Ekki liggur enn fyrir hvort Landsbankinn byggir við Austurhöfn – Óvissuþáttur fyrir fjárfesta
Bankaráð Landsbankans hefur ekki enn ákveðið hvort og þá hvenær nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins verða byggðar við Austurhöfn í Reykjavík. Tvö og hálft ár er liðið síðan bankinn keypti lóð sína þar á tæpan milljarð króna en hönnun byggingarinnar er ekki hafin. Fjárfestar sem koma að öðrum byggingaframkvæmdum við Hörpu óttast að seinagangur Landsbankans geti stefnt uppbyggingu þar í hættu. Lóð bankans sé stærsti óvissuþátturinn í fjárfestingum þeirra og því hafi þeir meðal annars leitað til borgaryfirvalda og óskað eftir aðkomu þeirra að málinu.
„Bankinn frestaði á sínum tíma hönnunarsamkeppni til að fara yfir þau sjónarmið sem fram höfðu komið, meðal annars um staðarval. Sú vinna stendur enn yfir. Ekki hefur verið tekin ákvörðun í málinu,“ segir Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, í skriflegu svari við fyrirspurn DV.
Landsbankinn keypti lóðina við Austurhöfn af Sítus ehf., dótturfélagi Reykjavíkurborgar og ríkisins, á 957 milljónir króna í maí 2014. Stjórnendur bankans viðruðu í kjölfarið þá hugmynd að nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins yrðu byggðar á lóðinni og var hún gagnrýnd af ýmsum stjórnarþingmönnum og þáverandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Í byrjun júlí 2015 tilkynnti bankinn um ákvörðun sína um að ráðast í framkvæmdina sem átti þá að hefjast í lok þessa árs eða byrjun 2017. Heildarfjárfesting með lóðarverði átti að nema átta milljörðum króna og byggingin að vera um 16.500 fermetrar. Kom þá fram að bankaráð Landsbankans hefði fjallað um valkosti fyrir nýjar höfuðstöðvar allt frá árinu 2010 og að hagkvæmast væri að byggja við Hörpu.
Ákvörðun bankans var harðlega gagnrýnd og í ágúst í fyrra var hönnunarsamkeppni um bygginguna frestað. Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sagði þá að bregðast þyrfti við gagnrýni frá háttsettum stjórnmálamönnum og að til greina kæmi að hætta við bygginguna. Hönnunarsamkeppnin er enn ekki hafin og stjórnendur bankans hafa ekki tjáð sig um málið opinberlega síðan í apríl. Tryggvi Pálsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans, sagði þá í ræðu sinni á aðalfundi bankans að ráðið væri enn á þeirri skoðun að flytja ætti starfsemina í nýja byggingu við Austurhöfn. Áður en næstu skref yrðu tekin þyrfti hins vegar að liggja fyrir að langstærsti eigandi bankans, íslenska ríkið, setti sig ekki upp á móti slíkum áformum. Endurskoðaðir útreikningar bankans sýndu að spara mætti hundruð milljóna á ári með flutningi í nýja byggingu.
Helga Björk Eiríksdóttir var kjörin formaður bankaráðs Landsbankans í apríl. Í skriflegri fyrirspurn DV til hennar óskaði blaðið eftir upplýsingum um hvort ráðið hafi komist að niðurstöðu í málinu og hvort það hefði tekið það fyrir síðan sjö aðalmenn ráðsins voru kjörnir í vor.
„Þetta mál hefur verið rætt á fundum bankaráðs og er til skoðunar innan bankans,“ segir Helga í svarinu.
Jarðvinna vegna fimm stjörnu lúxushótelsins Marriott Edition hófst í sumar en það á að opna í lok 2018. Eins og DV fjallaði um var verkefnið fullfjármagnað í byrjun október með þátttöku innlendra og erlendra fjárfesta. Bandaríska fasteignafélagið Carpenter & Company er hluthafi í verkefninu en einnig fjárfestarnir Finnur Reyr Stefánsson, Hjörleifur Þór Jakobsson, Eggert Dagbjartsson, Hreggviður Jónsson og fleiri. Þá eru nokkrir lífeyrissjóðir hluthafar í verkefninu. Þeir Eggert og Hreggviður eiga að auki 80 prósent í félaginu Kolufell ehf. sem ætlar að byggja íbúða- og verslunarhúsnæði á þriðju lóðinni á Austurhafnarreitnum. Þeir keyptu sig inn í félagið í júlí og kom þá fram að framkvæmdir við íbúðar- og verslunarhúsnæði þar væru hafnar. Verktakafyrirtækið ÞG Verk á byggingarreitinn Hafnartorg á gamla bílastæðinu við Tollhúsið. Byggingar á þeim reit eiga að tengjast Austurhafnarhlutanum með göngugötu og sameiginlegum bílastæðakjallara. Fasteignafélagið Reginn hefur keypt verslunarhúsnæði á reitnum þar sem meðal annars stendur til að opna fataverslun H&M.
Þeir hagsmunaaðilar á svæðinu sem DV ræddi við, og vildu ekki láta nafns síns getið, hafa áhyggjur af því hversu hægt Landsbankanum miðar í átt að ákvörðun um nýjar höfuðstöðvar. Óttast þeir að ekkert muni gerast á lóðinni á næstu mánuðum og jafnvel árum. Benda þeir á að erfitt verði að reka lúxushótel á meðan aðrar framkvæmdir á reitnum standi yfir. Einnig verði stór bílastæðakjallari undir byggingunum við Austurhöfn og á Hafnartorgi sem Landsbankinn þyrfti að taka þátt í. Svo geti farið að hann verði byggður án aðkomu bankans. Ekki sé hægt að byggja slíkan kjallara undir byggingu sem ekki sé búið að hanna. Að auki þurfi Landsbankinn, eins og aðrir lóðareigendur á svæðinu, að tryggja að jarðhæð byggingarinnar verði skipulögð sem verslunarhúsnæði. Hafnartorgið og byggingar við Austurhöfn muni státa af fjórtán þúsund fermetra verslunarplássi og framkvæmdaaðilar þurfi í vissum tilvikum að byggja ákvarðanir sínar á fyriráætlunum nágranna sinna.
Haraldur Flosi Tryggvason, lögmaður Carpenter & Company á Íslandi, bendir aftur á móti á að þær framkvæmdir á reitnum sem ekki tengjast Landsbankanum hafi einnig tafist. Stutt sé síðan fjármögnun hótelsins lauk.
„Eftir því sem verkefnið þróast lengra þá fer að verða æskilegra að þessu sé lokað. Það eru miklir hagsmunir bundnir við það, bæði í sameiginlegri byggingu bílastæða og síðan mótun götumyndarinnar. Þetta hefur í gegnum tíðina verið rætt við borgaryfirvöld og auðvitað hafa menn fullan skilning á því að framkvæmdahraði er misjafn. Eins og það horfir við öðrum lóðarhöfum þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um framkvæmdir hjá Landsbankanum,“ segir Haraldur Flosi. DV óskaði eftir viðtali við Dag B. Eggertsson borgarstjóra sem hann sá sér ekki fært að veita.