Stjórn Glitnis áformar að greiða Steinunni og Páli 5,3 milljónir evra – 8 milljarða skaðleysissjóður lagður niður – Fá 10 milljóna evra tryggingu í staðinn
Stjórn eignarhaldsfélagsins Glitnis HoldCo áformar að inna af hendi eingreiðslu upp á samtals 5,3 milljónir evra, jafnvirði um 630 milljóna íslenskra króna, til Steinunnar Guðbjartsdóttur og Páls Eiríkssonar, en þau skipuðu slitastjórn Glitnis allt þar til slitabúið lauk nauðasamningum í árslok 2015.
Greiðslan er hluti af samkomulagi Glitnis við Steinunni og Pál um að sérstakur sjóður að jafnvirði átta milljarða króna, sem var settur á fót fyrir um ári og átti að tryggja skaðleysi þeirra gagnvart mögulegum málsóknum kröfuhafa til ársins 2025, verði lagður niður og fjármunirnir þess í stað greiddir að stærstum hluta út til núverandi hluthafa félagsins. Auk þess að fá greiðslu í peningum, sem nemur að óbreyttu um 315 milljónum króna á mann, þá mun Glitnir jafnframt sjá um að útvega Steinunni og Páli tíu milljóna evra tryggingu sem gildir til næstu tíu ára. Sú trygging á að standa straum af ýmsum kostnaði sem gæti að öðrum kosti fallið á þau, með sambærilegum hætti og skaðleysissjóðurinn hefði gert, vegna hugsanlegra málshöfðana í tengslum við fyrri ákvarðanir og störf slitastjórnar Glitnis.
Á sérstökum hluthafafundi sem hefur verið boðaður 19. desember næstkomandi munu hluthafar Glitnis greiða atkvæði um tillögu stjórnar Glitnis að fyrirhuguðu samkomulagi við fyrrverandi slitastjórn bankans. Fastlega er gert ráð fyrir því að mikill meirihluti hluthafa félagsins muni greiða atkvæði með tillögunni enda hafa þeir hagsmuni af því að fá úthlutað til sín mun fyrr en ella þeim fjármunum sem hingað til hafa verið lagðir til hliðar í skaðleysissjóðinn. Samkvæmt hinu nýja samkomulagi stjórnar Glitnis við Steinunni og Pál, sem DV hefur undir höndum, kemur meðal annars fram að verði það samþykkt þá sé í kjölfarið hægt að greiða út 58 milljónir evra til hluthafa. Höfuðstóll skaðleysissjóðsins er núna 68 milljónir evra – sú fjárhæð jafngilti einu prósenti af heildareignum slitabúsins fyrir nauðasamning – en vegna núverandi vaxtaumhverfis í Bandaríkjunum og Evrópu hafa þeir fjármunir verið ávaxtaðir á neikvæðum vöxtum.
Þá gerir samkomulagið við Steinunni og Pál sömuleiðis ráð fyrir því að Glitnir muni veita þeim skaðleysisábyrgð sem fellur úr gildi 11. janúar árið 2020. Sú skaðleysisábyrgð er hins vegar að hámarki 3,53 milljónir evra, jafnvirði um 420 milljóna króna, og aðeins verður hægt að ganga á hana eftir að fyrrverandi meðlimir slitastjórnar hafa nýtt að fullu tíu milljóna evra trygginguna sem Glitnir mun útvega þeim. Ef engar málsóknir verða höfðaðar gegn Steinunni og Páli á næstu þremur árum þá munu þau fá til viðbótar 590 þúsund evra eingreiðslu, eða sem nemur um 70 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi, eftir að skaðleysisábyrgð Glitnis rennur úr gildi í ársbyrjun 2020.
Þrátt fyrir að Steinunn og Páll fái greidda verulega fjármuni í sinn hlut, auk þess að vera úthlutað sérstakri tryggingu til tíu ára, þá er rétt að geta þess að með samkomulaginu munu þau samþykkja að taka á sig stóran hluta af þeirri áhættu sem fylgir mögulegum málsóknum á næstu árum. Í dag liggur sú fjárhagslega áhætta nánast alfarið á herðum hluthafa Glitnis. Þannig er skemmst að minnast þess gríðarlega kostnaðar sem Kaupþing þurfti að standa straum af vegna skaðabótakröfu sem breski kaupsýslumaðurinn Vincent Tchenguiz höfðaði á hendur Jóhannesi Rúnari Jóhannessyni, fyrrverandi formanni slitastjórnar Kaupþings, í lok árs 2014. Breskir dómstólar vísuðu málinu frá fyrr á þessu ári og þurfti Tchenguiz að greiða Jóhannesi Rúnari 310 milljónir króna vegna málskostnaðar.
