Hefur stýrt stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims frá því 2014 – Teva er með yfir 600 starfsmenn á Íslandi
Sigurður Óli Ólafsson, sem hefur verið forstjóri samheitalyfjasviðs Teva Pharmacuetical Industries frá því um mitt ár 2014, hefur hætt störfum hjá fyrirtækinu. Fram kom í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í fyrradag að Sigurður Óli myndi formlega láta af störfum á fyrsta fjórðungi næsta árs. Félagið tilgreindi ekki sérstaklega af hverju hann væri að hætta en hlutabréf Teva hafa lækkað í verði um meira en 5 prósent í Kauphöllinni í New York eftir að tilkynnt var um brotthvarf Sigurðar Óla.
Dipankar Bhattacharjee, forstjóri og stjórnarformaður Teva Generics Europe, mun taka við starfi Sigurðar Óla.
Teva, sem var stofnað í Ísrael árið 1901 og er með höfuðstöðvar í Jerúsalem, er stærsta lyfjafyrirtæki í heimi á sviði samheitalyfja. Heildarvelta fyrirtækisins er um tuttugu milljarðar Bandaríkjadala á ári, sem jafngildir landsframleiðslu Íslands.
Rúmlega eitt ár er liðið síðan tilkynnt var um kaup Teva á samheitalyfjahluta Allergan, sem áður hét Actavis, á 40,5 milljarða Bandaríkjadala. Þetta var í annað sinn sem Sigurður Óli kom að kaupum á Actavis en hann var jafnframt einn af lykilstjórnendum Watson Pharmaceuticals þegar fyrirtækið keypti Actavis árið 2012. Þremur árum síðar var tilkynnt að Actavis hefði tekið upp nafnið Allergan.
Í júní í fyrra var greint frá því að lyfjaverksmiðja Actavis á Íslandi, sem nú er í eigu Teva, yrði lokað en samtals er Teva með um 670 starfsmenn á Íslandi. Þar af starfa um 270 í lyfjaverksmiðjunni en 400 manns í öðrum störfum.
Sigurður Óli var forstjóri Actavis á árunum 2008 til 2010. Áður gegndi hann margvíslegum stjórnunarstörfum hjá fyrirtækinu frá árinu 2003, meðal annars sem aðstoðarforstjóri. Eftir að hafa starfað hjá Actavis um árabil var hann ráðinn yfirmaður samheitalyfjasviðs Watson í Bandaríkjunum árið 2010. Fjórum árum síðar flutti Sigurður Óli sig um set og tók við sem forstjóri samheitalyfjasviðs Teva.