– Styrmir Barkarson stofnaði samtökin Lítil hjörtu og vill að allir fái gjafir í skóinn og undir jólatré
„Við erum á fullu núna og erum búin að afhenda mörg hundruð gjafir og erum einnig að fara að gefa á vinajól hjá Hjálpræðishernum þar sem verður fullt af börnum,“ segir Styrmir Barkarson, grunnskólakennari og námsmaður í Svíþjóð, sem hefur síðustu fjögur ár staðið fyrir söfnunum á jólagjöfum handa börnum í efnalitlum fjölskyldum.
Styrmir stofnaði nýverið samtökin Lítil hjörtu utan um framtakið en ákveðið atvik á aðventunni 2012 varð kveikjan að því. Jólasveinarnir höfðu þá ítrekað gleymt lítilli stúlku sem þá var nemandi Styrmis við Holtaskóla í Reykjanesbæ og skildi hún ekkert í því af hverju skórinn hennar var alltaf tómur.
„Ég sá þörfina með eigin augum. Ég er búinn að vera kennari þetta lengi og sá þegar jólin koma að það voru alltaf sömu krakkarnir sem voru ekki í hlýjum fötum eða áttu ekki liti til að föndra. Það hlakka ekki allir krakkar jafn mikið til jólanna. Ég ákvað að gera eitthvað í þessu því ég hef alveg óbilandi trú á náunganum og krafti kærleikans og er viss um að ef maður er nógu kærleiksfullur þá smiti það út frá sér,“ segir Styrmir í samtali við DV.
Að sögn Styrmis keypti hann svo á annað þúsund gjafir árin tvö á eftir og fóru þær bæði í skó og undir jólatré. Þá gaf hann einnig eitt hundrað börnum páskaegg um páskahátíðina.
„Í undantekningartilfellum kemur fólk með gjafir en ég er að samstilla krafta úr ólíkum áttum. Ég fæ fjárframlög frá fólki og fyrirtækjum og svo eru fyrirtæki, stórverslanir og leikfangainnflytjendur sem leyfa mér að versla hjá þeim á mjög góðum kjörum. Þannig get ég gert mikið úr söfnunarfénu og svo er ég í samstarfi við hjálparstofnanir því ég ætla ekki að láta fólk sem er í vandræðum leggja þau á borð fyrir mig og þá enn annan aðila. Ég er í samstarfi við velferðarsjóð Suðurnesja og á meðal skjólstæðinga þess eru á annað hundrað börn. Svo kaupi ég gjafir með þau í huga en velferðarsjóðurinn sér um að dreifa þessu,“ segir Styrmir sem hefur búið í Lundi í Svíþjóð í eitt og hálft ár þar sem hann kennir íslenskum börnum móðurmálið.
Það hlakka ekki allir krakkar jafn mikið til jólanna.
„Nú þegar búið er að stofna samtök í kringum þetta þá er þetta orðið að heilsársverkefni og hægt verður að safna í sjóð. Þó að ég sé sjálfur í Svíþjóð, en þó á leiðinni heim fyrir jól, slær hjarta mitt enn fyrir börnin heima svo ég er hvergi nærri hættur og nýt aðstoðar móður minnar sem hefur verið á þönum í aðventunni að sækja og afhenda gjafir meðan ég fæ fólk til að leggja sitt af mörkum.“