Loftur Jóhannesson er 85 ára – Tengist aflandsfélögum á Bresku Jómfrúreyjunum
Loftur Jóhannesson, 85 ára íslenskur auðkýfingur, búsettur í Bandaríkjunum, er nefndur á nafn í Panama-skjölunum svokölluðu. Loftur er fyrrverandi flugmaður, flugvélasali og kaupsýslumaður sem nokkuð var fjallað um í íslenskum og erlendum fjölmiðlum seint á níunda og snemma á tíunda áratug liðinnar aldar.
Eyjan greindi fyrst frá þessu.
Sunday Times greindi frá því í janúar árið 1987 að Loftur hefði selt stjórnarher Saddams Hussein tólf sovéska T-72 skriðdreka fyrir tæplega tvo milljarða íslenskra króna á þáverandi gengi. Gera má ráð fyrir því að sú upphæð sé í kringum sjö milljarðar á núverandi gengi.
Loftur var sagður hafa hagnast mikið á Bíafrastríðinu í Nígeríu árin 1967-1970 er hann stofnað fraktflugfélag. Upp frá því stundaði hann alþjóðleg viðskipti með flugvélar og vopn. Helgarpósturinn greindi frá því árið 1994 að Loftur hafi um tíma átt í miklu samskiptum við CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna, sem og Stasi, leyniþjónustu Austur-Þýskalands. Þar var hann sagður meðal auðugustu Íslendinga og búa á þremur stöðum: London, Maryland í Bandaríkjunum og vínekrubúgarði í Frakklandi sem kona hans erfði.
Í umfjöllun ICIJ, samtaka alþjóðlegra rannsóknarblaðamanna, sem hafa unnið úr skjölunum, kemur fram að Loftur sé einnig talinn hafa starfað með CIA við að senda vopn til Afganistans á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Vopnin voru ætluð hópum sem berjast gegn kommúnistum.
Að því er fram kemur í umfjöllun ICIJ, sem Eyjan vitnar til, kemur fram að Loftur virðist hafa keypt sér sumarhús á Barbados og fyrrnefndar vínbúgarð í Frakklandi fyrir launin frá CIA. Í umfjöllun Helgarpóstsins kom þó fram að eiginkona hans hefði erft búgarðinn.
Loftur er sagður hafa greitt Mossack Fonseca mörg þúsund dollara á síðasta ári fyrir þjónustu við að leyna fjármunum hans. Nafn hans er fyrst sagt hafa birst í skjölum Mossack Fonseca í september 2002, en þá var hann löngu hættur að starfa hjá CIA. Hann er sagður hafa tengst að minnsta kosti fjórum aflandsfélögum á Bresku Jómfrúareyjunum og Panama en þau tengdust dýrum fasteignum. Þar á meðal einni á bak við Westminster-dómkirkjuna í Lundúnum og annarri við strönd á Barbados en svipaðar fasteignir þar eru sagðar seljast á 35 milljónir dollara nú.