldi en þegar hún hafi verið komin til vits og ára hafi runnið á hana tvær grímur.
„Það sem mér finnst erfitt að horfast í augu við var hið hrikalega afskipta- og sinnuleysi. Starfsmenn komu og fóru, enginn var með yfirsýn, hugað var að líkamlegum þörfum barnanna en þau voru að mestu látin afskiptalaus. Engin örvun eða þjálfun, ekkert samhengi í umönnun þeirra,“ segir Kristín sem kveðst skilgreina slíkt afskiptaleysi og vanrækslu nú sem óbeint ofbeldi.
Hún rifjar upp að hún hafi komið þarna inn í sumarvinnu, rúmlega tvítug, og ekki fengið neina kennslu. Hlutverkið hafi verið að sinna umönnun, líkamlegri umönnun, en henni hafi aldrei verið kynntar sértækar þarfir einstaklinganna.
Hún rifjar upp dæmi um stúlku, sem setið hefur í henni lengi.
„Hún var greinilega mjög einhverf og líka mikið fötluð. Hún sat og reri fram í gráðið alla daga. Svo man ég að ég var á kvöldvakt nokkur skipti og sá um að koma henni í rúmið. Ég slökkti ljósið og þegar ég var að fara fram þá læddist ég áberandi upp að henni og kitlaði hana pínulítið. Hún hló og var pínulítið eins og ungbarn. Þegar ég var búin að endurtaka þetta tvö til þrjú kvöld þá sá ég að hún var byrjuð að engjast um í eftirvæntingu. Þar sá ég að undir fötlun hennar var manneskja og það þurfti ekki meira en svona lítinn endurtekinn leik til að mynda samband. Það var ekkert svoleiðis í gangi. Þetta var stúlka sem gerði ekkert annað allan daginn en að sjúga á sér puttann og róa fram í gráðið allan daginn en það var eitthvað meira þarna. Hún var svo fljót að taka við sér þegar manni datt eitthvað svona í hug.“
Kristín segir að sér hafi liðið vel þarna og að andinn hafi ekki verið slæmur. En eftir því sem hún þroskaðist hafi hún farið að skilja betur og sú tilfinning að hún hefði getað gert betur sé sár. „Ég var þarna í stuttan tíma en maður hugsar hvort maður hefði getað lagt sig meira fram um að vinna með viðkomandi. Í einföldum litlum hlutum. Slíkt situr í mér og hefur gert í langan tíma.“
Þetta er brot úr ítarlegri umfjöllun DV um Kópavogshælið þar sem rætt er við nokkra fyrrverandi starfsmenn og reynt að varpa ljósi á tíðarandann og viðhorfið gagnvart hælinu á árum áður og dregin fram lýsandi dæmi um viðhorf þjóðfélagsins til starfseminnar. Nánar um málið í DV í dag.
Maður heyrði sögur frá því í „gamla daga“
Magnús vann á Kópavogshæli: Inni á milli starfsmenn sem áttu ekkert erindi í starfið