Tímagjald slitastjórnar Glitnis var hækkað verulega í byrjun 2015, sem var síðasta starfsár hennar, og nam þá 390 evrum, jafnvirði um 60 þúsunda íslenskra króna á þáverandi gengi. Tímagjald Steinunnar og Páls, eins og greint var frá í umfjöllun DV um miðjan septembermánuð 2015, hafði áður verið 35 þúsund krónur. Þegar slitameðferð búsins hófst snemma árs 2009 nam tímagjaldið hins vegar sextán þúsund krónum.
Í samtali við DV á þeim tíma sem frétt blaðsins birtist nefndi Steinunn að í samanburði við helstu ráðgjafa kröfuhafa slitabúsins séu þóknanir til handa slitastjórninni ekki háar. Þannig væri tímagjaldið aðeins um þriðjungur af því sem erlendir ráðgjafar kröfuhafa Glitnis rukka á tímann. Þá væru helstu innlendu ráðgjafarnir að sama skapi að fá hærri þóknun á útselda vinnustund vegna starfa fyrir erlenda kröfuhafa en slitastjórn Glitnis.
Samtals námu þóknanagreiðslur til slitastjórnar Glitnis 381 milljón króna á árinu 2015, samkvæmt ársreikningi Glitnis. Greiðslur til slitastjórnarinnar tvöfölduðust á milli ára en samtals námu þær 190 milljónum 2014. Að því gefnu að greiðslurnar hafi skipst jafnt á milli Steinunnar og Páls þá hafa þau fengið hvort fyrir sig tæplega sextán milljónir í þóknun á mánuði á árinu 2015.
DV upplýsti fyrst um að til stæði að koma á fót sérstökum skaðleysissjóði til handa slitastjórn Glitnis þann 1. september 2015. Í samtali við blaðið á þeim tíma útilokaði Steinunn ekki að slitastjórnin myndi segja sig frá störfum ef kröfuhafar myndu ekki fallast á slíka tryggingu fyrir skaðleysi þeirra. Til þess kom hins vegar aldrei enda samþykktu kröfuhafar nánast samhljóða slíkan skaðleysissjóð á kröfuhafafundi skömmu síðar.
Steinunn benti einnig á að slíkt skaðleysi til handa meðlimum slitastjórnarinnar vegna starfa við slitameðferðina væri í samræmi við það sem tíðkast í flestum öðrum löndum. Í ljósi þess fordæmalausa umfangs og flækjustigs sem leiðir af uppgjöri Glitnis þá sagði hún að það væri „fullkomlega óeðlilegt að setja einstaklinga í þá stöðu“ að eiga hættu á að ósáttir kröfuhafar – eða þriðji aðili – geri kröfur á hendur þeim persónulega. „Við verðum að hafa í huga að kröfuhafar Glitnis eru skráðir í 52 löndum og lögsögum.“
Slitabú Glitnis lauk nauðasamningum sem fyrr segir í desember 2015 í kjölfar þess að kröfuhafar bankans samþykktu að inna af hendi stöðugleikaframlag til íslenskra stjórnvalda að fjárhæð um 240 milljarða króna miðað við bókfært virði eignanna á þeim tíma. Þar munaði mestu um 95 prósenta eignarhlut í Íslandsbanka. Stærstu kröfuhafar Glitnis við samþykkt nauðasamninga voru vogunarsjóðirnir Solus Alternative Asset Management, Davidson Kempner og Silver Point. Í dag er Glitnir eignarhaldsfélag, stýrt af þriggja manna stjórn, og er félagið á góðri leið með umbreyta öllum óseldum eignum í lausafé og greiða út til hluthafa. Samkvæmt nýjasta árshlutareikningi Glitnis námu eignir félagsins um 343 milljónum evra, jafnvirði 40 milljarða króna, í lok september á þessu ári. Helmingur þeirra eigna var í formi reiðufjár og bundinna bankainnstæðna.