Segja að afnám tolla á fatnaði og skóm hafa átt að skila 13 prósenta verðlækkun til neytenda
Verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands segir afnám tolla á fatnaði og skóm ekki hafa skilað sér til neytenda. Í tilkynningu frá ASÍ segir að samkvæmt upplýsingum frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafi afnám tolla og skóm í upphafi árs átt að skila 13 prósenta verðlækkun til neytenda.
„Áætlað var að um 60% vara í vöruflokknum bæru toll fyrir breytingarnar. Því má áætla að afnám tolla af fötum og skóm ætti að skila um 7,8% lækkun á fötum og skóm í vísitölu neysluverðs,“ segir einnig í tilkynningunni.
Í línuritinu frá ASÍ má sjá þróun verðlags á fatnað og skó samkvæmt vísitölu neysluverðs frá janúar 2014 fram í apríl 2016. Ef vísitalan í apríl miðað við vísitöluna í byrjun árs, má sjá fjögurra prósenta breytingu. Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins segir það allt of lítið miðað við áætlun þess.
Þá greinir ASÍ frá því að sjá megi á núverandi stöðu vísitölunnar að verslanir hafi hækkað verð aftur eftir útsölur, því minna en gera mátti ráð fyrir. Verðlagseftirlitið segir vísitöluna hafa átt að enda í kringum 100, á sama stað og í janúar 2014. Vísitalan er í kringum 105.
„Til viðbótar við afnám tolla hefur gengi krónunnar styrkst undanfarið, sem hefði átt að ýta undir enn frekari lækkun á fötum og skóm sem eru að mestu leyti innfluttar vörur,“ segir einnig í tilkynningunni. Niðurstaða verðlagseftirlits ASÍ er að verslanir hafi ekki skilað afnámi tolla á fatnaði að fullu.
Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins segist þó halda áfram að fylgjast með þróun verðlags og sjá hvort afnáminu verði skilað til neytenda, að fullu.