fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fréttir

Þessir Íslendingar eru í Panama-skjölunum

Einstaklingar sem hafa gert sig gildandi í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum eru þar á meðal

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 7. apríl 2016 12:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nöfn Róberts Wessmann, Finns Ingólfssonar og Boga Pálssonar eru meðal þeirra sem birtast á lista sem sjást í fréttaskýringaþættinum Uppdrag Granskning sem sýndur var í sænska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi.

Þetta skjal birtist í fréttaskýringaþættinum Uppdrag Grinskning í sænska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. DV hafði samband við fjölmarga aðila á listanum.
Skjalið Þetta skjal birtist í fréttaskýringaþættinum Uppdrag Grinskning í sænska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. DV hafði samband við fjölmarga aðila á listanum.

Nafntogaðir einstaklingar í íslensku viðskiptalífi

Í þættinum er fjallað um Panama-skjölin og tenginguna við Sigmund Davíð Gunnlaugsson og aðra íslenska stjórnmálamenn. Á einum tímapunkti í þættinum birtist svipmynd af skjali sem á eru nöfn fjölmargra nafntogaðra einstaklinga úr íslensku viðskiptalífi. Tekið skal fram að ekki var fjallað sérstaklega um nöfnin á umræddum lista í þættinum og DV hefur ekki upplýsingar um að nöfn allra sem þar eru tengist aflandsfélögum í skattaskjólum þó draga megi þá ályktun. DV hafði samband við fjölmarga á listanum en tekið skal fram að hann er ekki tæmandi.

„Ekki lengur til“

Í samtali við DV kveðst Finnur Ingólfsson, sem er fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins, hafa átt aflandsfélag en hann eigi umrætt félag ekki lengur. Eftir að pólitískum ferli Finns lauk gerði hann sig gildandi í íslensku viðskiptalífi og var hluti af S-hópnum sem keypti Búnaðarbankann. Þá var hann forstjóri VÍS um tíma.

Er fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins. Finnur segir að hann eigi ekki lengur félagið á listanum og aldrei hafi verið neinar tekjur í félaginu.
Finnur Ingólfsson Er fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins. Finnur segir að hann eigi ekki lengur félagið á listanum og aldrei hafi verið neinar tekjur í félaginu.

„Ég á ekkert fyrirtæki þar núna,“ sagði Finnur þegar hann var spurður um félagið í Landsbankanum í Lúxemborg. Hann bætti við að umrætt félag á listanum hafi hann átt með Helga S. Guðmundssyni, fyrrverandi formanni bankaráðs Landsbankans. Finnur segir að félagið hafi verið stofnað árið 2007 í gegnum Landsbankann í Lúxemborg sem fyrr segir. „Í því voru aldrei neinar tekjur, heldur var því félagi lokað árið 2010, þannig það er ekki lengur til,“ segir Finnur og bætir við að reksturinn hafi verið í höndum Landsbankans í Lúxemborg. Helgi lést árið 2013 en þeir Finnur voru viðskiptafélagar til margra ára.

„Ég á ekkert fyrirtæki þar núna“

Fyrrum CIA-maður á listanum

Meðal annarra nafna sem eru á listanum er Bogi Pálsson, bróðir Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs, en eins og frægt er orðið voru nöfn þeirra í Panama-skjölunum. Bogi er fjárfestir og fyrrverandi forstjóri og eigandi Toyota. Bogi var á sínum tíma einn stærsti hluthafi Exista, stærsta hluthafa Kaupþings, fyrir hrunið 2008. Ekki náðist í Boga við vinnslu fréttarinnar.

Í samtali við DV segir Halldór Kristmannsson, talsmaður Alvogen, sem Róbert Wessmann er forstjóri hjá, að félag Róberts, Aceway, hafi verið skráð í Panama. „Róbert Wessman hefur ávallt tilkynnt um eign sína í Aceway til skattyfirvalda á Íslandi og tekjur félagsins hafa verið skattlagðar sem launatekjur hans en ekki sem fjármagnstekjur hér á landi, jafnvel þó skráning þess væri erlendis,“ segir Halldór. Róbert stofnaði félagið í samstarfi við Landsbankann í Lúxemborg og var félagið sem fyrr segir skráð í Panama. Tilgangur félagsins var að halda utan um eign Róberts í lyfjafyrirtækinu Actacis. Var uppsetning félagsins samkvæmt ráðgjöf Landsbankans á þeim tíma.

Þá er Loftur Jóhannesson, íslenskur fyrrverandi starfsmaður CIA á listanum, en DV fjallaði um hann í gær. Þá skal tekið fram að nafn Eggerts Skúlasonar, ritstjóra DV, er að finna á umræddum lista.

Nafn Eggerts Skúlasonar, ritstjóra DV, er að finna á listanum. „Það vekur hins vegar athygli mína að í þessu skjali er ég tengdur við félag sem ég átti ekki. Það vekur upp spurningar,“ segir hann.
Ritstjóri DV Nafn Eggerts Skúlasonar, ritstjóra DV, er að finna á listanum. „Það vekur hins vegar athygli mína að í þessu skjali er ég tengdur við félag sem ég átti ekki. Það vekur upp spurningar,“ segir hann.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég vitna í yfirlýsingu mína frá því í maí í fyrra, þar sem ég opinberaði þetta. Það vekur hins vegar athygli mína að í þessu skjali er ég tengdur við félag sem ég átti ekki. Það vekur upp spurningar. Ég greiddi skatta og skyldur af tekjum og málið hefur verið full rannsakað af þar til bærum yfirvöldum,“ segir Eggert í samtali við blaðamann. Yfirlýsingin sem Eggert vitnar til birtist á Pressunni þann 7. maí í fyrra í kjölfar fréttar sem Stundin birti. Þar sagði Eggert:

