Hópur fólks sem eru í forsvari fyrir fyrirtæki og rekstur í Dalvíkurbyggð hvetur yfirstjórn Húsasmiðjunnar til að taka til endurskoðunar þá ákvörðun að loka útibúi verslunarinnar á Dalvík, en verslunin hefur þjónað verktökum og íbúum á svæðinu frá Akureyri og út á Siglufjörð. Meðal þeirra sem skrifa undir yfirlýsingu þess efnis eru eru Jökull Bergmann, fjallaleiðsögumaður og framkvæmdastjóri Bergmenn ehf, Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, Róbert Guðfinnsson fjárfestir og Bjarni Theódór Bjarnason sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð.
Segir í yfirlýsingunni að um sé að ræða mikið hagsmunamál fyrir stærstu viðskiptavini Húsasmiðjunnar á Dalvík sem og fagaðila í byggingariðnaði og tengdum störfum. Telur hópurinn að lokun muni hafa afar neikvæð áhrif á rekstur fagaðila í byggingariðnaði og tengdum störfum þar sem mikill tími og fjármunir muni tapast við ferðir til og frá Akureyri.
Greint var frá því á vef Héðinsfjarðar í desember síðastliðnum að Byggðarráð Dalvíkurbyggðar harmi þær fregnir að loka eigi útibúinu á Dalvík og skori fyrirtækið að draga ákvörðunina til baka. Fram kom að verslunin á Dalvík væri eina timburafgreiðslan við utanverðan Eyjafjörð og með lokun hennar verði einungis hægt að versla timbur á Akureyri.
Haukur Arnar Gunnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar á Dalvík og Agnes Anna Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar Kalda eru einnig meðal þeirra sem setja nafn sitt undir yfirlýsinguna en hópurinn telur fyrirséð að frátafir í verkum muni aukast til muna verði útibúinu lokað, þegar ekki verði lengur hægt að bregðast við óvæntum skorti byggingarefnis í heimabyggð. Þá séu ótalin neikvæðu áhrif sem lokunin muni hafa á samfélagið í heild sinni, sem hafi átt í vök að verjast undangengin misseri eins og hinar dreifðu byggðir almennt.
„Ætla má að lokunin muni hafa í för með sér keðjuverkandi áhrif hnignunar verslunar hér í heimabyggð þar sem æ fleiri munu nýta sér ferðir til Akureyrar til annara innkaupa samhliða ferðum í byggingavöruverslanir þar. Hér væri því um um að ræða sjálfkrafa gengisfellingu lífsgæða íbúa við utanverðan Eyjafjörð“
Hópurinn biðlar því næst til yfirstjórnar Húsasmiðjunnar um að hefja viðræður til að koma í veg fyrir lokunina.
„Það er augljóst að ef við tökum okkur öll saman um að styðja betur við rekstur verslunarinnar á Dalvík að þá gætu rekstrarforsendur breyst og leitt til þess að unnt væri að halda starfseminni gangandi.“
Þá bendir hópurinn á samfélagslega ábyrgð íbúa við utanverðan Eyjafjörð en hún sé einnig rík. Þá stingur hópurinn upp á því að Húsasmiðjan, fyrirtækin, sveitarfélögin og fólkið taki höndum saman í samfélagslegu tilraunaverkefni næstu 12 mánuði, þar sem lokun verslunarinnar yrði frestað, en þannig gætu fyrirtæki og íbúar gætu sýnt í verki hversu mikilvægur hlekkur í samfélagi okkar Húsasmiðjan er, með aukinni verslun þar.
„Við erum sannfærð um að slík tilraun myndi ekki einungis hafa í för með sér næga veltuaukningu til að tryggja áframhaldandi líf verslunarinnar á Dalvík um árabil heldur einnig auka veg og virðingu Húsasmiðjunnar sem samfélagslega ábyrgs fyrirtækis um land allt og þannig tryggja fyrirtækinu aukin viðskipti í öðrum smærri bæjarfélögum á landsvísu.“