Forstjóri Mjólkursamsölunnar situr í stjórn Samtaka verslunar og þjónustu – Hafa gagnrýnt MS harðlega og búvörulögin
Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS), situr í stjórn Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) sem hafa barist fyrir afnámi innflutningstolla á landbúnaðarvörur og ítrekað dregið upp mynd af MS sem ríkisvernduðu einokunarfyrirtæki. Samtökin hafa talað fyrir afnámi þess hluta búvörulaga sem undanþiggur mjólkuriðnaðinn ákvæðum samkeppnislaga en forstjóri MS aftur á móti beitt sér gegn því að tollfrelsi verði aukið og lögin endurskoðuð frá grunni. SVÞ hafa einnig gagnrýnt MS við ýmis önnur tækifæri þrátt fyrir að fyrirtækið sé félagi í samtökunum.
Af samtölum blaðamanns við forsvarsmenn fyrirtækja innan SVÞ er ljóst að sumum þykir „óheppilegt“ eða „rangt“ að forstjóri MS taki þátt í að móta stefnu samtakanna og komi að veigamiklum ákvörðunum. Þeir benda á að stefna SVÞ um aukið frelsi í viðskiptum stangist oft á við hagsmuni MS. Aðrir félagsmenn sem DV ræddi við eru ekki mótfallnir því að Ari sinni stjórnarmennsku samhliða forstjórastarfinu og fagna því að skiptar skoðanir séu innan stjórnarinnar. Benda þeir á að Ari þurfi að endurnýja umboð sitt á aðalfundi samtakanna í mars á næsta ári – í fyrsta sinn sem forstjóri MS.
Ari var upphaflega kosinn í stjórn SVÞ í apríl 2014 þegar hann var forstjóri 365 miðla. Tæpu ári síðar var hann endurkjörinn til tveggja ára en á þeim tíma var hann hættur hjá fjölmiðlafyrirtækinu og starfaði sjálfstætt. Í maí 2015 var Ari svo ráðinn forstjóri MS, og var þá varaformaður SVÞ, en önnur dæmi eru um að stjórnarmenn í SVÞ sitji áfram eftir að hafa skipt um starfsvettvang. Nokkrum mánuðum áður en Ari var fyrst kjörinn í stjórn SVÞ gagnrýndu samtökin MS vegna stóra smjörmálsins svokallaða.
„Innlendir framleiðendur á smjöri geta nú ekki annað innlendri eftirspurn, þannig að Mjólkursamsalan, einokunarfyrirtæki í mjólkurframleiðslu, flytur athugasemdalaust inn níutíu tonn af smjöri í jólamánuðinum. Þegar það hentar er bent á að írska smjörið sé á allan hátt sambærilegt því íslenska að gæðum. Rökin fyrir þeirri innflutningsvernd sem íslensk mjólkurframleiðsla nýtur eru þar með fokin út í veður og vind. Rökin gegn því lögboðna samkeppnisleysi sem ríkir í íslenskri mjólkurframleiðslu eru augljósari en nokkru sinni fyrr,“ sagði Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, í aðsendri grein í Fréttablaðinu þann 14. desember 2013.
Þegar Samkeppniseftirlitið sektaði MS um 370 milljónir króna í september 2014 fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu sagði Andrés meint brot fyrirtækisins kalla á tafarlausa endurskoðun búvörulaga. Skoraði hann á alþingismenn að þeir beittu sér fyrir auknu frelsi og samkeppni á markaði fyrir mjólkurvörur og sagði samtökin ætla að fara fram á að ákvæði búvörulaga, sem undanþiggur mjólkuriðnaðinn frá ákvæðum samkeppnislaga, yrði „afnumið hið snarasta“. Nokkrum vikum síðar sagði Andrés að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins kæmi sér ekki á óvart og að félagsmenn hefðu mjög oft kvartað undan viðskiptaháttum MS.