„Í ársbyrjun 2011 hóf skattrannsóknarstjóri rannsókn á skattskilum mínum frá árinu 2005. Ég hafði greitt mér arð úr félögum erlendis frá á árunum 2006 til 2008. Nam upphæðin samtals um sjö milljónum króna. Ég gerði grein fyrir þessum arðgreiðslum á skattframtali mínu og greiddi fjármagnstekjuskatt af arðgreiðslunum.“
Eggert bætti við að skattrannsóknarstjóri hefði talið að um launagreiðslur væri að ræða, og í kjölfarið kært málið til embættis sérstaks saksóknara. Eggert hafði stöðu sakbornings frá árinu 2012 til 2014, en þá var málið fellt niður.

Sindri átti aflandsfélag

Einnig er að finna á umræddum lista sem birtist í gær Sindra Sindrason, fyrrverandi stjórnarformann Eimskips og fyrrverandi forstjóra Pharmaco, og Sigþór Sigmarsson, stjórnarmann í Novator. Sigþór vildi ekkert tjá sig um málið þegar DV náði tali af honum. „Ég hef ekkert um málið að segja.“

Í samtali við DV.is kveðst Sindri kannast við að hafa átt fyrirtæki sem skráð var í gegnum Landsbankann í Lúxemborg, sem var skráð á aflandseyjum. „Þetta eru gamlar fréttir og ekkert meira um það að segja,“ segir Sindri.

Ekkert óeðlilegt

Á listanum í þætti Uppdrag Granskning var einnig að finna nafn Magnúsar Stephensen, fyrrverandi stjórnarmanns í XL Leisure Group. Hann virðist hafa verið skráður fyrir félagi ásamt Hafþóri Hafsteinssyni, einum helsta forystumanni íslenskra flugmála á síðari árum. Hafþór lést í flugslysi árið 2009. Í samtali við DV kveðst Magnús vinna í flugiðnaði. „Það er ákaflega algengt að settir séu upp strúktúrar við kaup og sölu á flugvélum,“ sagði Hafsteinn og bætti við að ekkert óeðlilegt væri við umrætt félag. Félagið tengist honum ekki beint heldur hafi hann starfað fyrir það og með því. „Það getur vel verið að nafnið mitt komi einhversstaðar upp,“ segir hann.

„Maður átti aldrei pening til að leggja inná reikninginn“

„Átti aldrei pening til að leggja inn á reikninginn“

Kristján S. Thorarensen er einnig á listanum, en Kristján var eigandi TM húsgagna og er núverandi eigandi Heimahússins. Í samtali við DV segir Kristján að það komi honum ekki á óvart að nafn hans komi upp í tengslum við málið. Hann hafi átt fyrirtæki og húsnæði með hjónum sem hefðu talið heppilegt að stofna aflandsfélag. Svo fór að Landsbankinn í Lúxemborg sá um það. „Maður átti aldrei pening til að leggja inná reikninginn. Svo það kemur mér ekki á óvart að nafnið mitt hafi komið upp, en ef vel er gáð hefur aldrei króna komið inná reikninginn,“ segir Kristján.

Tortóla-félag um höfuðstöðvar ÍE

Á listanum er einnig nafn Jóhanns Halldórssonar, en DV greindi frá því árið 2010 að höfuðstöðvar erfðatæknifyrirtækisins Íslenskrar erfðagreiningar við Sturlugötu 8 væri í eigu eignarhaldsfélags á Tortóla, Tenco Holding Services SA. Jóhann var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri S-8 ehf., en félagið var í eigu Tenco. Ekki náðist í Jóhann við vinnslu fréttarinnar.

Sem fyrr segir var þáttur Uppdrag Granskning sýndur í gærkvöldi í sænska ríkissjónvarpinu og birtist umræddur listi í örskotsstund í þættinum. Þátturinn fjallar um þennan stærsta gagnaleka sögunnar, Panama-skjölin, sem hafa verið fyrirferðamikil í umræðunni að undanförnu. Þátturinn verður á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20.55.

Frétt uppfærð:
Jóhannes Kr. Kristjánsson, stofnandi Reykjavík Media, sem unnið hefur með umrædd gögn, segir á Facebook-síðu sinni þarna birtist punktar sem unnið hafi verið með á tímabili. Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Reykjavík Media, segist telja að listinn hafi verið birtur fyrir mistök í sænska sjónvarpsþættinum. Þetta segir Aðalsteinn á Vísi. Þá sé ekki staðfest að öll nöfnin sem þar komi fram séu að finna í gögnunum sem lekið var. Aðalsteinn sagði þetta óheppilegt en ekkert við þessu að gera. Næstu skref verði að halda áfram að vinna úr gögnunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn
Fréttir
Í gær

Armando biður um hjálp – Hefur þú séð þennan bíl?

Armando biður um hjálp – Hefur þú séð þennan bíl?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leita að ungum Íslendingi sem er grunaður í mannshvarfsmáli á Spáni – Mætti ekki fyrir dómara í desember

Leita að ungum Íslendingi sem er grunaður í mannshvarfsmáli á Spáni – Mætti ekki fyrir dómara í desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þóra Kristín náði varla að þakka hetjunni á Ægisíðunni – „Hann mokaði og ýtti og linnti ekki látum fyrr en það tókst“

Þóra Kristín náði varla að þakka hetjunni á Ægisíðunni – „Hann mokaði og ýtti og linnti ekki látum fyrr en það tókst“