fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Kópavogsbær leigir hljóðkerfi af fyrirtæki í eigu formanns HK

Samdi við Exton um leigu á hljóðkerfi fyrir Kórinn – Leitaði ekki eftir tilboðum

Ritstjórn DV
Föstudaginn 16. desember 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kópavogsbær leitaði ekki eftir tilboðum í hljóðkerfi fyrir íþróttahúsið Kórinn áður en bæjaryfirvöld sömdu við fyrirtækið Exton um leigu á tækjum. Íþróttafélagið HK fór fram á að hljóðkerfi hússins yrði endurnýjað en formaður þess er einn eigenda og framkvæmdastjóri hjá Exton. Formaðurinn keypti sig inn í fyrirtækið í júlí eða í sama mánuði og Exton bauð Kópavogsbæ að leigja kerfið. Til greina kemur að bærinn kaupi hljóðkerfið en leigan hljóðar upp á átta milljónir króna í 17 mánuði.

„Leiguverðið er átta milljónir króna og í því er innifalin uppsetning, kennsla og viðhald. Þessi upphæð er ekki útboðsskyld og er undir mörkunum. Bærinn hefur í gegnum tíðina átt í margvíslegum viðskiptum við fyrirtækið og þeir hafa komið að einhverjum af tónleikunum í Kórnum,“ segir Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, aðspurð af hverju bærinn leitaði ekki tilboða í hljóðkerfi fyrir Kórinn.

Sigurjón Sigurðsson keypti í sumar hlut í Exton ehf. Fyrirtækið leigir Kópavogsbæ hljóðkerfi fyrir Kórinn.
Formaður HK Sigurjón Sigurðsson keypti í sumar hlut í Exton ehf. Fyrirtækið leigir Kópavogsbæ hljóðkerfi fyrir Kórinn.

Bieber-kerfi

Sigríður Björg segir að umhverfissvið bæjarins hafi þann 1. júlí síðastliðinn samið um leigu á tækjunum sem voru sett upp fyrir tónleika kanadísku poppstjörnunnar Justins Bieber í Kórnum. Tónleikarnir voru haldnir 9. september en leigusamningurinn tók gildi 1. september. Kópavogsbær var því byrjaður að greiða leigu þegar Sena Live hélt tónleikana en taka ber fram að hljóðkerfið var einungis hluti af þeim tækjabúnaði sem viðburðafyrirtækið notaði til tónleikahaldsins.

Hljóðkerfið sem Kópavogsbær leigir nú var sett upp fyrir tónleika Justins Bieber í Kórnum í byrjun september.
Notaði kerfið Hljóðkerfið sem Kópavogsbær leigir nú var sett upp fyrir tónleika Justins Bieber í Kórnum í byrjun september.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Það kemur til greina að kaupa kerfið en það hefur ekki verið samið um það og ekki er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun bæjarins 2017,“ segir Sigríður Björg.

Krafa frá KSÍ

Sigurjón Sigurðsson, formaður HK og framkvæmdastjóri lausnarsviðs Exton, segir í samtali við DV að fyrirtækið hafi haft frumkvæði að því að Kópavogsbær leigði kerfið. Í tilkynningu sem fjölmiðlum barst þann 7. júlí kom fram að Sigurjón og Ríkharður Sigurðsson, bróðir hans og núverandi framkvæmdastjóri Exton, hefðu keypt hlut í fyrirtækinu. Aðspurður staðfestir Sigurjón að HK hafi farið fram á að hljóðkerfi Kórsins yrði endurnýjað.

„HK hefur farið fram á það í gegnum tíðina að það verði sett viðunandi hljóðkerfi samkvæmt því sem KSÍ hefur krafist. Það heyrðist ekkert í kerfinu sem var þarna áður enda var það eldgamalt. Dómarar voru búnir að kvarta yfir því í langan tíma og þegar landsleikir og slíkt hefur verið haldið hefur annað kerfið verið leigt inn í húsið,“ segir Sigurjón og þvertekur fyrir að hann hafi setið beggja megin borðsins sem formaður HK.

„Þótt ég sé í sjálfboðaliðastarfi í íþróttahreyfingunni þá var það ekki þannig. Við ætluðum að selja kerfið úr landi en buðum bænum að ganga inn og leigja það. Við vorum þá beðin um að tiltaka verð í kerfið og þeir tóku því. Þetta var ekki flóknara en það,“ segir Sigurjón.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus
Fréttir
Í gær

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?