„Það er kannski ekkert skrítið að eitt fyrirtæki sem ber höfuð og herðar, er með 99 komma eitthvað prósent markaðshlutdeild á þessum markaði, það þarf svo sem engum að koma á óvart að þó að viðskiptavinirnir sem eiga einskis annars úrkosta en að skipta við þetta eina fyrirtæki hafi ýmislegt að athuga við viðskiptavenjur þessa fyrirtækis,“ sagði Andrés í samtali við RÚV þann 23. september 2014 og hélt svo áfram í aðsendri grein í Fréttablaðinu viku síðar:
„Málið allt sýnir fáránleika þess að lagaumgjörð geti verið með þeim hætti, að einu og aðeins einu fyrirtæki séu sköpuð skilyrði til að hafa nær algera einokunarstöðu á markaði, hverju nafni sem markaðurinn nefnist.“
Í umfjöllun Kastljóss um MS í október 2014 kom fram að talsmenn verslunarinnar höfðu ítrekað kvartað undan því að sitja ekki við sama borð og fyrirtækið og tengd félög í samskiptum sínum við landbúnaðarráðuneytið. Verslunarfyrirtækið Hagar hefði stefnt íslenska ríkinu vegna þessa og sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins. SVÞ gagnrýndu þá að MS hefði fengið leyfi til að flytja inn írska smjörið, án hárra tolla, á sama tíma og Högum var meinað að flytja inn lífræna kjúklinga á sömu kjörum. Í báðum tilfellum var skortur á markaði innanlands og var beiðni MS svarað innan sólarhrings en umsókn Haga hafnað tveimur vikum eftir að hún barst. Andrés Magnússon fullyrti þá að hraðinn hefði verið svo mikill að stjórnsýslulög hefðu verið brotin ef beiðnin hefði ekki verið afturkölluð af MS.
Verðlagsnefnd búvara tók svo í júlí 2015 ákvörðun um að hækka verð á mjólk og mjólkurafurðum um 3,58 prósent og smjör um 11,6 prósent. SVÞ mótmæltu ákvörðuninni í ályktun sem þau sendu í kjölfarið frá sér. Daginn eftir sagðist Ari Edwald, sem var í minnihluta við atkvæðagreiðslu um ályktunina og varaformaður SVÞ á þeim tíma, í samtali við Fréttablaðið, vera ósammála ályktuninni og að umræðan um landbúnaðarmál og mjólkurframleiðsluna væri „ákaflega yfirborðskennd“.
„Aðalatriðið er það ef menn ætla ekki að hafa opinbera íhlutun um verðlagningu, hvað ætti þá að taka við? Það er alveg ljóst að við þær aðstæður væri ekki landbúnaður á Íslandi eins og við þekkjum hann,“ sagði Ari.
Ljóst er að gagnrýni SVÞ á búvörusamningana, sem Alþingi samþykkti í september, stangast einnig á við hagsmuni MS og skoðanir Ara. Í maí síðastliðnum sendu samtökin frá sér fréttatilkynningu þar sem þau drógu í efa að gerð samninganna stæðist stjórnarskrá og lög um opinber fjármál. Daginn sem þeir voru samþykktir af meirihluta þingmanna sögðu Jón Björnsson, varaformaður SVÞ og forstjóri Festis, og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri samtakanna, að íslensk stjórnvöld hefðu gloprað tækifæri til að láta Mjólkursamsöluna „vinna hylli neytenda í krafti betri vara og verðs“. Í stað þess hefðu þau valið að „pakka fyrirtækinu í þægilegar tollverndarumbúðir og halda áfram sömu vegferð og síðastliðin 20 ár“.
„Samtök verslunar og þjónustu eru einfaldlega þeirrar skoðunar að nýgerðir búvörusamningar komi ekki til með að skila bændum neitt fram á veginn, miklu fremur að verið sé að festa í sessi óbreytt ástand til næstu ára. Hins vegar er hægt að fullyrða að þeir muni ekki skila íslenskum neytendum neinum ávinningi,“ segir í grein sem Jón og Andrés skrifuðu í Fréttablaðið þann 13. september.
Ari barðist fyrir því að klausa úr ályktun sem efnahags- og viðskiptanefnd Sjálfstæðisflokksins lagði til á landsfundi flokksins í október 2015, sem fól í sér að endurskoða þyrfti búvörulögin frá grunni og draga úr aðgangshindrunum á íslenskum mörkuðum, skyldi felld út. Í ályktuninni var bent á að aukið viðskiptafrelsi bæti hag neytenda og að samkeppnislög ættu að gilda um landbúnað eins og aðrar atvinnugreinar. Varaformaður SVÞ á þeim tíma, og formaður atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins, sem mótar stefnu flokksins í landbúnaðarmálum, hafnaði því tillögu hóps Sjálfstæðismanna sem vildi ná fram sömu breytingum og samtökin hafa talað fyrir síðustu ár. DV óskaði eftir viðtali við Ara vegna þessarar umfjöllunar en því var ekki svarað.
Eftir ábendingu frá Mjólkursamsölunni, sem barst eftir að helgarblað DV kom út, er bent á að meirihluti áfrýjunarnefndar samkeppnismála komst í nóvember að þeirri niðurstöðu að MS hefði ekki gerst sek um misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Sektin sem Samkeppniseftirlitið lagði á fyrirtækið í september 2014 var því felld úr gildi. Aftur á móti hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að bera úrskurð áfrýjunarnefndarinnar undir Héraðsdóm Reykjavíkur og höfða dómsmál gegn MS.