Giggs, Nadia Rose og Fatboy Slim á meðal tónlistarmanna
Eitt stærsta nafn breskrar hip hop og grime tónlistar Giggs, nýstirnið Nadia Rose, nýlegir Kraumsverðlaunahafar GKR og Alvia Islandia, rave meistarinn DJ Frímann, íslenska teknó hetjan Exos og breski listamaðurinn og plötusnúðurinn Blawan bætast nú við dagskrá Sónar Reykjavík hátíðarinnar. Þeir tveir síðarnefndu munu í fyrsta sinn troða upp saman undir merkjum Blawan b2b Exos.
Sónar Reykjavík fer fram á fjórum sviðum í Hörpu dagana 16., 17. og 18. febrúar. Á tveimur stærstu sviðunum SonarClub (Silfurberg) og SonarHall (Norðurljósi) koma fram listamenn og hljómsveitir á borð við Fatboy Slim (UK), Moderat (DE), De La Soul (US), Sleigh Bells (US), Tommy Genesis (US) GusGus, Aron Can, Emmsjé Gauti, Glowie og FM Belfast – og nú bætast við Giggs (UK), Nadia Rose (UK), GKR og Alvia Islandia.
Bílastæðakjallara Hörpu verður breytt í næturklúbb á hátíðinni undir merkjum SonarLab. Þar munu koma fram innlendir sem erlendir plötusnúðar á öllum þremur hátíðarkvöldunum, og má þar nefna; Ben Klock (DE), Helena Hauff (DE), B.Traits (UK) – og nú bætast við Blawan (UK) & Exos og DJ Frímann.
Fjórða sviðið SonarLab verður í Kaldalóni og er kynnt af Red Bull Music Academy þar sem fram koma listamenn frá öllum heimshornum, má þar nefna; Sapphire Slows (JP), Pan Daijing (CN), Johan Carøe (DK), JOHN GRVY (ES), Marie Davidson (CA), Vatican Shadow (US), Oddisee (US) og innlendir listamenn á borð við SiGRÚN, Wesen, HRNNR x Smjörvi, Cyber og Örvar Smárason (múm/FM Belfast) sem kemur fram á sínum fyrstu tónleikum sem sóló-listamaður.
Enn eiga mokkrir listamenn eftir að bætast við dagskrá hátíðarinnar, en lokadagskrá Sónar Reykjavík 2017 verður kynnt á næstu vikum.