Landsframleiðsla ekki aukist jafn mikið síðan í árslok 2007
Landsframleiðsla á þriðja ársfjórðungi 2016 jókst að raungildi um 10,2% frá sama tímabili fyrra árs en það mesta aukning sem mælst hefur frá því á síðasta ársfjórðungi 2007.
Þetta kemur fram í nýrri frétt frá Hagstofu Íslands en þar segir að aukinn hagvöxtur nú skýrist að verulegu leyti af framlagi utanríkisviðskipta. Þannig jókst útflutningur að raungildi um 16,4% miðað við sama tímabil árið 2015. Þá jókst árstíðaleiðrétt landsframleiðsla að raungildi um 4,7% frá 2. Ársfjórðungi 2016.
Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur hagvöxtur aukist um 6,2% að raungildi á milli ára. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 9,3%. Einkaneysla jókst um 6,7%, samneysla um 1,1% og fjárfesting um 27,4%. Útflutningur jókst um 10,0% og innflutningur nokkru meira, eða um 16,6%.