Birkir Bjarnason genginn í raðir Aston Villa
Birkir Bjarnason er búinn að skrifa undir samning við enska félagið Aston Villa. Villa, sem er stórlið í sögulegu samhengi. Birkir hefur undanfarið leikið með svissneksa meistaraliðinu Basel. Aston Villa staðfesti þetta nú í hádeginu.
Birkir er annar Íslendingurinn til að leika með Aston Villa en Jóhannes Karl Guðjónsson lék með liðinu sem lánsmaður árið 2003. „Við í skýjunum yfir því að tilkynna að Aston Villa hefur samið við Birki Bjarnason, sem kemur frá FC Basel,“ segir Aston Villa á Twitter.
Aston Villa má reyndar muna fífil sinn fegurri. Liðið féll úr úrvalsdeildinni í fyrra en fram að því hafði liðið leikið í ensku úrvalsdeildinni frá stofnun hennar. Það er nú níu stigum frá umspilssæti í Championsship-deildinni og er Birki ætlað að hjálpa liðinu að fikra sig upp töfluna. Villa er sjöunda sigursælasta liðið í enska boltanum frá upphafi en titlarnir eru 23 talsins.
Á Facebooksíðu íslenskra stuðningsmanna Aston Villa er gleðin allsráðandi. „Ég hef lítið unnið í gær, hvað þá í dag,“ skrifar einn þeirra en óstaðfestar fregnir um kaupin kvissuðust út í gær. „Ég er eins og lítill krakki, ég er svo spenntur,“ skrifar annar.