Þrjátíu einstaklingar hlutu dauðadóm í Bandaríkjunum á árinu sem er veruleg fækkun frá árinu í fyrra þegar 49 einstaklingar hlutu slíkan dóm fyrir bandarískum dómstólum. Leita þarf aftur til áttunda áratugarins til að finna færri dauðadóma.
Fyrir tuttugu árum, árið 1996, voru 315 einstaklingar dæmdir til dauða fyrir bandarískum dómstólum. Þetta er samkvæmt tölum sem Death Penalty Information Center í Bandaríkjunum taka saman, en samtökin eru mótfallin og berjast gegn dauðarefsingum.
„Ég held að við séum að verða vitni að mjög umfangsmikilli viðhorfsbreytingu til dauðadóma,“ segir Robert Dunham, framkvæmdastjóri samtakanna.
Fjöldi þeirra sem teknir voru af lífi á árinu er einnig í lágmarki í sögulegu tilliti. Tuttugu fangar voru teknir af lífi á árinu og hafa þeir ekki verið færri síðan árið 1991 að þeir voru fjórtán. Dauðarefsingar eru löglegar í 31 ríki en þrátt fyrir það framkvæmdu aðeins fimm ríki dauðarefsingar; Georgia (níu), Texas (sjö), Alabama (tvær), Missouri (eina) og Flórída (eina).
Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Pew Research Center styður um helmingur Bandaríkjamanna dauðarefsingar sem er það minnsta í aldarfjórðung. Til samanburðar studdu 80 prósent Bandaríkjamanna dauðarefsingar um miðjan tíunda áratug liðinnar aldar.